Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:56:09 (2725)

2001-12-07 16:56:09# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað til að gera athugasemdir við þau ummæli þingmannsins sem lutu að Byggðastofnun. Málið er mér skylt þar sem ég sit í stjórn stofnunarinnar, og ummæli hv. þm. um styrki Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og hvernig framlag heimamanna væri metið voru rangar fullyrðingar að mínu mati og ég vísa þeim algerlega á bug fyrir hönd stofnunarinnar.

Ég vil benda hv. þm. á að stofnuninni ber að setja fé til eignarhaldsfélaga samkvæmt lögum og hefur gert það þar sem heimamenn hafa verið tilbúnir að leggja fram framlag á móti en samkvæmt reglugerð má stofnunin ekki eiga meira en 40% í þeim félögum og því er ekki hægt að láta út fé nema 60% fjár komi á móti heiman úr héraði. Það er auðvitað það sem skiptir máli og það er ekki hægt að fallast á það sem meginreglu að stofnunin kaupi fé í eignarhaldsfélögum án þess að mótframlag komi til.