Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 12:29:31 (2661)

2001-12-07 12:29:31# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta MF
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[12:29]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram um viðveru hæstv. ráðherra en vil þó að það komi skýrt fram að hæstv. heilbrrh. sem var hér í morgun lét vita af því að hann þyrfti að bregða sér frá og yrði ekki við umræðuna fyrri hluta dags. Hann hafði samband við framsögumenn minnihlutaálitanna svo að öllu sé haldið til haga.

Virðulegi forseti. Gott væri ef önnur eins yfirvegun og agi væru í tillögum þeim sem hv. formaður fjárln. flytur með nál. meiri hluta fjárln. eins og var í ítarlegum flutningi hans á nál. meiri hluta fjárln. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

[12:30]

Ég mæli fyrir frhnál. um frv. til fjárlaga fyrir árið 2002 frá 1. minni hluta fjárln. á þskj. 498. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég verð að taka það fram að mér sýnist að eitthvað hafi misfarist í yfirlestri þingskjalsins áður en því var dreift í hraðanum sem var síðustu nótt. En um forsendur frv. segir í áliti 1. minni hluta:

Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 eru að draga úr verðbólgu og viðskiptahalla, treysta undirstöður atvinnulífsins og tryggja varanlegan stöðugleika. Þessum markmiðum ætlaði ríkisstjórnin að ná með aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum sem lýsir sér m.a. í því að hún stefndi að því að tekjuafgangur næsta árs yrði 18,6 milljarðar kr. og lánsfjárafgangur 41 milljarður kr. Megináherslan samkvæmt fjárlagafrumvarpi var lögð á að bæta rekstrarskilyrði atvinnulífsins. Lækkun skatta og einkavæðingaráform eru sögð hluti af þeirri stefnu. Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að sala ríkisfyrirtækja gefi um 15,5 milljarða kr. tekjur eða langstærstan hluta af áætluðum tekjuafgangi. Án sölu eigna er tekjuafgangur aðeins rúmir 3 milljarðar kr.

Helstu efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins voru m.a. að hagvöxtur yrði um 1% og hækkun verðbólgu yrði nálægt 3% innan ársins og um 5% á milli áranna 2001 og 2002. Þessar forsendur höfðu þegar breyst áður en 1. umr. fór fram eins og Samfylkingin benti á. Ríkisstjórnin brást illa við þeim málflutningi eins og kom fram í yfirlýsingum og fréttatilkynningum frá ráðherra. Nú við 3. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2002 er komin endurskoðuð þjóðhagsspá sem staðfestir veikleika frumvarpsins og hefur fjármálaráðuneytið einnig breytt sinni spá verulega og þar með viðurkennt þær athugasemdir sem Samfylkingin gerði við þær forsendur sem frumvarpið byggðist á. Þó er í mörgum atriðum verulegur munur á spám þessara tveggja stofnana eins og vikið verður að hér á eftir.

Við 2. umr. um frumvarp til fjárlaga lagði meiri hluti fjárlaganefndar til að útgjöld hækkuðu um 2,2 milljarða kr. Að mati 1. minni hluta var umræða um þær tillögur sem þar komu fram að hluta til marklaus þar sem fyrir lá að stór mál biðu 3. umr. Var einnig bent á að líklegt væri að einhverjar þessara tillagna mundu taka verulegum breytingum við 3. umr. Þetta hefur gengið eftir, t.d. hvað varðar lífeyrisskuldbindingar og framlag til byggingar Náttúrufræðihúss.

Efnahagsforsendur. Eins og venja er til liggur nú fyrir endurskoðuð þjóðhagsspá frá Þjóðhagsstofnun. Eins og von var á eru efnahagshorfur á næsta ári töluvert lakari en gert var ráð fyrir þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram. Nú er gert ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 1,5% og að fjárfestingar dragist saman um 14%. Þá er gert ráð fyrir að innflutningur dragist saman um 7,1% og útflutningur um 1,8%. Þjóðhagsstofnun gerir nú ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 1% en í fyrri spá stofnunarinnar var gert ráð fyrir 0,3% samdrætti. Ef þessi spá gengur eftir þá er það í fyrsta sinn síðan 1992 að landsframleiðsla dregst saman á milli ára. Þá er gert ráð fyrir að verðbólga verði um 6,1% á milli ára. Í forsendum Þjóðhagsstofnunar fyrir þeirri verðlagsspá er gert ráð fyrir að gengisvísitala krónunnar verði 147,2 sem var skráð gengi hennar 3. desember sl. Þá bendir stofnunin á að spenna á vinnumarkaði sé að minnka og reiknar með að atvinnuleysi verði um 2% á næsta ári. Verulega dregur úr launaskriði og er þess reyndar þegar farið að gæta. Þjóðhagsstofnun tekur fram að nokkur óvissa ríki um spána, ekki síst launa- og gengisforsendur. Launaforsendur byggjast m.a. á því að kjarasamningar verði ekki endurskoðaðir. Miðað við þá þróun sem verið hefur undanfarið má telja næsta víst að þeim verði sagt upp á næsta ári. Það kemur einnig fram að í þeim forsendum sem Þjóðhagsstofnun gefur sér er gert ráð fyrir að efnahagsstefnan verði aðhaldssöm en þess sjást ekki merki í frumvarpi til fjárlaga né þeim efnahagsráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt við lokaafgreiðslu fjárlaga.

Nýrri tekjuspá fjármálaráðuneytisins fylgdi endurskoðuð efnahagsspá. Þessi spá er í veigamiklum atriðum frábrugðin spá Þjóðhagsstofnunar. Miðað við að sérfræðingar hafa talið spá hennar í bjartsýnna lagi verður ekki annað sagt en þessi nýja spá ráðuneytisins lýsi upp skammdegið. Ráðuneytið spáir reyndar að landsframleiðsla dragist saman um 0,5% sem er umtalsverð breyting frá því að frumvarpið var lagt fram en þá gerði ráðuneytið ráð fyrir að landsframleiðslan ykist um 1%. Mestur munur á spá þessara tveggja stofnana liggur í mati þeirra á þróun á inn- og útflutningi vöru og þjónustu. Þannig spáir ráðuneytið að útflutningur vöru og þjónustu aukist um 1% á næsta ári en Þjóðhagsstofnun spáir 1,8% samdrætti. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir í sinni spá að innflutningur vöru og þjónustu dragist saman um 4,3% en í endurskoðaðri þjóðhagsáætlun var gert ráð fyrir mun meiri samdrætti eða 7,1%. Verður að telja þennan mun ótrúlegan í ekki stærra efnahagsumhverfi en raun ber vitni.

Gert er ráð fyrir að halli á vöruskiptum minnki nokkuð á milli ára og er nú gert ráð fyrir að hallinn nemi 3,9 milljörðum kr. Þá má búast við að jöfnuður á þjónustuviðskiptum verði jákvæður á næsta ári sem nemur 2 milljörðum kr. Þrátt fyrir þetta er samt gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði 38,5 milljarðar kr. eða 4,9% af landsframleiðslu. Ástæða þessa er sú að vegna skuldasöfnunar erlendis og óhagstæðrar þróunar aukast vaxtagreiðslur af erlendum skuldum jafnt og þétt og spáð er að jöfnuður þáttatekna verði af þeim sökum neikvæður um 35,8 milljarða kr. á komandi ári.

Breytingar á gjöldum við 3. umr. Eftir 2. umr. gerði frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2002 ráð fyrir að útgjöld næmu 241,5 milljörðum kr. Nú við 3. umr. frumvarpsins er lagt til að útgjöld ríkisins á næsta ári verði skorin niður um rúma 2 milljarða kr. Það sem einkennir þennan niðurskurð er þrennt. Í fyrsta lagi er frestað ýmsum framkvæmdum, í öðru lagi er aukinn hlutur sjúklinga í lyfjakostnaði og komugjöldum og í þriðja lagi er markmiðinu náð með að reikna niður lífeyrisskuldbindingar.

Í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir þetta ár hækkuðu komugjöld, þök og hámarksgreiðslur fyrir hverja komu til sérfræðilæknis frá og með 1. júlí sl. Þessar breytingar juku hlut sjúklings við komu til sérfræðilækna. Endanleg áhrif þessara hækkana liggja ekki fyrir en áætlanir heilbrigðisráðuneytis gerðu ráð fyrir að hlutur sjúklings í heildarkostnaði við komu til sérfræðings yrði um 32%. Ríkisstjórnin telur ekki nóg að gert og ætlar nú að höggva í sama knérunn með viðbótarhækkunum.

Samkvæmt svörum heilbrigðisráðuneytis á að ná áformuðum sparnaði í lyfjakostnaði með fjölþættum aðgerðum. Þar vega þó þyngst áform um hækkun á lágmarks- og hámarksgreiðslum lyfja. Sá kostnaður mun einnig lenda á sjúklingum.

Þá er nauðsynlegt að gera athugasemd við þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram vegna gjaldfærðra lífeyrisskuldbindinga. Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir að þær næmu 6,2 milljörðum kr. Við 2. umr. um fjárlög voru þær lækkaðar um 624 millj. kr. vegna skekkju sem talin var vera í reikningsgrunni. Nú við 3. umr. eru þær enn lækkaðar og nú um 800 millj. kr. á sömu forsendum, þ.e. að grunnurinn hafi ekki verið réttur. Þetta eru ekki trúverðugar breytingartillögur. Líklegra er að hér sé um að ræða ,,afgangstölu`` sem sniðin er að þörfum ríkisstjórnarinnar til að henni takist að ná þeim tekjuafgangi sem hún lagði upp með í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002. Það eru hins vegar engin rök fyrir þessari lækkun. Allar stærðir varðandi kjarasamninga, að undanskildum kjarasamningum sjúkraliða, voru þekktar og komnar fram þegar frumvarpið var lagt fram. Þá er ekkert í spá um launaþróun sem réttlætir þessa lækkun. Það er því ekki hægt að færa skynsamleg rök fyrir þessum breytingum og bendir allt til að gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar verði ekki undir upphaflegri áætlun, þ.e. um 6 milljarðar kr. á árinu 2002 og gætu jafnvel orðið hærri.

Lánsfjáráætlun. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir að ríkissjóður taki að láni 15 milljarða kr. á næsta ári og að hreinn lánsfjárjöfnuður verði 41,2 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði niður lán að fjárhæð 40,2 milljarðar kr. og að sala hlutabréfa og eignarhluta nemi 20 milljörðum kr. Ljóst er að miðað við þá fjármálastjórn sem ríkisstjórnin hefur tamið sér og þá miklu veikleika sem eru á tekjuhlið er hætt við að markmið um enn frekari skuldalækkun gangi ekki eftir.

Tekjuhlið frumvarpsins. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 var gert ráð fyrir að tekjur næmu 258,9 milljörðum kr. Strax við 1. umr. komu fram efasemdir um tekjuhlið frumvarpsins. Var helst horft til þess að ýmsar efnahagsforsendur voru byggðar á mikilli bjartsýni. Nú hefur verið lögð fram endurskoðuð tekjuspá sem gerir ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs breytist ekkert frá frumvarpi. Þetta gerist þrátt fyrir að efnahagsforsendur fjármálaráðuneytisins séu heldur svartari en það hafði áður gert ráð fyrir. Samkvæmt frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir að skattahækkanir og hækkun rekstrartekna einstakra stofnana, sem koma fram í hækkuðum þjónustugjöldum, skili um 1 milljarði kr. í tekjuauka. Auk þess er gert ráð fyrir að hækkun áfengis- og tóbaksgjalds skili um 450 millj. kr. Ljóst er að hluti þessara hækkana fer beint inn í vísitöluna og hækkar þar með skuldir heimilanna.

Að mati 1. minni hluta eru þau vinnubrögð sem höfð eru við gerð tekjuáætlunar með eindæmum. Enn einu sinni er tekjuhliðin ,,aðlöguð`` að gjaldahlið þannig að viðunandi tekjuafgangur náist. Ekki verður séð að þær efnahagsforsendur sem fjármálaráðuneytið gefur sér varðandi launaþróun, atvinnuleysi og fjárfestingar standi undir þeim auknu tekjum af tekjuskatti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þá virðast áætlaðar tekjur af virðisaukaskatti ekki standast þegar litið er til samdráttar í einkaneyslu og verulegs samdráttar í innflutningi á vöru og þjónustu. Að öllu samanlögðu telur 1. minni hluti ekki óvarlegt að áætla að tekjur séu ofmetnar um 3,5 til 4 milljarða kr.

Verðlag og gengismál. Þjóðhagsstofnun spáir því að verðbólga verði um 6% á milli áranna 2001 og 2002. Þetta er heldur lægri verðbólga en stefnir í að verði á þessu ári. Þetta byggist þó að sjálfsögðu mikið á þróun gengis á árinu 2002. Það er mikilvægt fyrir íslenska fjármálamarkaðinn og krónuna að ríkissjóður sé rekinn með afgangi en ekki er sama hvernig sá afgangur er samansettur. Eftir að tillögur ríkisstjórnarinnar birtust í fjölmiðlum hefur ekki orðið sú breyting til batnaðar á gengi krónunnar sem vænta mátti. Það sýnir að fjármálamarkaðurinn metur að frumvarpið eins og það lítur núna út, og þar með tillögur ríkisstjórnarinnar, sé ekki trúverðugt og byggist á allt of veikum forsendum. Áhrif þess á efnahagsumhverfið verða því lítil sem engin. Þegar helmingur niðurskurðartillagna byggist á bókhaldslegum millifærslum og tekjuhliðin er notuð sem afgangsstærð er ekki furða þótt svo fari. Það eina sem er varanlegt í tillögum ríkisstjórnarinnar eru hækkandi álögur á almenning, þó sérstaklega á nemendur og sjúklinga.

Breytingartillögur 1. minni hluta. Við 3. umr. leggur 1. minni hluti fram breytingartillögur sem gera ráð fyrir að tekjuafgangur ríkissjóðs verði rúmlega 3 milljarðar kr. að frádregnum söluhagnaði ríkiseigna. Lagt er til að skatteftirlit verði hert með 100 millj. kr. aukinni fjárheimild. Gert er ráð fyrir að það skili auknum skatttekjum sem samsvara um 810 millj. kr. Þá er einnig lagt til að þróunarsjóðsgjald verði hækkað um 900 millj. kr. og þeirri hækkun ráðstafað til stofnana sjávarútvegsins á móti lækkun sömu upphæðar úr ríkissjóði. Þá gerir 1. minni hluti tillögur um að framkvæmdum á stjórnarráðsreit og við Vestnorræna menningarhúsið í Kaupmannahöfn verði slegið á frest og þannig sparaðar tæpar 400 millj. kr. Aðrar sparnaðartillögur gera ráð fyrir aðhaldsaðgerðum af hálfu ráðuneyta og stofnana ríkisins með lækkun ferða- og risnukostnaðar, sérfræðikostnaðar, annars rekstrarkostnaðar og frestunar á flutningi fjárheimilda milli ára. Samtals skila þessar tillögur um 2 milljörðum kr. Við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar gerir 1. minni hluti aðeins tillögur um aukin útgjöld til þriggja málaflokka, þ.e. til heilbrigðisstofnana, málefna fatlaðra og löggæslu. Tillögurnar nema samtals 625 millj. kr.

Og, virðulegi forseti, yfir þessar tillögur verður farið síðan aftur af öðrum hv. þm. Samfylkingarinnar.

Aðhald og eftirlit. Það má segja að það sé eins og að berja höfðinu við steininn að hvetja ríkisstjórnina til að sýna aðhald og sparsemi á næsta ári. Það væri forsvarsmönnum hennar væri hollt að lesa nefndarálit fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd vegna fjáraukalaganna fyrir árið 2001 og frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2002. Ekki er úr vegi að rifja upp aðvörunarorð Seðlabankans sem birst hafa reglulega í ritum hans frá árinu 1998. Í nóvember það ár vakti bankinn athygli á því að mikill vöxtur útlána væri verulegt áhyggjuefni af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi ýtti hann undir vöxt innlendrar eftirspurnar og stuðlaði þannig að auknum viðskiptahalla og/eða meiri verðbólgu og í öðru lagi gæti mikilli útlánaþenslu fylgt veruleg áhætta fyrir lánastofnanir sem gætu leiðst út í áhættusamari lánveitingar sem ekki skiluðu tilætlaðri ávöxtun þegar slægi í bakseglin í þjóðarbúskapnum.

Ári síðar benti bankinn á að full ástæða væri til að taka alvarlega þann vanda sem viðskiptahallinn skapaði þar sem hann gæti til lengdar grafið undan stöðugleika gengisins, auk þess sem vaxandi skuldir þjóðarbúsins sem honum fylgja gera það viðkvæmara fyrir áföllum. Í febrúar árið 2000 lagði Seðlabankinn til að beitt yrði aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu og taldi það ásamt minnkandi viðskiptahalla geta leið til þess að draga mætti úr hækkun raungengis. Taldi bankinn sérstaklega mikilvægt að ekki yrði farið fram úr útgjöldum fjárlaga og að tekjur umfram fjárlög skiluðu sér að fullu í bættri afkomu ríkissjóðs.

Síðar á árinu 2000 vakti Seðlabankinn athygli á að ólíklegt væri að svo mikið ójafnvægi í utanríkisviðskiptum gæti viðgengist til lengdar án snöggra umskipta og væri alvarleg ógnun við stöðugleika til frambúðar.

Allar þessar aðvaranir kaus ríkisstjórnin að hunsa og vildi ekki horfast í augu við vandann og taka á honum nægjanlega tímanlega til að forðast þá hröðu niðursveiflu sem nú blasir við.

Í þessu frumvarpi er ekki leystur vandi margra ríkisstofnana sem standa höllum fæti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir tímabilið janúar til september 2001 kemur fram að hjá 30 stofnunum eða á safnliðum fjárlaga nemur hallinn 20% eða meira af heildarfjárheimildum ársins. Ríkisendurskoðun telur með öllu óraunhæft að flytja svo mikinn halla á milli ára nema að ljóst sé að stofnanir geti hagrætt svo í rekstri að þær ráði við slíka skerðingu. Að sama skapi telur Ríkisendurskoðun þörf á að endurskoða rekstrargrunn þeirra stofnana sem safnað hafa upp fjárheimildum. Þannig er ljóst að endurskoða þarf reglur sem settar hafa verið um flutning fjárheimilda milli ára.

[12:45]

Í fyrri nefndarálitum hefur 1. minni hluti fjárln. gert grein fyrir þeim lögum og reglugerðum sem gilda um fjárveitingar úr ríkissjóði og eftirlit með þeim. Hefur hann í því sambandi vitnað til skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárlagaferlið en þar koma fram ýmsar áhugaverðar staðreyndir um fjárlagagerð og eftirlit með þeim sem vert er að gefa gaum. Þar er m.a. bent á að eftir á veitt fjárheimild feli í raun í sér raunverulegt framsal fjárveitingavalds til ríkisstjórnarinnar enda þótt hið formlega vald sé hjá Alþingi. Á þessu ári kom einnig í ljós að reglugerð fjármálaráðuneytis um framkvæmd fjárlaga hélt hvorki vatni né vindi þegar kom að útgjalda\-ákvörðunum einstakra ráðherra. Má í því sambandi benda á samninga fjármálaráðherra við Skýrr hf. og umframkeyrslu einkavæðingarnefndar forsætisráðherra.

Mikil fjölgun hefur orðið á samningum ráðuneyta um fjárfestingar og ýmis rekstrarverkefni. Þetta hefur m.a. leitt til þess að stór hluti þeirra fjármuna sem ætlaðir eru til ýmissa verkefna í fjárlögum eru þegar samningsbundnir. Þetta er varasöm þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og dregur því í raun úr fjárveitingavaldi Alþingis. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002 kemur fram að alls nemur skuldbinding vegna þessara samninga rúmum 18 milljörðum kr. á því ári.

Alþingi samþykkir ár hvert fjölda lagabreytinga er varða stofnanir ríkisins. Eftirlitið með framkvæmd laganna er mikilvægur þáttur í allri stjórn á útgjöldum ríkisins til einstakra stofnana og verkefna. Það er hlutverk framkvæmdarvaldsins að sjá til þess að vilji Alþingis nái fram að ganga. Nauðsynlegt er að Alþingi sé á hverjum tíma vel upplýst um framkvæmd laga. Það verður síst gert með því að torvelda Alþingi aðgang að upplýsingum og jafnvel koma algjörlega í veg fyrir að umbeðnar upplýsingar berist. Slík vinnubrögð eiga ekki að tíðkast í lýðræðisþjóðfélagi.

Virðulegi forseti. Undir nál. 1. minni hluta skrifa auk mín hv. þingmenn Gísli S. Einarsson og Einar Már Sigurðarson.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki í þessari framsögu minni með nefndaráliti okkar, fulltrúa Samfylkingarinnar, að fara ítarlega yfir einstakar breytingatillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar flytur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Það verður gert hér á eftir þótt þær séu í sjálfu sér ekki mikillar umræðu virði.

Þessar tillögur eru fyrst og fremst afrakstur þeirra vinnubragða sem hafa einkennt fjárlagagerðina síðustu ár, og ef til vill á það stærstan þátt í ótrúverðugleika þeirra.

Ábyrgðin á tillögunum og þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru við undirbúning og lokagerð fjárlaga er þeirra sem tillögurnar og frumvarpið flytja.

Fulltúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn., hv. þm. Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, fóru í umræðum í gær og í ítarlegu nefndaráliti yfir skattapakka ríkisstjórnarinnar og eins og fram kemur í nefndarálitinu eru skattatillögurnar að okkar mati að mörgu leyti illa ígrundaðar og fljótfærnislegar miðað við það ástand sem er í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Mörgum hættir til að detta í þann pytt þegar vel árar að fara í gervi jólasveinsins og útdeila gjöfum, loforðum og samningum. Það hefur ríkisstjórnarmeirihlutinn sannarlega gert á undanförnum árum og aukið útgjöld ríkisins gífurlega.

Tekjurnar hafa vissulega aukist en það hafa útgjöldin einnig gert og ekki alltaf skynsamlega farið með. Hins vegar getur reynst erfitt að standa við öll fyrirheitin og samningana þegar að kreppir. Það hefur jafnvel gerst að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafi strax að lokinni afgreiðslu fjárlaga, án þess að nokkur umræða hafi átt sér stað á Alþingi, gert samninga um fjárfestingar og rekstur. Það eru ólíðandi vinnubrögð og til þess eins fallin að draga úr trúverðugleika fjárlaga. Stór hluti þeirra fjármuna sem áætlaðir eru til ýmissa verkefna eru þegar samningsbundnir, og margir samningar gerðir án undangenginnar umræðu í sölum Alþingis.

Samþykki Alþingis kemur oftar en ekki eftir á þegar ráðherrar hafa í raun skuldbundið fylgilið ríkisstjórnar til að samþykkja raunverulegt ,,fjárveitingavald`` ríkisstjórnarinnar og þar með draga úr vægi þess fjárveitingavalds sem á að vera hjá Alþingi. Það hefur verið skert stórlega, er varla lengur til staðar, a.m.k. ekki á þann hátt sem lög gerðu ráð fyrir.

Þá hafa þau vinnubrögð verið tekin upp að stofnanir ráðuneyta senda erindi sín inn í gegnum fagráðuneyti og ,,fá`` að koma fyrir fjárlaganefnd ef ráðuneytin náðarsamlega samþykkja og helst að fulltrúi þeirra sitji yfir þegar stofnanir flytja mál sitt.

Alþingi fer með fjárveitingavaldið en hefur einnig mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna með fjárreiðum ríkisins og því að farið sé að lögum. Til þess að þetta eftirlitshlutverk sé virkt þurfa þingmenn, ekki síst þeir sem sitja í fjárlaganefnd, að hafa grunnupplýsingar um rekstur stofnana --- um lögbundið hlutverk þeirra, um möguleika þeirra til að sinna hlutverki sínu og um raunverulega fjárþörf þeirra. Aðeins þannig getur Alþingi rækt hlutverk sitt.

Ár hvert samþykkir Alþingi breytingar er varða stofnanir ríkisins. Fjöldi lagabreytinga er svo mikill að það samsvarar því nánast að á hverjum virkum degi allan ársins hring væru samþykkt ný lög. Ég efast um að önnur þjóðþing skáki okkur í þeim efnum.

Af hálfu Alþingis er þó eftirlitinu með framkvæmd þessara laga stórlega ábótavant sem þó er afar mikilvægur þáttur í allri stjórn á útgjöldum ríkisins til einstakra stofnana og verkefna. Það er löngu tímabært að finna leiðir til að efla eftirlitshlutverk Alþingis og það verður ekki gert með því að torvelda þingmönnum aðgang að upplýsingum, jafnvel koma algjörlega í veg fyrir að þær fáist eins og nýleg dæmi sanna, eða með því að hefta samskipti stofnana við nefndir Alþingis.

Slík vinnubrögð eiga ekki að tíðkast í lýðræðisþjóðfélagi. Það að takmarka aðgang þingmanna, ekki síst fjárlaganefndarmanna, að grunngögnum um rekstur stofnana kemur í veg fyrir að eðlileg málefnaleg umræða og skoðanaskipti um hlutverk stofnana og stöðu þeirra eigi sér stað. Einnig er mikilvægt að skoða hvort á því eigi að verða breyting, hvort hlutverk einstakra stofnana og/eða ráðuneyta skarist, hvort stofnun sé að sinna verkefnum sem henni hafa ekki verið falin með lögum frá Alþingi og hvort um tvíverknað sé að ræða þannig að fjárveitingar nýtist illa eða ekki. Þessum verkum geta alþingismenn ekki sinnt nema þeir hafi fullnægjandi upplýsingar hverju sinni um grunnstöðu stofnunar.

Þá þarf að vera í stöðugri skoðun hvaða verkefni eiga að vera greidd af samfélaginu og hver ekki. Breyttir tímar, breytt umhverfi innan lands og utan kallar á breytta verkaskiptingu og aðra forgangsröðun. Það er hins vegar vonlaust fyrir alþingismenn sem hér eiga að greiða atkvæði og ráðstafa gífurlegum fjármunum sem greiddir eru úr sameiginlegum sjóðum landsmanna að vinna þetta verk svo vel fari ef lágmarksupplýsingar liggja ekki fyrir eða þingmönnum er beinlínis meinaður aðgangur að þeim.

Skýr forgangsröðun verkefna í ríkisrekstri er nauðsynleg, ekki síst ef kreppir að. Forgangsröðun í ríkisfjármálum hefur ekki verið skýr í tíð þessarar ríkisstjórnar og á því hefur ekki orðið breyting miðað við það frumvarp sem hér er til lokaafgreiðslu.

Á meðan úr nógu var að spila léku menn sér með fjárlög ríkisins, úthlutuðu til verkefna án þess að nokkur sjáanleg umræða ætti sér stað um forgang eða mikilvægi, jafnvel til verkefna sem orkar tvímælis að eigi að vera á kostnað sameiginlegra sjóða landsmanna, á meðan önnur sem hingað til hefur verið sátt um voru látin sitja á hakanum eða búa við fjársvelti þannig að þau gátu, og geta, vart sinnt lögbundnum hlutverkum sínum. Samið er um launahækkanir, jafnvel án þess að fjárveitingar fylgi í kjölfarið til að mæta þeim. Sértekjur stofnana eru ofáætlaðar eða vanáætlaðar.

Eins og kom fram í nál. teljum við að allt of litlum tíma sé af hálfu Alþingis varið til þess að kanna ítarlega þegar stofnun fer ítrekað fram úr fjárlögum. Það starf þarf ekki allt að vera unnið af fjárlaganefnd. Þar gætu og ættu að koma að verki viðkomandi fagnefndir. Þeirra hlutverk er í raun mjög mikilvægt. Það kæmi til með að styrkja tengsl og þekkingu fagnefnda á rekstri stofnana ríkisins og þeim verkefnum sem tengjast verksviði viðkomandi fagnefndar.

Umfjöllun fagnefnda um einstaka kafla frumvarpsins í aðdraganda umræðna um fjárlög og önnur lög er tengjast stofnunum á sérsviði nefndarinnar yrðu þá markvissari og marktækari.

Fyrir nokkrum árum var tekin upp sú vinnuregla að í undirbúningi frumvarps til fjárlaga fengju fagráðuneytin hvert um sig ákveðinn fjárhagsramma í upphafi fjárlagagerðar og þeim yrði falið að yfirfara tillögur þeirra stofnana sem heyrðu til viðkomandi ráðuneyta. Síðan áttu þau að skila tillögum til fjármálaráðuneytis um framlög til þeirra. Áður var vinnureglan sú að fjármálaráðuneytið yfirfór allar tillögur og tók í raun ákvörðun um hverjar þeirra færu inn í frumvarpið. Stofnanir höfðu síðan möguleika á breytingum í gegnum vinnu Alþingis, þá fyrst og fremst fjárlaganefndar.

Fagráðuneytin höfðu því takmörkuð áhrif. Rökin fyrir því að færa fjárlagatillögur meira til fagráðuneyta voru fyrst og fremst að þau þekktu betur mál þeirra stofnana er undir þau heyra og væru því betur í stakk búin til að taka ákvarðanir um framlög til þeirra og þau verkefni sem stofnunin ætti að vinna. Auk þess bjuggust menn við að tillögurnar yrðu þá unnar í betri sátt við einstakar stofnanir. Þessi breyting varð hins vegar til þess að aðkoma Alþingis að málum var miklum mun minni en áður.

Ráðuneytin tóku upp þau vinnubrögð að öll erindi færu í gegnum þau, helst ekki beint til fjárlaganefndar þingsins sem þýðir auðvitað skert frelsi þeirra sem reka stofnanir ríkisins og stríðir gegn þeim yfirlýstu markmiðum ríkisstjórnarinnar að auka frelsi og sjálfstæði stofnana. Þetta hefur einnig dregið úr, eins og ég hef áður sagt, möguleikum Alþingis til að rækja fjárveitinga- og eftirlitshlutverk sitt eins og því ber skylda til.

Einstök ráðuneyti bera ábyrgð og hafa einnig eftirlitshlutverki að gegna með stofnunum sínum. Vissulega eru til ráðuneyti sem sinna þessu hlutverki sínu vel. En hin eru einnig til sem gera það ekki á fullnægjandi hátt, hvorki með rekstri né þeim verkefnum sem viðkomandi stofnun fæst við, og samráði við stofnanir í aðdraganda fjárlagagerðar er einnig ábótavant. Þá virðist ábyrgðarleysi flestra fagráðherra algert þegar kemur að umfjöllun um stofnanir þeirra eða ráðuneytið sjálft á Alþingi, hvort sem um er að ræða umræðu og afgreiðslu fjárlaga eða fjáraukalaga. Þá er algerlega undir hælinn lagt hvort fagráðherrar eru á staðnum þótt verið sé að ræða mál þeirra eigin ráðuneyta. Þá má fjármálaráðherra svara fyrir útdeilingu innan allra ramma eða svara fyrir framúrkeyrslu einstakra stofnana eða ráðuneytanna sjálfra.

Brýnt er að settar séu skýrar reglur um meðferð þeirra tillagna sem hvert fagráðuneyti fær frá stofnunum sínum sem tryggi efnislega meðferð í takt við þau lög og reglur sem um viðkomandi stofnun gilda --- samræmdar reglur þannig að um samræmd vinnubrögð allra ráðuneyta verði að ræða.

Ég tel einnig sjálfsagðar skyldur ráðherra að vera síðan hér til svara um þær stofnanir sem til viðkomandi ráðuneytis heyra.

Á fundi með fulltrúum fjármálaráðuneytis kom fram að engar vinnureglur, samræmd viðmið eða mælikvarðar virðast vera fyrir hendi sem beita má til að meta með sanngjörnum hætti rekstrarlega stöðu ríkisstofnana með tilliti til þeirra verkefna sem þeim ber að sinna eða til að meta það sem kalla mætti lágmarksfjárþörf stofnana. Slíkar reglur, viðmið og mælikvarða er hvorki að finna í fagráðuneytum né fjármálaráðuneyti. Þessi skortur á viðmiðum og mælikvörðum kemur vissulega skýrt fram þegar meta á kostnað nýrra verkefna.

Ríkisstofnanir velja sér ekki verkefni líkt og einkafyrirtæki gera. Þær taka við þeim frá Alþingi eða frá fagráðherra í Stjórnarráðinu og verða að sinna þeim, oft án þess að hafa fjárhagslega burði til þess og án þess að eðlilegt mat hafi farið fram á þeim kostnaði sem verkefninu fylgir eða hvort stofnuninni beri lögum samkvæmt að sinna því.

Hér á Alþingi má sjá með frumvörpum kostnaðarmat einstakra verkefna sem unnið er að frumkvæði viðkomandi ráðuneytis eða fjármálaráðuneytis, jafnvel ekki í samráði við þá stofnun eða þann aðila sem á að vinna þau verkefni sem frumvarpið felur í sér. Þetta hefur leitt til þess, eins og stundum hefur mátt sjá í ríkisreikningi, að rangar kostnaðaráætlanir, yfirleitt of lágar, eru settar fram í byrjun sem leiðir af sér hallarekstur þeirrar stofnunar sem hlut á að máli. Á þessu sviði þarf að vanda betur til vinnunnar.

Fyrir nokkrum árum var tekin upp sú jákvæða nýbreytni að stofnanir ríkisins gátu gert samninga um árangursstjórnun. Þeir samningar hafa þó, að því er virðist, aldrei skilað fullum árangri, meðal annars vegna þess að áðurnefnd samræmd viðmið eru ekki til þegar kostnaður við rekstur einstakra verkefna, húsnæði og mannahald er metinn. Ef horft er til stofnana með svipuð eða sambærileg verkefni virðist ekki vera samræmi í fjárveitingum til þeirra.

Fulltrúi fjármálaráðuneytisins á fundi fjárlaganefndar sagði að ekki væri borinn saman kostnaður slíkra stofnana á hverja einingu sem hlýtur þó að vera liður í að ná tökum á rekstri ríkisstofnana og auka möguleika á skilvirku eftirliti og raunhæfum fjárveitingum.

Það er ekki vandalaust að koma upp samræmdum viðmiðum fyrir sambærilegan rekstur. Menntamálaráðuneytið hefur verið með ákveðið líkan í gangi fyrir skólana en þar hefur, að mati skólastjórnenda framhaldsskóla, ekki verið tekið tillit til ýmissar sérhæfingar og sérverkefna sem eru hjá einstökum skólum. Það hefur því leitt til mikils hallareksturs einstakra skóla þó að fyllstu aðgæslu hafi verið gætt í rekstri þeirra. Þó má reikna með að í hverjum skóla séu verkefnin nokkuð þekkt stærð ásamt fjölda þeirra sem stunda nám og vinnu en sérhæfinguna verður að meta sérstaklega.

Ef til vill er erfiðara að eiga við stofnanir eins og heilbrigðisstofnanir. Fyrir það fyrsta þarf þar að skilgreina með skýrum hætti þjónustustig og þau verkefni sem á að vinna á einstökum stofnunum og síðan að reyna að meta fjárþörf út frá því. Hingað til höfum við nánast ætlast til að allar heilbrigðisstofnanir sinntu öllum eða sem flestum verkefnum. Ef til vill er erfiðast að meta kostnað við rekstur sjúkrastofnana sem sinna bráðatilfellum. Þá hafa orðið örar framfarir á sviði lækninga og hægt er að sinna mun fleiri sjúklingum en áður á mun styttri tíma. Þetta eru jákvæðar framfarir. Afköstin eru aukin en um leið er þjónustan dýrari og sömuleiðis þarf fullkomnari tæki til að þjónustan sé góð.

[13:00]

Við viljum þessar framfarir en þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að þær kosta mikla fjármuni sem þó skila sér fljótt aftur þar sem framfarirnar þýða einnig skjótari bata sjúklings sem skilar sínu út í þjóðfélagið.

Við höfum verið gjörn á að dæma þá sem reka heilbrigðisstofnanir sem og aðrar stofnanir fyrir ítrekaðan hallarekstur. Jafnvel gengið svo langt að segja að ef viðkomandi stofnun væri einkarekin en ekki ríkisrekin væri reksturinn allur annar. Þetta er óvæginn dómur og felur í sér lítilsvirðingu gagnvart þeim fjölmörgu aðilum sem reka þessar stofnanir og búa við það að eiga í erfiðleikum með að gera raunhæfar rekstraráætlanir. Fjárlög ríkisins eru enn aðeins afgreidd til eins árs í senn og enginn veit með vissu við hverju má búast fyrr en að lokinni afgreiðslu fjárlaga, eða hvort viðkomandi stofnun fær ný verkefni ákveðin af ráðherra eða Alþingi á miðju fjárlagaári án þess að fjármagn fylgi með.

Það var til að mynda tekin ákvörðun um að sameina sjúkrahúsin í Reykjavík, í hagræðingarskyni. Flestir hafa áreiðanlega gert sér grein fyrir að sú hagræðing yrði nokkuð kostnaðarsöm og skilaði sér ekki að fullu strax á fyrstu árum eftir samrunann. Auk þess sem þetta háskólasjúkrahús sinnir öllum alvarlegustu, jafnframt dýrustu sjúkdóms- og slysatilvikum sem hér eru, hafa þar einnig orðið dýrar tækniframfarir og meiri framleiðni, en um leið meiri fjárþörf.

Fyrirsjáanlegur rekstrarhalli á Landspítalanum á þessu ári er metinn um 500 millj. kr. 200 millj. fengust upp í þennan halla á fjáraukalögum. Þá eru 300 millj. eftir sem þarf að flytja yfir á næsta ár. Fjárlög næsta árs munu væntanlega fela í sér nær óbreytta tölu frá síðustu fjárlögum að viðbættum 200 millj. í samræmi við fjáraukalögin. Það er ljóst að rekstrarvandi spítalans á næsta ári verður verulegur.

Nú er það alls ekki þannig að Landspítalinn sé illa rekin stofnun, öðru nær. Rekstrarhallann á þessu ári má að verulegu leyti skýra út með því að forsendur hafa brugðist frá því að fjárlög síðustu ára voru samþykkt. Gengishrun krónunnar ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hún hyggist ljúka ræðu sinni á næstu 3--5 mínútum.)

Ég lofa því ekki, virðulegi forseti, en ég ætla að ljúka ræðu minni fyrir hlé, en það verður ekki langt fram yfir 5 mínútur.

(Forseti (ÁSJ): Gjörðu svo vel.)

Nú er það alls ekki þannig að Landspítalinn sé illa rekinn. Rekstrarhallann á þessu ári má rekja eins og ég sagði m.a. til gengishruns krónunnar sem hefur leitt til þess að allur innflutningur á lyfjum og rekstrarvörum hefur stórhækkað í verði og þar að auki hefur innlent verðlag hækkað mun meira en reiknað var með þegar fjárveitingar til spítalans voru ákveðnar. Ef litið er nánar á rekstur spítalans kemur í ljós að þær breytingar sem staðið hafa yfir og standa enn yfir í kjölfar sameiningar sjúkrahúsanna eru að skila árangri og hagræðingu þó enn hafi það ekki skilað sér að fullu. Þrátt fyrir þetta virðist staða spítalans vera sú að stjórnendur hans þurfa strax í upphafi næsta árs að finna út hvernig á að bregðast við rekstrarvanda. Við þekkjum öll þær leiðir sem stjórnendum spítalans eru færar; þær felast í niðurskurði, uppsögnum, minni þjónustu, lokunum deilda, lengingu biðlista, önnur eru úrræðin ekki.

Hjá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi nemur launakostnaður um 70% af rekstrarkostnaði spítalans. Á sumum deildum er þessi prósenta hærri, t.d. á geðdeildum, á öðrum er hún lægri. Ríkisstjórnin er því með niðurskurði og því að viðhalda fjárvöntun miðað við þarfir þessa mikilvæga sjúkrahúss beinlínis að þrýsta stjórnendum spítalans út í uppsagnir. Það er eina raunhæfa leiðin til að halda sig innan ramma fjárlaga vegna þeirrar einföldu staðreyndar að helstu eignir spítalans eru mannauður. Þetta er nokkuð sem hið háa Alþingi þarf að gera sér grein fyrir við afgreiðslu fjárlaga.

Það er því út í hött að halda því fram að rekstrarhallinn verði ekki til þess að skerða grunnþjónustuna til almennings þegar litið er til stöðu Landspítalans, ef hallinn verður ekki bættur umfram það sem gert er ráð fyrir. Allur þessi niðurskurður bitnar yfirleitt á þeim sem síst skyldi, og á sama tíma er verið að leggja til að komugjöld og lyfjakostnaður hækki, sem aftur bitnar á sömu hópunum.

Það er útilokað að endar nái saman í rekstri eins og þessum þegar allar forsendur bregðast en ganga um leið út frá því að þjónustustigið sé óbreytt. Það sama á reyndar við um fjölda annarra stofnana. Önnur hlið á fjárhagsvanda Landspítalans sem skiptir miklu máli er fjárþörf til framkvæmda vegna sameiningar sjúkrahúsanna. Það gefur augaleið að það þarf að klára nauðsynlegar breytingar á húsnæði spítalanna til þess að ljúka sameiningunni og ná fullri hagræðingu sem aftur mun koma fram í bættum rekstri.

Að mínu mati hafa stjórnendur Landspítalans unnið þrekvirki við að koma sameiningunni á með þeim hætti að segja má að sátt og friður ríki um breytingarnar hjá starfsfólki spítalans, að því marki sem hægt er að ætlast til. Það er augljóst að jafnmiklar breytingar og tilfærsla heilla deilda milli húsa og sameiningar þeirra fela í sér mikla röskun fyrir starfsemina og mikið álag á starfsfólk. Þetta hefur þó gerst á tiltölulega átakalítinn hátt meðal annars vegna þess að starfsfólk hefur haft fyrir sér vel tímasetta sýn allt til enda breytinganna og haft væntingar um að staða mála kæmist í eðlilegt horf miðað við að þær áætlanir stæðust.

En ef fjárlagafrumvarpið er skoðað er komin upp alvarleg staða. Í fjárlagafrumvarpinu eru 248 millj. kr. ætlaðar til breytinga og meiri háttar viðhalds en fjárþörfin samkvæmt mati spítalans er 460 millj. kr. Það vantar því 212 millj. kr. upp á til þess að endar nái saman í viðhalds- og framkvæmdafé þannig að hægt sé að koma fólki inn á vinnustaði sína til þess að sinna störfum sínum.

Í þessu sambandi má t.d. benda á að viðhaldsfé þarf til þess að spítalinn geti tekið á móti starfsemi Vífilsstaða. Þar eru nú um 60 sjúkrarúm og það er ekki úr vegi að rifja það upp að það var árið 1998 sem tekin var ákvörðun um að leggja Vífilsstaði af, en það er fyrst að koma til framkvæmda núna. Fjárþörfin er því löngu ljós.

Þá má enn og aftur minna á að þessar breytingar eru nauðsynlegar til þess að full hagræðing náist af sameiningunni og þær eru væntanlega líka forsenda þess að sú sátt sem náðst hefur fram innan spítalans um málið standi til lengdar.

Ég tek þetta dæmi, virðulegi forseti, um það þegar ákvarðanir eru teknar um stórframkvæmdir, eins og þá að sameina þessi tvö mikilvægu sjúkrahús, án þess að raunveruleg fjárþörf sé metin strax í upphafi og framkvæmdin kláruð þannig að vel fari. Aðrar minni ákvarðanir mætti nefna, en ég læt nægja að taka þetta dæmi.

Starfsfólk og stjórnendur sjúkrahússins hafa sannarlega lagt sitt af mörkum til þess að þessi stóra framkvæmd gæti átt sér stað án stórra átaka og með sem minnstri röskun fyrir sjúklinga. Umbunin fyrir þetta góða starf virðist vera lokanir deilda, uppsagnir fólks og samdráttur í þjónustu, allt vegna þess að dæmið var ekki skoðað frá upphafi til enda. Þannig bitna ákvarðanir stjórnvalda oftar en ekki á stjórnendum stofnana og á starfsfólki og þeim sem viðkomandi stofnun á að þjónusta.

Í nefndaráliti okkar, fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, við 1., 2. og nú 3. umr., kemur fram mikil gagnrýni á þau lausatök sem einkenna rekstur ríkisins. Stór ástæða þess er hversu ómarkviss áætlanagerðin er, sem bitnar af fullum þunga á öllum rekstri ríkisstofnana.

Því er oft verið að hengja bakara fyrir smið þegar starfsfólk og stjórnendur stofnana eru harðlega gagnrýnd fyrir slæleg vinnubrögð og framúrkeyrslu fjárlaga.

Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að við búum við fjárlög hvers árs sem ber að virða. Það getur hins vegar reynst erfitt ef áætlanir eru í engu samræmi við rekstrarumfang eða lögbundnar skyldur einstakra stofnana. Því ber að vanda til verka við gerð fjárlaga hverju sinni.

Því miður virðist sem sú breyting að fá hverju fagráðuneyti meiri ákvörðunarrétt í málefnum þeirra stofnana sem til þeirra heyra í öllum tilvikum, ekki hafa skilað þeim árangri sem vænst var.

Ég tel nauðsynlegt að endurskoða þá ákvörðun jafnvel að fjármálaráðuneytið yfirtaki vinnuna að stærri hluta aftur. Eða að sett verði skýr samræmd viðmið við ákvarðanatöku og umfjöllun um fjárveitingar til einstakra stofnana og verkefna, viðmið sem öll ráðuneyti verða að hafa í heiðri.

Þar á ofan hefur ekki farið fram markviss vinna í að skilgreina og forgangsraða verkefnum ríkisins, jafnvel bæst við verkefni sem betur eða jafn vel væru komin annars staðar. Sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar við þessa 3. umr. fjárlaga eru ómarkvissar og nánast gefið að þær munu ekki standast eru í besta falli hreinn sýndarveruleiki og minna um margt á söguna um nýju fötin keisarans.

Þar má fyrst nefna, eins og við gerum í nefndarálitinu, breytingar á lífeyrissjóðsgjöldum. Við 2 umr. þurfti að skera niður til þess að vega upp á móti rúmlega 2 milljarða króna útgjaldaaukningu. Flest til mikilvægra verkefna. Hvað er þá gert? Er skorið niður á minna mikilvægum verkefnum? Nei, menn fundu út að grunnurinn sem gefinn var í frumvarpinu rúmum mánuði áður vegna lífeyrisskuldbindinga væri rangur. Hægt væri að lækka þær greiðslur um nákvæmlega 624 millj. kr.

Hvað hafði gerst á þessum rúma mánuði frá því að frumvarpið var lagt fram sem breytti þessum forsendum á þeim tíma? Ekkert. Enda hefur það ekki komið fram í skýringum með breytingunum. Og núna, rúmri viku seinna eftir að ríkisstjórnin fann út skekkju uppá 624 millj. kr. í grunni lífeyrisskuldbindinga hafa þeir fundið út að skekkjan var miklu meiri, nú má taka 800 millj. kr. til viðbótar. Þannig að tæplega 1,5 milljarðar króna hafa nú verið teknir út úr þeim áætlunum sem gerðar voru vegna lífeyrisskuldbindinga án þess að sjáanlegar ástæður séu fyrir því á þeim tíma sem liðinn er frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram fyrir rúmum tveimur mánuðum.

Hver trúir því að svo stór skekkja hafi verið gerð jafnvel þó ekki sé vandað til áætlanagerðar, eða ástand efnahagsmála svo ótryggt að erfitt er að leggja mat á útgjaldaþróun?

Lífeyrisskuldbindingar ættu að vera nokkuð þekkt stærð. Það væri ef til vill hægt að horfa fram hjá skekkju upp á rúmar 600 millj. en 1.500 millj. er full mikið í lagt.

Eitt af því jákvæða sem gerst hefur í ríkisfjármálum er að farið hefur verið að ráðum Ríkisendurskoðunar varðandi færslur og sýnileika skuldbindinga ríkisins.

Það er sannarlega vont ef verið er að snúa af þeirri braut, vegna þess að menn höfðu ekki kjark í raunverulegan niðurskurð á útgjöldum ríkisins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, m.a. úr samtölum við Ríkisendurskoðun, eru þessar tillögur fullkomlega óraunhæfar eins og aðrar niðurskurðartillögur sem hér eru frá ríkisstjórninni, meðal annars um frestun framkvæmda sem eru ekki sparnaður til lengri tíma litið.

Þá á að ná fram sparnaði með því að leggja auknar álögur á sjúklinga og nemendur, og með hækkun á lyfjakostnaði, komugjöldum og skólagjöldum háskólanema. Þar hefur Framsfl. skíttapað enn einni orustunni við Sjálfstfl. Þetta eru helstu áherslurnar í sparnaðartillögum ríkisstjórnarinnar. Ótrúverðugar tillögur, enginn langtímasparnaður nema sem almenningur í landinu á að skila í formi hærri gjaldtöku. Frumvarpið og niðurstaða þess eru vissulega nokkurn veginn á pari eftir að nokkrir smáir útgjaldaliðir bætast við, og tækjakaup Menntaskólans á Laugarvatni upp á heilar 8 millj. kr. sem meiri hluti fjárlaganefndar fékk samþykkt við 2. umr. eru tekin til baka af ráðuneytinu. Dæmigert hvernig farið er fyrir fjárveitingavaldi Alþingis, meira að segja hinar smæstu tillögur eru teknar til baka ef hv. þm. meiri hlutans sýna pínulítið sjálfstæði í vinnu sinni. Að þessu samþykktu þá eru fjárlög og frumvarpsniðurstöður nokkurn veginn á pari. En eins og við höfum margbent á, þá vantar trúverðugleikann, það vantar raunverulegan vilja til að takast á við þann vanda sem við blasir í efnahagsmálum.

Langtímasparnaður sem meðal annars gæti falist í tillögum þess efnis að sameina ráðuneyti eins og ráðuneyti atvinnuveganna í eitt, að sameina rannsóknastofnanir atvinnuveganna í eina stofnun, að sameina landbúnaðarskólana undir eina stjórn og færa til menntamálaráðuneytis og að sameina skógrækt og landgræðslu í eina sæng, eins og Ríkisendurskoðun lagði eitt sinn til, og sameina og endurskipuleggja rekstur ýmissa annarra stofnana svo eitthvað sé nefnt. Tillögur sem skila árangri, ekki strax, ekki skammtímabata heldur sparnaði til lengri tíma litið. Slíkar tillögur er ekki að finna frá ríkisstjórninni eða meiri hlutanum, né heldur tillögur um bætt vinnubrögð markvissari áætlanagerð, skýrari forgangsröðun. Aðeins skammtímalækning sem endist stutt jafnvel ekki til áramóta.