Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:16:02 (2693)

2001-12-07 15:16:02# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er slæmt ef einhver hefur skilið mál mitt þannig að ég teldi að ég bæri ekki ábyrgð. Auðvitað berum við sameiginlega ábyrgð á fjárlögunum, ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn. Það hefur aldrei farið milli mála.

Ég vil gera athugasemd, herra forseti, ég hef ekki vitað það fyrr að það væri að skjóta sér undan ábyrgð að segja rétt og satt frá því að við höfum gert mistök. Er það að skjóta sér undan ábyrgð að horfast í augu við það að launaþróun opinberra starfsmanna hefur verið mjög óhagstæð? Er það að skjóta sér undan ábyrgð að segja frá því að kostnaðarhlutdeild ríkisins hefur vaxið? Er það að skjóta sér undan ábyrgð að benda á það að samneyslan hefur vaxið hér allt of mikið? Er það að skjóta sér undan ábyrgð að fara yfir þetta og segja frá þessu og tala um það um leið og menn vara við og segja: Við höfum dæmin úr íslenskri hagsögu um það að fari menn svo óvarlega getur farið illa? Það er ekki að skjóta sér undan ábyrgð, herra forseti, það er einmitt að taka á sig ábyrgð, að koma fram, segja frá því sem mistekist hefur, segja frá því sem hefur verið gert rétt, segja frá því sem hefur verið gert rangt, viðurkenna það og horfast í augu við það. (Gripið fram í.)