Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 14:16:59 (2675)

2001-12-07 14:16:59# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Í mínum huga skiptir einmitt ekki hvað síst máli þjónusta banka, þjónusta pósthúsa, hin almenna þjónusta. Það skiptir máli hvernig fjarskipti eru, möguleikar til gagnaflutnings úti um land. Og áherslan á að vera í þá veruna að í það sé lagt fjármagn af hálfu ríkisins þegar verið er að forgangsraða fjármagni. Og með því að styrkja byggð og styrkja þessa grunnþætti samfélagsins einmitt úti um landið þá erum við líka að skapa atvinnulífinu fýsilegri umgjörð og fólki fýsilegri búsetu.

Ég geri alveg ráð fyrir því, herra forseti, að hv. þm. hljóti að átta sig á þessu og gera sér grein fyrir þessu. Við erum t.d. andvíg því að hækka skólagjöldin á framhaldsskólanemendum og háskólanemendum. Okkur finnst nóg að gert og nógur kostnaður fyrir þetta unga fólk utan af landi að þurfa að leggja á sig mikla fyrirhöfn og verulegan kostnað til að sækja nám, framhaldsskólanám eða háskólanám fjarri heimabyggð sinni þó ekki sé verið líka núna, eins og liggur fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar, að hækka skólagjöld, hækka innritunargjöld á nemendum. Það er ekki til að styrkja atvinnulíf, menntun og búsetu um land allt og tryggja þar með hinn raunsanna hagvöxt.