Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:08:42 (2687)

2001-12-07 15:08:42# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg upplýst að það er ekki svo. Ég er ekki fyrst núna að hafa áhyggjur af því. Það er rétt sem hefur farið fram í umræðunum á undanförnum árum, ríkið hefur til mikillar blessunar verið að passa sig og ekki aukið skuldir sínar á undanförnum árum heldur minnkað þær. En íslenska þjóðfélagið hefur verið að gera það á ábyrgð banka, á ábyrgð einstaklinga og félagasamtaka og ég er aðeins að segja það sem ég held að hver einasti maður viti. Við höfum mikla tilhneigingu, Íslendingar, til þess að fara óvarlega í peningamálum. Það hefur margsinnis komið yfir okkur að við erum að fara óvarlega. Og þjóð sem skuldar svo mikið þó að ríkið sé ekki í beinni ábyrgð á því verður að passa sig og fara varlega. Ég sagði áðan, herra forseti: Það er eins gott að það komi ekkert fyrir vegna þess að við erum jú ein þjóð. Þetta hefur öllum verið ljóst og hefur alltaf verið ljóst.