Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 19:10:52 (2625)

2001-12-06 19:10:52# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[19:10]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gat þess að opinberar skýrslur segðu að ýmsir staðir úti á landi færu illa út úr þessu. Ég mundi nú ráðleggja þeim sem sjá um rekstur þeirra sveitarfélaga að líta í eigin barm til að komast að því hvað sé að. (Gripið fram í.) Já, þau sveitarfélög sem um er að ræða þurfa að skoða sinn gang. Ef fyrirtæki skila ekki hagnaði, þá guð hjálpi þeim. Og guð hjálpi viðkomandi sveitarfélögum. Menn þurfa að taka sér tak og menn þurfa þá að hvetja til nýsköpunar í atvinnurekstri sem skilar hagnaði.

Fyrirtæki sem ekki skila hagnaði til langtíma eru dauðadæmd. Þau eru dauðadæmd, herra forseti.

Það er afskaplega dapurlegt ef í ljós kemur að fyrirtæki skili ekki hagnaði. Menn þurfa þá að skoða hvort stjórnin sé nægilega góð, hvort þeir hafi stundað nægilega mikla hagræðingu. Og þá kemur maður einmitt að áhrifum hækkunar tryggingagjaldsins sem á að hvetja fyrirtæki til að hagræða og spara í mannskap sem er vel hægt þegar hver einasta hönd fær vinnu í landinu.

Varðandi svartnættið, þá er ljóst að gengið hefur fallið og vextir eru háir. Það er að mínu mati hvort tveggja afleiðingin af afskaplega mikilli skuldsetningu einstaklinga og til þess að hún lendi ekki í ósköpum er einmitt mjög brýnt að menn sjái til þess að atvinna í landinu sé næg og það gerum við einmitt með því að lækka skatta á tekjur og hagnað fyrirtækja.