Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 16:58:39 (2727)

2001-12-07 16:58:39# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að rétt sé að fara aðeins yfir málið. Það eru nokkur eignarhaldsfélög í landinu sem hafa verið stofnuð fyrir atbeina Byggðastofnunar. Hún hefur keypt hlutafé í þeim fyrirtækjum í samræmi við það sem heimamenn á starfssvæði félagsins hafa lagt fram á móti í hlutföllunum 40% á móti 60%. Það var til eitt eignarhaldsfélag sem hafði verið stofnað áður, Eignarhaldsfélag Suðurnesja. Þar höfðu heimamenn lagt fram fé og fjárfest í ýmsum fyrirtækjum og Byggðastofnun ákvað að kaupa sig inn í það félag fremur en að hvetja til stofnunar nýs félags. Fallist var á það fyrsta árið, 1999, að Byggðastofnun legði fram framlag sitt án sérstaks mótframlags frá öðrum eigendum félagsins. Það er eina frávikið frá þeirri meginreglu að láta ekki út fé í þessu skyni nema á móti kæmi mótframlag. Hv. þm. hlýtur að skilja að við getum ekki fallist á að eldri fjárfestingar verði teknar gildar sem mótframlag því að það er enginn hörgull á eldri fjárfestingum sem menn geta talið fram á móti framlagi Byggðastofnunar.