Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 21:56:10 (2638)

2001-12-06 21:56:10# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[21:56]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar og því sem ég gerði að umtalsefni í dag, þ.e. brtt. sem hann flytur á þskj. 473 um að lög þessi taki gildi einu ári seinna en ríkisstjórnin leggur til miðað við 54. gr. Ef þessi brtt. er lesin er ekki hægt að leggja annan skilning í hana, en af nál. mætti skilja annað. Í brtt. er lagt til að skattkerfisbreytingu ríkisstjórnar verði frestað, ekki vísað frá, ekki að hún verði felld, heldur frestað.

Formaður Vinstri grænna gerir að vísu mjög lítið úr mínum stutta þingferli og talar um það með miklum hroka að við, þessir nýju, höfum ekki mikla reynslu. Ég hefði talið betra og vil spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson hvort ekki hefði verið betra að leggja til að þeim hluta sem hann segist vera ósammála yrði vísað til ríkisstjórnar eða tillagan hreinlega felld. Á því er mikill munur.

Herra forseti. Ef ég les þessi tvö plögg, brtt. frá 2. minni hluta efh.- og viðskn., hv. þm. Ögmundi Jónssyni, og nefndarálitið þá tel ég þetta ekki vera frá sama hópnum. Það er grundvallaratriðið. Það sem segir í brtt. er allt annað en það sem kemur fram í nefndarálitinu, fyrir utan að það stendur hér að tillögunum verði frestað. Að fresta tillögum er ekki það sama og að vera á móti eða leggja til að þær verði felldar. Þetta er grundvallaratriðið.

Ég vil bara spyrja út í það. Hér stangast hlutirnir á. Það kom fram, ekki alls fyrir löngu, að lagt var til að skera niður framkvæmdir til hafna fyrir austan, allan pakkann í einu sveitarfélagi. Það reyndist svo ekki vera rétt. Það átti bara að vera ein höfnin af þremur. Er ekki svipuð vitleysa hér á ferðinni?