Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:47:20 (2717)

2001-12-07 16:47:20# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, Frsm. 1. minni hluta MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:47]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að stjórnarandstaðan hafi ekki áhuga á þeim tölum sem hann fór með um t.d. aukningu á fjárframlögum til heilbrigðisstofnana og til málefna fatlaðra. Ég hefði gjarnan viljað sjá hv. þm. reikna á sama hátt út hvað launa- og verðlagsþróun í landinu hefur þýtt í halla fyrir þær stofnanir sem hann nefndi hér, bæði á sviði heilbrigðismála og í málefnum fatlaðra. Rétt er að rifja það upp að Landspítalinn einn og sér --- þrátt fyrr þær hækkanir sem hafa fengist --- fer með 300 millj. kr. halla yfir áramótin og þá er ekki talið til það sem hann þarf í stofnkostnað eða viðhald. Hvernig ætlar hv. þm. Kristján Pálsson að segja að hægt sé að mæta þessum halla öðruvísi en með skertri þjónustu? (Gripið fram í.) Það er mikil synd að við skulum ekki hafa snillinga eins og hv. þm. til að reka þessar stofnanir. (Gripið fram í.)