Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:22:30 (2698)

2001-12-07 15:22:30# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Því miður er hv. 18. þm. Reykv. genginn úr húsi. Hann gagnrýndi reyndar í morgun að það vantaði bæði þingmenn og ráðherra og minnti þann sem hér stendur á að hann væri einn af varaforsetum þingsins og ætti að passa upp á að þingmenn væru á staðnum. En ég segi þetta vegna þess að hann ræddi enn einu sinni um laun þingmanna og talaði í þá veru eins og við hefðum beinlínis um það sjálf að segja. Þessum ágæta þingmanni þykir sjálfsagt lítið til launa þingmanna koma vegna þess að lífeyrisréttindi bankastjóra og ráðherra eru veruleg. Ég er orðinn ansi þreyttur á að hlusta endalaust á það eins og við höfum beinlínis með það sjálf að gera hver laun þingmanna eru.

Því miður er þessi hv. þm. genginn úr húsi og þetta pirrar mig. Þess vegna byrja ég nú ræðu mína á þessum orðum.

Markmið ríkisstjórnarinnar með framlagningu þessara fjárlaga er að draga úr verðbólgu, draga úr viðskiptahalla og treysta undirstöður atvinnulífsins. Enn er stefnt að þessum markmiðum ljóst og leynt með framlagningu fjárlaga ársins 2002. Og með þessu viljum við treysta atvinnulíf landsins og velferð þjóðarinnar.

Eins og fram kom í ræðu í dag verðum við að fara varlega í útgjöldum ríkisins. Menn deila um hvort við skerum of mikið niður eða of lítið og þar fram eftir götum. Við getum hins vegar glaðst yfir því að það er næg atvinna í þessu landi og við búum við góð lífskjör. Í umræðu dagsins í dag megum við ekki gleyma þessum grundvallarþáttum.

Formaður fjárln. hefur gert grein fyrir tillögum meiri hluta fjárln. og ríkisstjórnarinnar nú í 3. umr. og er í raun óþarft að hafa mörg orð um þær til viðbótar. Það hefur líka komið fram að það eru miklar sveiflur sem eiga sér stað í íslensku efnahagskerfi og þær sveiflur eiga sér einnig stað í erlendum nágrannaríkjum okkar. Tekjur eru minni en gert var ráð fyrir og við lifum við ákveðna óvissu í íslensku hagkerfi. Á sama hátt má segja að líka ríki ákveðin óvissa í hagkerfum heimsins, m.a. eftir þá hörmungaratburði sem áttu sér stað 11. september sl. Þjóðhagsstofnun hefur farið yfir forsendur fyrir þjóðhagsspá og öðru slíku og það er einmitt þetta sem m.a. hefur komið fram á þeim fundum.

Aðaláhersluatriði fjárln. hafa verið, nú sem nokkur undanfarin ár, fjarvinnsla á Íslandi, að leggja áherslu á fjarnám, á menningartengda ferðaþjónustu sem margir hafa viljað gera lítið úr hér í þingsölum og tala um að fjárln. sé að leggja peninga í ýmiss konar verkefni sem menn hafa tilhneigingu til að gera lítið úr. Menn gleyma því hins vegar að þessi verkefni skipta hinar dreifðu byggðir mjög miklu máli, bæði verkefnin sjálf og síðan byggðarlögin. Þær litlu fjárveitingar sem er varið til þessara verkefna hafa oft skipt sköpum. Þessu megum við ekki gleyma. Og við megum heldur ekki gleyma því að í þingsölum er oft og tíðum talað um að við þurfum að gera eitthvað annað. Þetta er einmitt ,,eitthvað annað``. Við erum að aðstoða við ýmiss konar smáverkefni og það er einmitt ,,eitthvað annað`` sem við erum að gera í þessum efnum.

Við höfum líka í gegnum árin lagt mikla áherslu á að styrkja landshlutabundin skógræktarverkefni. Það hefur okkur hins vegar ekki tekist núna í þessari fjárlagagerð og það er auðvitað skylda fjmrn. að leggja peninga, viðbótarfjármagn, í verkefni sem þessi til að tryggja að þau geti haldið áfram. Nákvæmlega á sama hátt er algengt að ráðherrar séu að gera samninga um ýmiss konar mál og málaflokka, eins og menningarmál o.þ.h. Þegar gengið er frá svona samningum er brýnt að fagráðherrar tryggi að fjmrn. leggi peninga til þessara verkefna þannig að fjárln. sitji ekki uppi með það á ári hverju að þurfa að leggja viðbótarpeninga í slík verkefni. Þetta er auðvitað samvinna fjmrn. og viðkomandi fagráðuneyta.

Einn viðkvæmasti þáttur í ríkisfjármálunum er málefni heilbr.- og trmrn. Það er alveg ljóst, og þessi málaflokkur snertir í raun og veru alla íbúa þjóðarinnar og er þess vegna, eins og ég segi, afar viðkvæmur málaflokkur. Þáttur heilbr.- og trmrn. í útgjöldum ríkisins er æðistór, 37,3% af heildarútgjöldum ríkissjóðs ef ég man rétt en næst koma fjmrn. og menntmrn.

Heildarútgjöld heilbr.- og trmrn. fyrir árið 2002 eru áætluð um 92,6 milljarðar á rekstrargrunni. Áætlaðar sértekjur eru 3,4 milljarðar og eru gjöld því umfram sértekjur 89,2 milljarðar þannig að sjá má að sértekjur í þessum málaflokki eru til þess að gera mjög litlar. Heildartekjur ríkissjóðs í fjárlögum eru 258 milljarðar.

Heildarútgjöld heilbr.- og trmrn. aukast í þessum fjárlögum um 9,3 milljarða og í reynd hækka framlög --- ég tek það fram að framlög eru að hækka --- til heilbrigðis- og tryggingamála um 11,1 milljarð.

Við vitum að við gætum nýtt hverja einustu krónu sem kemur inn í ríkissjóð í þennan málaflokk en því miður búum við ekki svo vel að við getum það. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig við förum með þessa peninga.

Það er líka athyglisvert þegar verið er að skoða þessar tölur að um 80% af útgjöldum heilbrrn. er launakostnaður þannig að hér er auðvitað um gríðarlegar fjárhæðir að ræða.

[15:30]

Í málaflokknum eru laun umfram verðlagsbreytingar um 7 milljarðar. Þetta er 3 milljarða útgjaldaaukning sem fer m.a. í almannatryggingakerfið. Þar er eins og stundum er sagt einber útgjaldaaukning, þjóðin er að eldast, fólkinu fjölgar sem betur fer og ég hef einmitt lagt fram á þingi þáltill. um það á hvern hátt eigi að meta þessar breytingar í framtíðinni.

Sífellt er verið að finna upp betri og dýrari lyf sem notuð eru og sem betur fer höfum við einnig borið gæfu til að auka framlög til elli- og örorkulífeyrisþega.

Í þessum fjárlögum er gert ráð fyrir að verja 80 millj. til þess að vinna á biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum og heilsu- og forvarnaverkefni er varða heilbrrn. eru um 161 millj. og við verjum 393 millj. til öldrunarmála.

Líka hefur komið fram í þessari umræðu að sjúklingar greiða helmingi minna fyrir læknisþjónustu á Íslandi en gengur og gerist í Evrópu og er ég í sjálfu sér mjög glaður yfir því. Mér finnst sjálfsagt að þetta komi fram í umræðunni af því að mér finnst fjárlagaumræðan við 3. umr. hafa snúist um að við séum að verja minni peningum til heilbrigðisþjónustu en við erum að gera.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að þessu sinni en vildi að þetta kæmi fram í þessari umræðu.