Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:39:59 (2703)

2001-12-07 15:39:59# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. síðasti ræðumaður talaði um að næg atvinna væri í landinu. Betur væri að satt væri. Því miður hefur atvinnuástandið versnað og stöðugt fjölgar á atvinnuleysisskrá, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Allmörg fyrirtæki berjast í bökkum. Ég veit til þess að bifreiðainnflutningsfyrirtæki hafa verið að fækka starfsmönnum um þriðjung. Ferðaskrifstofufyrirtækjum fækkar, fólk er atvinnulaust og margir hafa verið án atvinnu í því miður allt of langan tíma.

Hv. þm. gerði hér að umtalsefni liðskiptaaðgerðir og gott ástand í heilbrigðiskerfinu o.s.frv. Mig langar til að spyrja hv. þm., herra forseti: Finnst honum eðlilegt að fólk sé að greiða 20--30 þús. kr. fyrir ferliverk, fyrir aðgerðir hjá sérfræðilæknum, eins og verður eftir að þetta fjárlagafrv. verður orðið að lögum, þ.e. að það hækki úr 5 þús. kr. upp í 20--30 þús. kr. og jafnvel meira fyrir slíkar aðgerðir?

Ég minnist þess, herra forseti, að þegar systir hv. þm. var yfir þessu ráðuneyti heilbrigðismála þótti henni það ekki eðlilegt og lækkaði þessa upphæð niður í hámark 5 þús. kr. Nú er ríkisstjórnin sem sagt að fara til baka og hækka þetta um 200--300%. Ég hefði gjarnan viljað fá svar frá hv. þm. sem hefur farið hér fram undir kjörorðinu ,,Fólk í fyrirrúmi`` og ég spyr hvort þarna séu sjúklingar í fyrirrúmi.