Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:41:57 (2704)

2001-12-07 15:41:57# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Háttvirtum þingmanni er mjög tamt að nota orðin ,,Fólk í fyrirrúmi``. Það er eins og hún sakni þess að vera ekki lengur í þeim flokki sem hún fylgdi (Gripið fram í.) fyrir nokkrum árum. En það vildi þannig til að þegar jafnaðarmannaflokkurinn sem þá hét Alþýðuflokkur skilaði af sér hér 1995 var atvinnuleysi á Íslandi 6%. Auðvitað ber hv. þm. ekki ábyrgð á því vegna þess að hún var ekki í Alþýðuflokknum þá. Hún var ekki í Framsóknarflokknum þá. Þá var hv. þm. í hreyfingu fólksins sem hét Þjóðvaki. En 1995 þegar hv. þm. settist á Alþingi ásamt ræðumanni hér var atvinnuleysi á Íslandi 6%. Það var gríðarlegt atvinnuleysi. Fyrirtæki römbuðu á barmi gjaldþrots en hafa nú rétt úr kútnum --- þær tölur sem ég hef um atvinnuleysi á Íslandi eru á milli 1 og 2% og sjálfsagt þykir einhverjum það of mikið en ef við miðum okkur --- eins og við gerum gjarnan og hv. þm. mjög gjarnan í athugasemdum sínum --- við önnur lönd stöndum við býsna vel að vígi, herra forseti.

Það kemur mér á óvart þegar hv. þm. fer að vitna hér í systur mína. (Gripið fram í.) Hún var yfirleitt ekki mjög glaðleg, hv. þm., þegar hún var að yfirheyra þann ráðherra og fáir sjálfsagt duglegri við að spyrja hana spjörunum úr. En hvað þátttöku fólks í heilbrigðisþjónustu varðar hefur komið fram að það er u.þ.b. 1% af vergri þjóðarframleiðslu. Ýmsar tölur í þeim efnum eru auðvitað háar. Sá sem hér stendur getur alveg fallist á það. En eins og komið hefur fram eru þetta lægri tölur en gerist og gengur hjá viðmiðunarþjóðum.

(Forseti (GÁS): Forseti ætlar ekki að blanda sér í orðræðu hv. þm. en finnst samt meira viðeigandi að hér sé talað um hæstv. fyrrv. heilbrrh. en fjölskyldubönd látin liggja milli hluta.)