Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 12:23:26 (2657)

2001-12-07 12:23:26# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[12:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins til að eiga orðastað við hv. formann fjárln. Ég tek eftir því að verið er að taka þakið af ferliverkum hjá sjúklingum, það er verið að hækka gjöld á sjúklinga um 200--300% í þessum fjárlögum áður en kemur að hámarksgjaldi fyrir læknisþjónustu sem var hækkað um 50% í sumar.

Ég spyr hv. þm. hvort hann telji að þarna séu breiðu bökin. Ég vek athygli á því að gjöld fyrir sjúklinga hafa hækkað mjög í tíð þessarar ríkisstjórnar. Mig langar til að nefna dæmi af krabbameinssjúklingi, 18 ára stúlku utan af landi, sem greindist með krabbamein núna í haust. Hún þarf að koma til Reykjavíkur á 14 daga fresti til að fara þar í göngudeildarmeðferð. Hún þarf að greiða fyrir krabbameinsmeðferðina --- fyrst þarf hún að greiða fyrir lyfjabrunn 6.500 kr., fyrir viðtal við lækni og lyfjainnhellingu 9.300 kr., síðan annan daginn í blóðprufu 1.580 kr. og loks fyrir rannsókn 1.200 kr. Þetta eru 18.580 kr. sem þessi unga stúlka, 18 ára gömul, sem greinst hefur með krabbamein, þarf að greiða á göngudeild.

Síðan á að fara að hækka gjöldin fyrir ferliverkin og sérfræðiþjónustuna, taka í burtu 5.000 kr. þakið sem var ekki lítið látið með þegar þessi ríkisstjórn kom því á. Það á að taka af sem gerir það að verkum að gjöld fyrir sjúklinga sem þurfa að koma til sérfræðilækna eða í ferliverk geta hækkað um 200--300% áður en kemur að afsláttarkortinu.

Ég spyr hv. þm.: Eru þetta breiðu bökin hjá flokknum sem vill fólk í fyrirrúmi?