Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 17:00:56 (2729)

2001-12-07 17:00:56# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[17:00]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson kom víða við í ræðu sinni. Ég ætla nú ekki að fara yfir sviðið allt en velta upp a.m.k. tveimur þáttum í ræðunni.

Sá kafli ræðunnar sem fjallaði um byggðamálin var athyglisverður. Mér finnst nauðsynlegt að spyrja hv. þm. hvort hann hafi einhverjar upplýsingar sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason hafði ekki --- en þeir félagar sitja báðir í meiri hluta fjárln. --- varðandi það að væntanlega kæmu inn tillögur vegna nýrrar byggðaáætlunar. Því miður hefur slíkt ekki sést á borðum okkar í fjárln. og spurning hvort þetta hefur á einhvern hátt verið skýrt í meiri hluta fjárln. Hvað veldur því að eingöngu eru teknir út þeir liðir sem tilheyrðu gömlu byggðaáætluninni en hin nýja byggðaáætlun á sér hvergi stoð í fjárlagafrv.?

Hitt málið sem ég kem að í seinna andsvari mínu og hv. þm. getur farið að undirbúa sig með varðar framhaldsskólana.