Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 14:18:54 (2676)

2001-12-07 14:18:54# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SvH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[14:18]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Formaður fjárln., hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, lýsti í upphafi ræðu sinnar þeirri skoðun sinni og talaði eins og það væru staðreyndir í bakgrunni að við stæðum frammi fyrir mikilli lægð í efnahagsmálum, hættulegri lægð sem þyrfti að mæta með gagngerum ráðstöfunum, og að fjárlagafrv. eins og talað er fyrir flytti skýr skilaboð til alls almennings og félaga um að nú verði að beita nýjum tökum í viðureigninni við þennan mikla vágest sem manni skildist að stefnan og viðhorfin í efnahagsmálum væru.

Ég skal ekki segja um hvernig háttað er samskiptum forustumanna hæstv. ríkisstjórnar, t.d. hæstv. forsrh. og formanns fjárln., en svo er að sjá að þar sé ekkert samband á milli og að hv. formaður fjárln. lesi ekki skilaboðin sem birtast frá hæstv. forsrh. um stöðu mála og er þar einna greinilegast til orða tekið af hálfu hæstv. forsrh. í viðtali við Morgunblaðið frá 22. nóvember. Ég vísaði nokkuð til þess viðtals hér á dögunum og ég endurtek það ekkert, en hann lýsti því yfir að allar efnahagsforsendur á Íslandi væru í lagi. (Gripið fram í.) Það má lesa í Morgunblaðinu efst á bls. 6 þennan dag, 22. nóvember, þær væru í lagi, og hann endurtók það.

Hvers vegna gerir þá formaður fjárln., hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, sér áhyggjur af þessari stöðu? Hv. formaður lýsir því yfir í viðtalinu að verðbólga sé á niðurleið, kaupmáttur að aukast, framlegð í sjávarútvegi að aukast gríðarlega, eins og það er orðað þar. Hvernig skyldi sú framlegð hafa orðið til, þessi gríðarlega framlegð í sjávarútvegi?

Hann segir á öðrum stað í viðtalinu að það verði aldeilis ekki brugðið á gömul eða eins og segir þar, með leyfi forseta: ,,Það er ekki fyrirhugað að hlaupa eftir einhverjum gamaldags reddingum eins og tíðkuðust í gamla daga.``

En hvert er það ráð sem brugðið var á til björgunar sjávarútveginum? Skyldi það vera nýtt fyrirbrigði að beita fyrir sig bullandi gengisfalli? Í þá áratugi sem ég man eftir úr íslenskum þjóðmálum var þetta ráðið og á það var brugðið nú. Það er eins og menn eigi erfitt með að skilja og ég vék hér áður að fyrr í umræðum um tekjuskattinn, að menn skilji ekki með hvaða hætti er unnið að viðreisn sjávarútvegsins sem fallinn var í botnlausar skuldir vegna þess að menn höfðu hrammsað út úr honum tugi milljarða ef ekki hundruð milljarða í kvótabraski. Það er frá öllum almenningi sem fjárhæðirnar eru teknar og færðar sjávarútveginum. Neytandinn íslenski borgar þetta allt saman með hærra vöruverði af innfluttum vörum.

Hæstv. forsrh. tilkynnir að gengið muni fara hækkandi, í síðasta lagi upp úr áramótum og, með leyfi forseta, segir hann orðrétt í þessu viðtali:

,,Það gæti meira að segja þurft að gæta þess að gengið hækkaði ekki of ört.``

Vill nú ekki hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hlýða til þessa eiðsspjalls og varpa öndinni léttara af því að ástæður eru svona björgulegar? Enda getur ekki verið að hv. formaður fjárln. geri sér í raun neina grein fyrir því að neitt sé að vegna þess að meðferð á fjárlögunum og innihald þeirra bregst í engu við neinum vanda, þannig að þótt hann tali í aðvörunartón í aðfaraorðum sínum þá trúir hann hæstv. forsrh. í raun ella væru önnur vinnubrögð höfð uppi vegna frágangs fjárlaganna.

Í sambandi við spennuna sagði hæstv. forsrh. að þetta væri einhver óróleiki á hinum svokallaða markaði vegna jólainnkaupa. Það hefði kannski verið ráð til að bregðast við þeim vanda að fresta jólunum. Það var einu sinni uppi tillaga um það og þeir bræður Jón Múli og Jónas Árnasynir sýndu fram á hvernig það var gert.

Hér lýsti hæstv. forsrh. yfir því að gengisbreytingin hefði þegar skilað miklu inn í efnahagslífið. Ég held að það þyrfti að taka allan almenning í kennslustund um hvers slags auðlegð það er og ábati sem fæst inn í íslenskt þjóðfélag með gengisbreytingu. Ég hef áður vikið að þessum málum og það er ekki of oft sem þessi góða vísa er kveðin.

Við gengisbreytingu á íslensku krónunni breytist ekkert vegna þess sem við fáum fyrir vöru okkar erlendis. Það er verið að færa fjármagn til innan lands og kemur okkar afkomu ekkert við í heild, þjóðfélaginu. Með gömlum aðferðum er verið að reyna að rétta við fjárhag sjávarútvegsins, útveginn er að bera upp á sker vegna þeirra ótrúlegu vinnubragða sem viðhöfð eru í stjórn þess útvegs, þeirrar atvinnugreinar undir og á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar. En menn eiga eftir að þreifa á öðru, það er eitt sem víst er, í sambandi við þau mál og það er ekki langt undan án þess að ég ætli að gerast neinn sérstakur spámaður í þeim efnum.

Ég fer einnig að efast um að hæstv. ríkisstjórn og fjármálayfirvöld geri sér neina grein fyrir því til hvers á að beita fjárlögum þjóðfélagsins eða að fjármálayfirvöldin neita að taka mark á því. Ég er þeirrar skoðunar aftur á móti að beiting fjárlaga á þenslutímum sé aðaltækið sem ríkisstjórn á hverjum tíma hefur til þess að draga úr spennu og ráða við að efnahagsmálin sígi ekki á ógæfuhlið. Og að ég skuli vera þessarar skoðunar um málið og viðhorf ráðandi manna í fjármálum ríkisins kemur til af því að ekki er að sjá að nein viðbrögð séu höfð uppi til þess að bregðast við þeim vanda sem við blasir.

Fjárlögin, forsendur fjárlaga, segir hæstv. ríkisstjórn, og tilgangur þeirra, sé að draga úr spennu, sporna við viðskiptahalla, draga úr verðbólgu, treysta undirstöður atvinnulífsins og tryggja stöðugleika. Menn ættu að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort ekki sé stöðugleiki hér. Eftir þessum orðum þarf víst að tryggja hann á nýjan leik. En menn eiga auðvitað að leita þangað sem svör er að fá.

Hvernig lítur svo dæmið út um beitingu fjárlaganna eða afgreiðslu þeirra? Undirstöðuatriði er að draga úr útgjaldahlið fjárlaga og alveg miskunnarlaust eins og nú horfa við sakir. Í fjárlagafrv. fyrir þetta ár sem er að líða, þegar það var lagt fram, var gert ráð fyrir tæplega 210 milljarða útgjöldum. Fjárlagafrv. nú er 239 milljarðar og hækkun þess vegna milli frumvarpanna um 14% tæp. Og fjárlög þau sem við búum við nema nú 219 milljörðum, námu 219 milljörðum við afgreiðslu í desember í fyrra. Síðan hafa menn valsað um og gengið í sjóðinn og fengið sér hnefa með því að eyða heimildalaust nærri 15 milljörðum, eins og kom í ljós við afgreiðslu á frv. til fjáraukalaga. Og þá þýðir það að frá árinu 2000 hefur hækkun orðið á útgjaldahlið fjárlaga árið 2000 og er orðin á yfirstandandi ári 20% milli þessara tveggja ára. Hvorki meira né minna.

[14:30]

Það er ekki verið að draga úr spennu með þessum ósköpum. Spurningin er auðvitað: Hvernig stendur á þessu? Ég hef haldið því fram að það sé vegna þess að menn vilji halda því að þjóðinni að hér sé áframhaldandi góðæri og allar efnahagsforsendur í besta lagi. Og það er kannski ekki von að menn ráði við það að taka tillit til hinnar alvarlegu stöðu þegar þessu er haldið að þeim af sólinni miklu.

Hvað svo um frv. til fjárlaga fyrir næsta ár? Það var við framlagningu 241,4 milljarðar kr. Ef við tökum töluna frá fjárlagafrv. í fyrra, þá er það 22,4% hækkun. Milli fjárlagafrv. fyrir árið sem er að líða og frv. sem lagt er fram fyrir næsta ár er 10% hækkun. Að jafnaði er það svo að eigi bregður mær vana sínum. Miðað við þann sóðaskap í meðferð fjármálanna sem við stöndum frammi fyrir og fjármálayfirvöld leyfðu sér á síðasta ári er ekki ofætlað að gera ráð fyrir einum 15 milljörðum sem þeir tækju til sín og sóuðu án heimilda á næsta ári. Þá er hækkunin milli þessara tveggja ára, útgjaldahliðar fjárlaga í ár og þess sem gert er ráð fyrir og má gera ráð fyrir á næsta ári, 17% hækkun. Sem sagt allt á hverfanda hveli, svo ekki sé kveðið fastar að orði.

Frsm. og formaður fjárln. gat þess, að því mig minnir, að mikið hefði gengið á fjárlagagerðinni. Það undrar nú engan sem fylgst hefur með því þótt úr fjarlægð sé. Þeir grúfðu sig yfir það í fjárln. í allt haust að gera tillögur um breytingar á frv. eins og það var lagt fram. Í ljós kom, þegar leið að lokum, að þeir höfðu aukið við útgjöldin um yfir 2 milljarða kr.

Á þessum spennutímum sem formaðurinn talar um að þurfi að bregðast hart við til þess að draga úr spennu, verðbólgu, viðskiptahalla o.s.frv., þá stjórnar hv. þm. því nú að hækkun var lögð til. Svo er mönnum tilkynnt í beinni útsendingu í Silfri Egils að til standi að draga saman útgjaldahlið fjárlaga --- skera niður. Nú hefur verið unnið að því, á náttfötunum eins og hv. formaður gat sérstaklega um, og niðurskurðurinn nemur nokkurn veginn þeirri fjárhæð sem þeir áður höfðu lagt til, meiri hluti fjárln., að yrði aukið við á fjárlögum. Menn byrja því á upphafinu á nýjan leik, með þá útgjaldahlið fyrir framan sig sem gert var ráð fyrir í frv. eins og það lá fyrir í fyrstu, þegar það var lagt fram.

Það er satt að segja mjög undarlegt að sjá þvílík vinnubrögð. Ég rifja það upp að ég hygg að ég hafi haft gömul kynni af vinnubrögðum fjárveitinganefndar, eins og hún hét þá, og mér næst að halda að vinnubrögð á borð við þetta séu fordæmalaus, séu með öllu fordæmalaus.

Og hvað er svo verið að fikta við? Það birtist á forsíðu Fréttablaðsins í gær að þeir sem ættu að borga væru námsmenn og sjúklingar. Ég ætla nú ekki að fara mörgum fleiri orðum um það háttalag, en það er ekki tekið á neinum lið af neinni alvöru. Það er fiktað við þetta fram og aftur og borið niður á þeim stöðum sem síst skyldi að vísu, en um átak til þess að bregðast við hættunni og erfiðleikunum er ekki að ræða.

En gæluverkefnin fá að halda sér og eins og til þeirra hefur verið stofnað. NATO-fundur upp á fleiri hundruð milljónir kr. og það er of seint að rifja upp annað eins fyrirbrigði og stofnun sendiráðs í Japan fyrir 1.000 millj. kr.

Nei, þeim forsendum sem fyrir þessu frv. lágu og ég rifjaði hér upp, þ.e. að mæta þeim vandamálum sem við blasa, er ekki veitt nein viðspyrna, engin viðspyrna gegn því erfiða og hættulega ástandi sem við búum við. Tilgangurinn eins og hann birtist frá hæstv. ríkisstjórn nær ekki fram að ganga, enda hlýtur hann að vera settur fram til málamynda.

Frjálslyndi flokkurinn varar við þessum vinnubrögðum. Hann mun engan þátt taka í lokaafgreiðslu fjárlaganna, hann vill engan hlut eiga þar að og til engrar ábyrgðar verða kallaður fyrr eða síðar.