Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:37:51 (2702)

2001-12-07 15:37:51# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Á margan hátt er þetta sérkennilegt andsvar vegna þess að þingmenn fara yfirleitt í andsvör vegna þeirrar ræðu sem flutt er. (Gripið fram í.) Já, og hv. þm. kemur inn á ýmis atriði sem vantaði í ræðu þess sem hér stendur.

Vinnan í fjárlaganefndinni er býsna fjölbreytt og flókin en um leið afar skemmtileg. Og við eigum mjög gott samstarf, bæði minnihlutamenn og meirihlutamenn, í því starfi. Það er alveg ljóst --- og ég miða við þá þingreynslu sem ég hef hér --- að við vinnum mjög náið saman og það á við um, eins og ég segi, bæði minnihlutamenn og meirihlutamenn. Það er ekki verið að halda neinum upplýsingum frá minni hlutanum, langt í frá. (Gripið fram í.) Við erum hér í 3. umr. fjárlaga. Gjarnan hefur verið rætt vítt og breitt um fjáraukalögin og ég minnist þess að einn hv. þm. eyddi gríðarlega löngum tíma í að tala um norðurljósin, hvað þau væru falleg, þegar verið var að tala um fjáraukalögin við 3. umr., og hvernig bæri að lýsa upp í þéttbýli, hvernig bæri að lýsa upp þinghús og fleira, en ég vil bara taka það alveg skýrt fram af því að hv. þm. spyr um Náttúrufræðihúsið og annað slíkt að ég er þess fullviss að þessar 200 millj. komi til með að skila sér í sparnaði og enn er unnið mjög markvisst að byggðaáætlun á vegum þessarar ríkisstjórnar.