Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Fimmtudaginn 06. desember 2001, kl. 21:58:16 (2639)

2001-12-06 21:58:16# 127. lþ. 45.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 127. lþ.

[21:58]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða um þá stóru sigra sem menn vinna hér í þingsal á tæknilegum forsendum. (Gripið fram í.) En hvort mér fyndist betra að skattapakki ríkisstjórnarinnar yrði felldur en að honum yrði frestað, ég er sammála því. Mér þætti betra að skattapakki ríkisstjórnarinnar yrði felldur vegna þess að ég er andvígur honum.

Ég er hins vegar að ræða það --- ég hélt að menn hefðu skilið þau orð mín hér áðan --- að ég tel mikilvægt að við myndum þverpólitíska samstöðu um skattkerfisbreytingar, aðrar en þær sem hér eru lagðar til. Við vitum að að baki skattapakka ríkisstjórnarinnar stendur ríkisstjórnin og stjórnarmeirihluti á Alþingi. Ég legg til að menn skjóti á frest framkvæmd þessara ranglátu og að mínum dómi vanhugsuðu skattbreytinga til þess að við getum tekið höndum saman og komið þar öðrum sjónarmiðum að sem mér finnst vitlegri. Undir þetta taka aðilar, einnig úr sama pólitíska ranni og ríkisstjórnin kemur almennt úr, og telja að á þessu þurfi að gera ýmsar breytingar án þess að þeir vilji endilega hlaupa frá allri sinni sannfæringu og skoðunum.

Tillagan gengur út á að reyna að tala hæstv. ríkisstjórn inn á þá skoðun sem er studd af Þjóðhagsstofnun, af Seðlabanka og öðrum þeim aðilum sem gerst þekkja um þessi mál og freista þess að ná samstöðu á grundvelli skynsemi og einhvers réttlætis.