Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:10:52 (2709)

2001-12-07 16:10:52# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:10]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni nefndi ég ekki málefni fatlaðra en ég skal gera það og taka þá til að svæðisskrifstofa fatlaðra er með 140 millj. kr. halla. Það er verið að klóra í bakkann með þeim tillögum og það ber að virða, en það stendur nú mikið út af bæði þar og á Reykjanesi.

Þær tillögur sem ég gerði að umtalsefni voru aðeins 2--3 tillögur, ein sem er sýndartillaga og varðar lífeyrisgreiðslur og tvær tillögur sem varða það að flytja kostnað frá ríkinu yfir á sjúklinga, í báðum tilvikum. Um er að ræða 160 millj. vegna komu til sérfræðinga og 310 millj. vegna lyfja. Ég kalla þetta gaddavírstillögur og ég stend bara við það.

Síðan er hitt sem nefnt var hér áðan, að við hefðum haft í margar vikur sparnaðartillögur ríkisstjórnar. Það kom fyrst fram á sunnudegi í þættinum Silfri Egils að það ætti að birta þær. Það kom frá hæstv. forsrh. Það hafði ekki einn einasti þingmaður, sitjandi í fjárln., hugmynd um að eitthvað slíkt stæði til. (Gripið fram í: Nú?) Það er alveg á hreinu. Minni hlutinn sá fyrst í fyrrakvöld þær sparnaðartillögur sem um var að ræða frá ríkisstjórn. Þá gátum við fyrst hafið vinnuna án þess að hafa, virðulegur forseti, aðgang að þeim gögnum sem meiri hlutinn hefur. Ég var að lýsa því áðan að það sem kemur til minni hluta fjárln. er í tilkynningaformi og ekkert öðruvísi. Og þess er krafist nánast að afgreiða þær tillögur á sem skemmstum tíma. Það stóðst engan veginn að gögn væru lögð fram 30. nóvember eins og talað er um í vinnuáætlunum. Það var síðast í fyrrakvöld sem það var gert, að leggja tillögur til sparnaðar fyrir minni hlutann. Þá gátum við farið að skoða málin.