Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:02:44 (2682)

2001-12-07 15:02:44# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hv. þm. að gefa ræðumanni tilhlýðilegt hljóð.)

talaði um að það væri of lítill niðurskurður, það þyrfti að skila meiri afgangi. Því erum við sammála. Í tillögum okkar erum við að skila meiri afgangi. En hvar bitnar niðurskurðurinn hjá þessari ríkisstjórn, á hverjum bitnar hann? Hver er að borga afganginn hjá þessari ríkisstjórn? Það eru sjúklingar, það eru námsmenn og það eru fatlaðir. Það er allt í lagi að spara og fara vel með almannafé en það á ekki að bitna á velferðarkerfinu. Þannig forgangsraðar þessi ríkisstjórn. Hún er að auka álögur á sjúklinga um 200--300% í sérfræðiþjónustunni. Sérfræðilæknisþjónustan hækkaði í sumar og nú er hún að hækka enn þá meira og hámarksgreiðslan áður en fólk fær afsláttarkort hefur líka verið að hækka, hækkaði um 50% í sumar, þannig að það eru verulega auknar álögur á sjúklinga í þessu fjárlagafrv.

Ég spyr hv. þm.: Er það þannig sem (Forseti hringir.) þessi ríkisstjórn er að forgangsraða, að láta sjúklinga, (Forseti hringir.) fatlaða og námsmenn greiða þennan fjárlagaafgang?

(Forseti (GÁS): Ég bið þingmenn um að virða tímamörk.)