Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:18:56 (2713)

2001-12-07 16:18:56# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði svar hæstv. heilbrrh. og þakka fyrir ábendingarnar en ég minni hæstv. heilbrrh. á að gjaldtaka vegna komu sjúklinga til sérfræðinga var hækkuð í sumar. Nú á aftur að verða hækkun. Þess vegna er þetta gagnrýnt og það alvarlega. Ég kem ekki upp og gagnrýni hækkun sem er samfara eðlilegri verðþróun. Ég get það ekki. Ég verð að viðurkenna hana.

Það sem um er að ræða er hækkun gjaldtöku vegna lyfja og hæstv. heilbrrh. segir að það eigi líka að skoða verðmyndunargrundvöll lyfja. Þá spyr ég hæstv. heilbrrh.: Hversu stór hluti af þessum 310 millj. á að falla á þá sem nota lyfin? Ég veit ekki hvort hann getur svarað þessu en þetta er auðvitað verið að deila um. Ég deili á að menn skoði ekki betur þá liði sem m.a. við í Samfylkingunni bendum á í tillögum okkar til sparnaðar fremur en að gera það sem ég hef gert að umræðuefni. Tillögur upp á 800 millj. bara til þess að núllstilla, ég kalla það til að núllstilla fjárlagafrv. Það er ekkert annað á ferðinni. Menn ákváðu að halda í þá tölu sem sett var fram í upphafi. Þess vegna er verið að núllstilla með þessum 800 millj. Menn vita fyrir fram að þær standast ekki. Þessi tala stenst engan veginn.