Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:04:19 (2683)

2001-12-07 15:04:19# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður farið yfir það í ræðu minni og bent mönnum á það hvernig kostnaðarskipting er á Íslandi miðað við öll önnur Evrópuríki. Sjúklingar borga hér hlutfallslega helmingi minna en í öðrum Evrópuríkjum.

Ég hef líka farið yfir það áður að hlutdeild hins opinbera á Íslandi í heilbrigðismálum er mjög mikil. Gríðarlega miklum peningum er veitt til þessa málaflokks. En ég get tekið undir það með öllum öðrum hv. þm. hér og nú og fyrir 5 árum, 10 árum og 15 árum að það er ástæða til að fara yfir það hvernig við verjum þessum peningum, hver stjórn okkar á heilbrigðismálunum er, hvernig þeim er varið. Allar þjóðir Evrópu eiga við þennan vanda að stríða.

Tilhneigingin til þess að peningarnir fara allir í hátækni og viðgerðarþjónustu er alls staðar rík í staðinn fyrir að koma peningunum niður í heilbrigðiseftirlitið.