Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 13:31:20 (2662)

2001-12-07 13:31:20# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir framsögu hennar, ábendingar og spurningar.

Ég tel nauðsynlegt, áður en þessari umræðu lýkur hér í dag, að fulltrúar Samfylkingarinnar, sem hv. þm. talaði væntanlega fyrir, geri mjög skýra grein fyrir útfærslunni á því hvernig Samfylkingin og fulltrúar hennar vilja ná 3 milljörðum kr. í tekjuafgang á rekstrargrunni fjárlaganna. Ég er ekki að biðja um tillögur þar sem sagt er að spara skuli hálfan milljarð í ráðuneytunum og aðrar slíkar fyrirsagnir, ég vil sjá í þingskjali og ræðum sundurliðaðar tillögur um tekjur og útgjöld, tillögur sem sýna hvernig Samfylkingin hyggst ná þessu. Það kom ekki fram í ræðu hv. þm.

Af þeim fáum tölum sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni mátti ráða að hv. þm. væri sammála meiri hluta fjárln. um þær niðurskurðartillögur sem meiri hlutinn hefur lagt fram. Ég fagna því ef svo er.

Í öðru lagi vil ég koma að orðum þingmannsins um þær fjárveitingar sem menntmrn. gerði tillögu um að væru dregnar til baka varðandi tölvumál í Menntaskólanum á Laugarvatni. Það var fullt samráð milli formanns fjárln. og menntmrh. og menntmrn. um meðferð þess máls. Það felst engin lítillækkun í því fyrir fjárln. að fallast á þá málsmeðferð sem þar var höfð.