Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 15:44:27 (2705)

2001-12-07 15:44:27# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það varð fátt um svör hjá hv. þm., því miður. Vissulega hefði ég viljað sjá að fólk væri í fyrirrúmi hjá hinum ágæta flokki, Framsfl. Þess vegna spyr ég hv. þm. út í þessi mál. Ég fékk engin svör við því hvort honum þætti eðlilegt að greitt yrði fyrir læknisverk, eftir að frv. verður að lögum, 20--30 þús. kr. sem núna eru rukkaðar 5 þús. kr. fyrir. Það eru engin svör við því. Það hjálpar ekki þeim sjúklingi hvort þetta er 1 eða 2 eða 3% af vergri þjóðarframleiðslu, það hjálpar ekki sjúklingnum sem þarf að borga fyrir þessa þjónustu.

Ég minni á dæmið sem ég nefndi í andsvari við hv. formann fjárln. í morgun um ungu stúlkuna, námsmann, sem varð alvarlega krabbameinsveik. Þegar hún kemur í fyrstu meðferð þarf hún að borga yfir 18 þús. kr. fyrir göngudeildarþjónustu. Vissulega fær hún síðan afsláttarkort en það rennur úr gildi um áramótin og þá þarf hún að fara að borga aftur. Við þetta bætist að vegna hliðarverkana lyfja missir hún sjón og þarf að kaupa gleraugu. Það er engin aðstoð við það úr heilbrigðiskerfinu.

Er það þetta sem hv. þm. vill? Þetta er það sem Framsfl. er að leggja til við þessa fjárlagagerð. Það á að láta þetta fólk greiða meira. Finnst mönnum þetta rétta forgangsröðunin í heilbrigðiskerfinu í dag? Það er von að hv. þm. sé svarafátt.