Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 13:48:09 (2671)

2001-12-07 13:48:09# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt hér frhnál. um frv. til fjárlaga fyrir árið 2002.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2002 kemur nú til lokaafgreiðslu við 3. umr. Vísað er til nál. 2. minni hluta við 2. umr. fjárlaga fyrr í haust. Fullkomin óvissa ríkir um tekjuhlið fjárlaganna, og breytast forsendur nánast dag frá degi. Ástæða þessa er að meginhluta heimatilbúinn vandi ríkisstjórnarinnar. Hættumerkin í þróun efnahagsmála hafa blasað við sl. 2--3 ár, svo sem mikill viðskiptahalli, gífurlegar erlendar lántökur og mikil aukning útlána bankakerfisins, en hægt hefði verið að bregðast við þeim áður en komið var í óefni. Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru nú orðnar hærri en sem nemur árlegri landsframleiðslu. Ríkisstjórnin, ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., með forsrh. og fjmrh. í broddi fylkingar hefur þar til nú þverneitað allri gagnrýni og fullyrt að allt væri í stakasta lagi. Herra forseti. Það væri hreint oflof að segja að ríkisstjórnin hafi flotið sofandi að feigðarósi því flestar árar hafa verið úti til þess að róa þjóðarskútunni í öfuga átt. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar í skattamálum er til umfjöllunar samtímis hér í þinginu og vísað er til nál. fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í efh.- og viðskn. við það frumvarp.

Herra forseti. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs á næsta ári, árið 2002, verði 257,9 milljarðar kr. sem er sama fjárhæð og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 239,4 milljarðar kr. Tekjuafgangur ríkissjóðs er því áætlaður 18,5 milljarðar kr.

Herra forseti. Mig langar til að víkja aðeins fyrst að vinnunni við fjárlagagerðina. Ríkisstjórnin leggur fram frumvarp til fjárlaga í upphafi þings. Að því búnu fer það til fjárlaganefndar til frekari umfjöllunar. Sú hefð hefur skapast að við 2. umr. eru lagðar fram meginbreytingar þingsins á gjaldahlið frumvarpsins. 2. umr. hefur í auknum mæli snúist um efnahagshorfur og stefnu í ríkisfjármálum þrátt fyrir að endurskoðuð þjóðhagsspá og tekjuáætlun fyrir næsta ár liggi ekki fyrir. Við 3. umr. er lögð fram endurskoðuð tekjuáætlun fyrir næsta ár og jafnframt þær efnahagsforsendur sem ríkisfjármálin byggjast á næsta ár.

Ítarleg umræða fer fram innan fjárlaganefndar um sundurliðaða gjaldahlið frumvarpsins. Fjölmargir aðilar koma fyrir nefndina og skýra einstaka útgjaldaliði.

Tekjuhlið frumvarpsins fær aftur á móti afar litla umfjöllun í fjárlaganefndinni sem er þó ekki síður mikilvæg hlið fjárlagafrumvarpsins. Má nefna í því sambandi að endurskoðuð tekjuáætlun var kynnt í nefndinni rétt um það leyti sem hún afgreiddi frumvarpið frá sér, þ.e. sama dag. Þá komu boðaðar tillögur ríkisstjórnarinnar um niðurskurð útgjalda heldur ekki fyrir fjárlaganefnd fyrr en sl. miðvikudag eða sama dag og nefndin varð að afgreiða frumvarpið úr nefnd ef takast átti að láta 3. umr. fara fram föstudaginn 7. desember, sem sagt í dag, eins og starfsáætlun þingsins gerði ráð fyrir. Hins vegar gerði verkáætlun fjárlaganefndar ráð fyrir að tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir 3. umr. lægju allar fyrir hjá nefndinni fyrir 30. nóvember. Þarna hefur því nokkuð skort á að þeir sem eiga að skila upplýsingum og gögnum til nefndarinnar standi við þau tímamörk sem þeim eru sett og eru hluti af starfsáætlun þingsins. Vegna tímaskorts fengu efnahagsforsendur og tekjuhlið frumvarpsins því afar litla umfjöllun í nefndinni. Niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar hlutu sömu örlög. Spurningar og beiðni um útskýringar á einstökum liðum frá nefndinni bárust ekki fyrr en eftir að hún hafði afgreitt fjárlagafrumvarpið frá sér til 3. umr. og sum svör bárust alls ekki. Fjárlaganefnd hefur ekki á sínum snærum eigin ráðgjafa eða sérfræðinga í efnahagsmálum og verður því að reiða sig á útskýringar sérfræðinga framkvæmdarvaldsins. Það er því mikilvægt að vönduð svör og skýringar berist nefndinni fljótt og undanbragðalaust. Í flestöllum tilfellum er það svo en þó vill verða á því misbrestur og er nærtækasta dæmið þegar forsætisráðuneytið neitaði að svara spurningum nefndarinnar um sundurliðun á kostnaði á 300 millj. kr. aukafjárveitingu til að mæta kostnaði við sérfræðivinnu og ráðgjafarkostnað einkavæðingarnefndar. Að mati 2. minni hluta er afar brýnt að yfirstjórn Alþingis, forsætisnefnd og þingflokksformenn, fari gaumgæfilega í gegnum stöðu Alþingis og þingnefnda gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hér er nefnilega virkileg hætta á ferðum gagnvart lýðræðinu, gagnvart þingræðinu. Hættan er sú að hér þróist ríkisstjórnarbundið þingræði í stað þingbundins ríkisvalds. Þingið þarf að mínu viti, herra forseti, að eignast eigin þjóðhagsstofnun sem starfar með Alþingi í efnahagsmálum og fjármálastjórn ríkisins.

Að mati 2. minni hluta er mun eðlilegra að við 2. umr. sé fjallað um tekjuáætlun, efnahagsforsendur og stefnu í ríkisfjármálum. Við þá umræðu væri tekjuhlið frumvarpsins ákveðin en við 3. umr. væru útgjöldin endanlega ákveðin og frágengin og þá færi fram eins konar fínpússun á frumvarpinu sjálfu. Það er nefnilega góður siður að átta sig fyllilega á því úr hvaða peningum er að spila. Það þykir góður siður á vönduðum heimilum að telja fyrst í buddunni og ákveða síðan útgjöldin. Þannig ætti það einnig að vera hjá Alþingi gagnvart ríkisfjármálum.

Víkjum nú að forsendum fjárlagafrumvarpsins. Þjóðhagsstofnun lagði fram endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir næsta ár nú á dögunum. Þar er gert ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 1,5% og að fjárfestingar dragist saman um 14%. Þá er gert ráð fyrir að innflutningur dragist saman um 7,1% og útflutningur um 1,8% og landsframleiðsla dragist saman um 1% en í fyrri spá stofnunarinnar var gert ráð fyrir 0,3% samdrætti í landsframleiðslu. Ef þessi spá gengur eftir er það í fyrsta sinn frá 1992 sem landsframleiðsla dregst saman á milli ára. Þá er og gert ráð fyrir að verðbólga verði um 6,1% á milli áranna. Í forsendum Þjóðhagsstofnunar fyrir þeirri verðlagsspá er gert ráð fyrir að gengisvísitala krónunnar verði 147,2 sem var skráð gengi hennar 3. desember sl. Þá bendir stofnunin á að spenna á vinnumarkaði sé að minnka og reiknað sé með um 2% atvinnuleysi á næsta ári. Verulega dregur úr launaskriði og þess er reyndar þegar farið að gæta. Þjóðhagsstofnun tekur fram að nokkur óvissa ríki um spána, ekki síst launa- og gengisforsendur. Launaforsendur byggja m.a. á því að kjarasamningar verði ekki endurskoðaðir.

Fjárlagafrumvarpið sem hér er lagt fram byggir á efnahagsforsendum fjármálaráðuneytisins. Þær eru í veigamiklum atriðum frábrugðnar spá Þjóðhagsstofnunar. Ráðuneytið spáir reyndar að landsframleiðsla dragist saman um 0,5% sem er umtalsverð breyting frá því að frumvarpið var lagt fram en þá gerði ráðuneytið ráð fyrir að landsframleiðslan ykist um 1% á næsta ári. Mestur munur á spá þessara tveggja stofnana liggur í mati þeirra á þróun á inn- og útflutningi vöru og þjónustu. Þannig spáir fjármálaráðuneytið að útflutningur vöru og þjónustu aukist um 1% á næsta ári á meðan Þjóðhagsstofnun spáir 1,8% samdrætti. Fjármálaráðuneytið gerir í sinni spá ráð fyrir að innflutningur vöru og þjónustu dragist saman um 4,3% en í endurskoðaðri þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir mun meiri samdrætti í innflutningi eða 7,1%.

Þessar tölur og þessar spár undirstrika þá miklu óvissu sem er í efnahagsmálum þjóðarinnar um þessar mundir og á næstu missirum.

Gert er ráð fyrir að halli á vöruskiptum minnki nokkuð milli ára og er nú gert ráð fyrir að hallinn nemi 3,9 milljörðum kr. Þá má búast við að jöfnuður á þjónustuviðskiptum verði jákvæður á næsta ári sem nemur 2 milljörðum kr. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði 38,5 milljarðar kr. eða 4,9% af landsframleiðslu. Ástæða þessa er sú að vegna skuldasöfnunar erlendis og óhagstæðrar þróunar aukast vaxtagreiðslur af erlendum skuldum jafnt og þétt og spáð er að jöfnuður þáttatekna verði af þeim sökum neikvæður um 35,8 milljarða kr. á komandi ári.

Fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2002 eru því afgreidd nú við mikla óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Eftir langvarandi og nær fullkomið andvaraleysi skiptir nú yfir í mikinn ótta um gengi krónunnar og verðbólgu. Í mars á þessu ári voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi stjórnar peningamála hér á landi. Meginatriði þessara breytinga fólust í því að 2,5% verðbólgumarkmið varð meginviðmið peningastefnunnar. Samtímis voru vikmörk gengisstefnunnar afnumin. Á árinu féll ríkisstjórnin frá fastgengisstefnunni og setti efnahagslífinu verðbólgumarkmið og fól Seðlabankanum að framfylgja þeim með peningamálastefnu sinni. Ljóst er að sett markmið hafa engan veginn náðst, og fjarri því, enda er verðbólguhraðinn nú um 8,8% og spáð er um 6% verðbólgu milli áranna 2001 og 2002.

Herra forseti. Bæði verðbólgan og gengi krónunnar skiptir efnahagslífið og kjör fólks að sjálfsögðu afar miklu máli. Atvinnulífið er mjög skuldsett í erlendum gjaldmiðlum og þolir illa gengislækkun. Sama gildir um fjárhag heimilanna en lægra gengi hækkar vöruverð og höfuðstól verðtryggðra lána. Sú staða sem þjóðarbúið stendur nú frammi fyrir kom ekki til af sjálfu sér. Hún er afleiðing þeirra mistaka í hagstjórnarákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið á síðustu árum.

Herra forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lýsir miklum áhyggjum af gangi mála. Ef þetta ástand varir miklu lengur er hætta á því að útflutningsgeta þjóðarbúsins skaðist þegar til lengri tíma er litið. Jafnvægi í efnahagslífinu innan lands og aukinn útflutningur er eina varanlega lausnin á viðskiptahallanum.

Herra forseti. Fjárlaganefnd er kunnugt um fjárhagsvanda og uppsafnaðan halla margra stofnana og heilla málaflokka sem ekki fá úrlausn í þessu fjárlagafrumvarpi. Þar má telja fjárskuldbindingar vegna félagslega húsnæðiskerfisins sem velt var einhliða yfir á sveitarfélögin. Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins er óleystur þótt leyfð hafi verið lítils háttar hækkun á afnotagjöldum á næsta ári. Margir framhaldsskólar sitja uppi með skuldir frá fyrri árum og eiga í miklum fjárhagserfiðleikum og geta lent í því að verða að skera niður námsframboð. Það er ljóst að framkvæmdarvaldið hefur verið uppteknara við að einkavæða skólakerfið og fella rekstur framhaldsskólanna inn í miðstýrð reiknilíkön en að efla og þróa skólastarfið sjálft, stöðu þess og markmið og þá menntun sem skólarnir veita, treysta bönd skóla og skólastarfs við fjölskyldulíf, atvinnuvegi og sitt nánasta umhverfi.

[14:00]

Bæði Skólameistarafélag Íslands og Félag framhaldsskólakennara hafa þráfaldlega bent á grundvallarskekkjur í þeirri reiknireglu sem nú er beitt við skiptingu fjár á skólana og birtist í því að fjármagn er skert til skóla með verknáms- og starfsnámsbrautir og skóla sem reka heimavistir og þeir sitja nú uppi með skuldir svo skiptir tugum eða jafnvel hundruðum milljóna króna. Fjárhagsvanda einstakra framhaldsskóla verður að leysa þegar í stað. Brýnt er að hugmyndafræðin að baki reiknilíkansins við skiptingu fjárins verði endurskoðuð þannig að stutt verði við metnaðarfullt og fjölbreytt nám hvarvetna á landinu, nám sem taki mið af þörfum allra nemenda og tryggi góðan starfsanda.

Þetta mál var til umfjöllunar á síðasta ári og þá var þess vænst að nauðsynlegar leiðréttingar yrðu gerðar á reiknilíkani menntamálaráðuneytisins. Í haust kom hins vegar í ljós að ekki hafði verið bætt úr fjárhagsvanda margra skóla og þeir stóðu áfram frammi fyrir mikilli óvissu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem dreift var nú á dögunum, um framkvæmd fjárlaga fyrir tímabilið janúar til september 2001 er þetta harðlega gagnrýnt og bent á að ekki þýði að flytja halla á milli ára nema ljóst sé að viðkomandi stofnun geti með raunhæfum hætti hagrætt hjá sér til að vinna á hallanum. Yfirlit í fylgiskjali II með þessu nál. sýnir vel þá stöðu sem sumir skólar eru í og hve brýnt er að úr vanda þeirra verði leyst. Í því sambandi þarf að taka fullt tillit til séraðstæðna hvers skóla.

Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárlaganefnd hefur ítrekað lagt áherslu á að endurskoðun á reiknilíkaninu og uppgjöri á fjárhagsvanda skólanna yrði lokið áður en gengið væri frá fjárlögum næsta árs. Engin svör hafa borist um það og með skírskotun til mjög alvarlegra athugasemda Ríkisendurskoðunar um fjármál framhaldsskólanna er ljóst að Alþingi verður að beita sér með beinum hætti í þessu máli áður en í meira óefni er komið.

Í ályktun Félags framhaldsskólakennara í nóvember sl. kom fram að veruleg hætta væri á að markmið og fyrirheit um að styrkja stöðu framhaldsskóla í breyttu umhverfi og nýjum kjarasamningi yrðu aðeins orðin tóm ef ekki yrði tryggt fé á fjárlögum ársins 2002 til þess að framkvæma þær endurbætur á reiknilíkani fyrir framhaldsskóla sem nauðsynlegar væru og undirbúnar hafa verið í menntamálaráðuneytinu.

Starfshópur ráðuneytismanna og skólameistara hefur skilað skýrslu um endurskoðun líkansins. Félag íslenskra framhaldsskóla telur að á þeim grunni þurfi að taka pólitískar ákvarðanir um hærri fjárveitingar til skólanna, hækka afskriftafé, ætla af raunsæi fyrir launum þjónustudeilda skólanna og viðhaldi og endurnýjun húsa.

Herra forseti. Alþingi hlýtur og verður að byggja fjárveitingar sínar á raunhæfum forsendum hverju sinni. Skólar eru lifandi stofnanir sem taka sífelldum breytingum og því verður reiknilíkanið, eigi að beita því, að mæta hverju sinni.

Herra forseti. Það þarf gjörbreytta stefnu í efnahagsmálum og atvinnumálum þjóðarinnar. Í stað þess að styrkja innviði atvinnulífsins og byggð og búsetu í landinu öllu hefur ríkisstjórnin blásið upp tímabundið ,,góðæri`` með einkavæðingu almannaþjónustu, gífurlegri byggðaröskun og skuldasöfnun. Sjávarútvegurinn er einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og sýnir sig best að þegar ,,nýja hagkerfið`` gengur ekki upp þá er traustið sett á hann. Það skiptir miklu fyrir þjóðarbúið að sjávarútvegurinn sé rekinn með hagsmuni þjóðarinnar allrar í huga.

Þótt markmið laganna um stjórn fiskveiða sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofna og, eins og stendur í lögunum, með leyfi forseta, ,,tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu`` er fjarri því að sú sé raunin. Í mörgum tilvikum er ástand fiskstofnanna nú svipað eða jafnvel verra en fyrir daga kvótakerfisins. Ljóst er að ríkisstjórnin ætlar í sjávarútvegsmálum að fylgja eftir tillögum svokallaðs meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar um stjórn fiskveiða sem er nánast óbreytt kvótakerfi með lítils háttar gjaldtöku sem mun áfram leiða til þess að fiskveiðiheimildir færast á æ færri hendur og sjávarútvegsfyrirtækjum fækkar í sjávarbyggðum meðfram ströndum landsins með tilheyrandi byggðaröskun. Þessari stefnu er Vinstri hreyfingin -- grænt framboð andvíg og telur hana hættulega atvinnulífi landsmanna.

Stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í sjávarútvegsmálum hefur sem meginmarkmið:

að tryggja í verki sameign þjóðarinnar á fiskstofnum og réttláta skiptingu afrakstursins,

að gera grundvallarbreytingu á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem komi til framkvæmda í áföngum á næstu 20 árum,

að bæta umgengni og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og efla vistvænar veiðar,

að skapa forsendur til að treysta búsetu við sjávarsíðuna,

að tryggja atvinnuöryggi og kjör fiskverkafólks og sjómanna,

að stuðla að betra jafnvægi og réttlátari leikreglum í samskiptum helstu aðila innan sjávarútvegsins, þ.e. útgerðar og fiskvinnslu, verkafólks og sjómanna, sjávarbyggða og samfélagsins alls,

að standa þannig að nauðsynlegum kerfisbreytingum og aðgerðum að stöðugleiki verði tryggður og hæfilegur aðlögunartími gefist.

Sjávarútvegurinn, fiskveiðarnar og fiskvinnslan gegna lykilhlutverki í atvinnulífi og efnahagsbúskap okkar Íslendinga. Sá vandi og sú óvissa sem nú blasir við í fjármálum ríkisins og þjóðarbúskapnum í heild á ekki hvað síst rætur að rekja til rangrar stefnu ríkisstjórnarinnar í fiskveiði- og fiskverndarmálum.

Herra forseti. Til þess að hér megi auka hagvöxt á ný, greiða niður erlendar skuldir, tryggja atvinnulíf og búsetu um allt land er afar brýnt að stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fiskveiðistjórn komi sem fyrst til framkvæmda. Það að stjórnvöld virðast ætla að halda áfram í nánast óbreyttu kerfi í stjórn fiskveiða er ein alvarlegasta ógnun við efnahag og atvinnulíf landsins hvort heldur er litið til lengri eða skemmri tíma.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna aukins tekjumunar í þjóðfélaginu og kerfisbundinnar mismununar á lífskjörum fólks. Allir þegnar þjóðfélagsins skulu eiga tryggð mannsæmandi samfélagslaun. Öll mismunun á lífskjörum leiðir til hættulegrar spennu og þenslu í þjóðfélaginu, sem og röskunar fjölskyldubanda, byggðar og atvinnulífs.

Gegn þessu ójafnvægi verður að berjast með öllum tiltækum ráðum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggja til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, að framlög til umhverfismála verði aukin og að tekið verði upp ,,grænt bókhald`` þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum.

Mikil byggðaröskun, stöðugir fólksflutningar á höfuðborgarsvæðið og sá mikli viðskiptahalli sem við höfum búið við síðustu ár sýnir það ótvírætt að viðskipta- og þjónustugeirinn á suðvesturhorninu hefur vaxið langt umfram það sem aukning í þjóðarframleiðslu gefur tilefni til. Þessu verður að snúa við ef við eigum að ná eðlilegum hagvexti og jafnvægi í viðskiptum og greiða niður skuldir þjóðarbúsins við útlönd.

Á síðustu árum hefur þróast hér hagkerfi, efnahags- og atvinnulíf sem nærist á viðskiptahallanum og er orðið háð honum. Það verður þrautin þyngri að snúa af þeirri braut, en það er afar brýnt. Krafa um hagræðingu sem tekur einungis tillit til tímabundinna arðsemiskrafna fjármagnseigenda og ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar hefur villt stjórnvöldum sýn og leitt atvinnulífið inn á villigötur sem þjóðin öll sýpur nú seyðið af.

Hér verður að breyta um kúrs. Stöðva þarf einkavæðingu almannaþjónustunnar. Búa þarf atvinnulífinu þá umgjörð að fólk og fjármagn leiti aftur til þeirra atvinnugreina sem stuðla að varanlegri verðmætaaukningu í þjóðfélaginu og þar með raunhagvexti. Beina þarf athyglinni að litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem hugvit og framtak sérhvers einstaklings fær notið sín og að atvinnurekstri sem er í takt við íslenskar aðstæður og íslenskan veruleika og byggist á sjálfbærri nýtingu náttúrauðlindanna. Takist þetta mun byggjast upp blómlegt atvinnulíf á raunsönnum grunni um allt Ísland.

Í þessum stóru málaflokkum greinir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð á við stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar um forgangsröðun, áherslur og pólitíska sýn.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð flytur örfáar brtt. við fjárlagafrv. við lokaafgreiðslu þess. Þessar brtt. lúta í fyrsta lagi að því að skerpa og undirstrika áherslur flokksins í fjármálum ríkisins. Við leggjum til að hinum boðuðu skattbreytingum sem liggja nú fyrir þinginu verði að hluta til frestað og þar af leiðandi fái ríkissjóður í tekjur af sérstökum tekjuskatti, 600 millj. kr., sem nú er gert ráð fyrir að falli niður, og einnig að hluti af þeim eignarskatti sem ætlunin er að falli út samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar verði frestað þannig að ríkissjóður haldi þar áfram um 500 millj. kr.

Síðan leggjum við áherslu á aðra málaflokka. Við leggjum áherslu á menntun. Við leggjum áherslu á málefni Þjóðminjasafnsins. Við leggjum áherslu á menningarstofnanir. Við leggjum áherslu á málefni fatlaðra. Við leggjum áherslu á heilbrigðismálin og við leggjum áherslu á að ekki verði ráðist í ótímabærar framkvæmdir vegna stóriðju, stóriðju sem ekki einu sinni hefur verið tekin ákvörðun um að fari í gang.

Herra forseti. Nánar verður gerð grein fyrir einstökum tillögum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við umræðurnar seinna í dag.