Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 13:33:36 (2663)

2001-12-07 13:33:36# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[13:33]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. formaður fjárln. veit og er vel kunnugt um var í alla nótt unnið að því, m.a. að koma í prentun tillögum meiri hluta fjárln. Þannig stendur á að tillögurnar frá 1. minni hluta, fulltrúum Samfylkingarinnar í fjárln., eru ekki komnar hér á borðið útfærðar en þær munu koma. Von er á þeim núna á næstu mínútum eftir því sem skrifstofa þingsins upplýsti við mig rétt áðan en það hafði bara ekki unnist tími til að ganga frá þingskjalinu.

Ég lýsti því í ræðu minni að farið yrði yfir þær nákvæmlega, ekki í einni ræðu, heldur nokkuð mörgum í dag, af hálfu Samfylkingarinnar, þannig ég býst við að þegar þessum fundi lýkur verði hv. þm. formaður fjárln. afar vel upplýstur um tillögur Samfylkingarinnar, gott ef hann verður ekki farinn að styðja þær.