Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 17:05:57 (2733)

2001-12-07 17:05:57# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér á þessum föstudegi fer fram 3. umr. um fjárlög ríkisins og til stendur að afgreiða þau í kvöld eða á morgun. Rakið hefur verið allnákvæmlega hvernig vinnan að fjárlagagerðinni hefur gengið fyrir sig, sérstaklega þessa síðustu daga og hversu lítill tími hefur verið fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að undirbúa okkur og skoða breytingar og vinna úr tillögum meiri hlutans hér á þingi. Hugsanlega kemur það eitthvað fram í undirbúningi okkar en svona gengur þetta fyrir sig. Við höfðum óskað eftir því að 3. umr. yrði ekki fyrr en á mánudaginn þannig að við gætum undirbúið okkur betur en við verðum að halda út daginn í dag.

Miðað við þá áherslu sem var lögð á að hafa þessa umræðu í dag og klára þessa vinnu þá hefði ég búist við því að stjórnarliðar sætu hér í sætum sínum og ynnu með okkur að frágangi málsins. Það hefur verið minnst á að allir hafi sjónvarpsskjá í vinnuherbergjum sínum og geti setið þar. Vissulega er það svo. Það á við um þingmenn sem ráðherra. En eftir sem áður, miðað við þann undirbúning og þá áherslu sem var lögð á að vinna þessa vinnu hér í dag, herra forseti, þykir mér ámælisvert að hér sé nær tómur salur. Hann hefur verið nærri tómur í dag. Það á bæði við um þingmenn og ráðherra.

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum yfir fjárlagafrv., ekki að tína hvern einasta lið en nefna helstu þætti sem mér finnst rétt að gera athugasemdir við. Við viðurkennum það öll hér í þessum sal og finnum fyrir því úti í þjóðfélaginu að efnahagsástandið er ekki eins og spáð hafði verið. Það hefur haft þó nokkurn aðdraganda. Ekki hefur verið hlustað á aðvörunarorð minni hlutans, ekki heldur Seðlabankans né Þjóðhagsstofnunar. Minni hlutinn hefur ekki verið að hrópa ,,úlfur, úlfur`` eða verið með upphrópanir um versnandi ástand til að reyna að koma höggi á meiri hlutann heldur höfum við haft verulegar áhyggjur af versnandi horfum í efnahagsmálum enda séð hvernig þau gætu þróast, burt séð frá þeim hörmulega atburði, herra forseti, sem varð þann 11. september. En nú virðist hann orðinn nokkurs konar akkeri fyrir hæstv. ríkisstjórn Íslands og alveg örugglega fleiri lönd til að breiða yfir ýmis útgjöld. Stjórnvöld hafa vísað til þeirra hörmulegu atburða sem urðu þá og viðbragða við þeim til að réttlæta ýmsar gjörðir.

Sannarlega kallaði sá dagur á breytta hugsun og breytt vinnubrögð, m.a. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, vopnaleit og annað sem við höfum ekki talið að við þyrftum. En heimsmyndin hefur breyst þannig að við þurfum að setja okkur í aðrar stellingar og það kostar sitt. En ég bið þingheim að minnast þess að það er ákaflega auðvelt að fljóta með í múgæsingu og hysteríu þegar kemur að hernaðarumsvifum og viðbrögðum við hryðjuverkum. Ég held að það sé betra að staldra aðeins við og anda djúpt og muna eftir mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að Sameinuðu þjóðirnar séu til áður en við látum dragast með í miklar aðgerðir.

Það er alveg ljóst að ef okkur tekst að ná okkur upp úr þessari niðursveiflu, þó ekki verði fyrr en árið 2003, þá mun hæstv. ríkisstjórn nota efnahagsástandið til þess að réttlæta enn frekar þá áætlun sína að koma á stóriðju á Austurlandi og fara í þær virkjanaframkvæmdir sem þeim tengjast þó að þær hafi verið metnar þannig að náttúruspjöllin séu það mikil að ekki sé réttlætanlegt að fara í virkjunina, eins og fyrirhugað var. Efnahagsástandið verður örugglega notað enn frekar til að píska þá framkvæmd áfram.

Herra forseti. Eins og fjárlögin eru lögð fram --- fyrst sú hækkun sem fram kom hjá meiri hluta fjárln. og svo skyndilega niðursveifla og lækkun um nokkurn veginn sömu tölu frá hæstv. ríkisstjórn um rúma 2 milljarða kr. --- endurspeglar stefnu ríkisstjórnarinnar. Að vísu er þessum niðurskurði dreift á öll ráðuneyti. Allir eiga að bera sitt en þó sér maður eftir sem áður hvaða fjárlagaliðir eru helst skertir. Mér voru það mikil vonbrigði að sjá að það eigi að innheimta enn frekar gjöld af sjúklingum og að lyfjaverð muni hækka. Þó að það eigi að koma á hagræðingu varðandi samheitalyf og nýtingu ódýrari lyfja mun hækkunin eftir sem áður lenda á sjúklingum og eins hækkun vegna komu til sérfræðinga. Því hefur ekki verið svarað hér hversu hátt eigi að lyfta þessu þaki, sem nú er 5.000 kr. Hversu hátt á það að fara? Eins munu komugjöld til heilsugæslunnar hækka. Ég var að vona, herra forseti, að sjúklingum yrði hlíft við beinum niðurskurði og það mundi nægja að láta hann koma niður á á stofnununum.

Annar rauður þráður hér í gegn er að það eigi að selja enn frekar eignir ríkisins. Þær stóru eru nú að týna tölunni hver af annarri en nú á að einhenda sér í að selja jarðir. Ég harma að svo ákaft skuli farið í að selja ríkisjarðir þar sem engin markviss stefna eða markmið og tilgangur með sölu jarðanna liggur fyrir.

Herra forseti. Þegar til framtíðar er litið gæti verið gott að ríkið ætti jarðir, sérstaklega á stöðum þar sem náttúrufegurð er mikil og hægt að koma upp útivistarsvæðum eða vettvangi fyrir fólk að fara um. Þar gæti það a.m.k. verið aðgengilegt og öllum almenningi opið en ekki í einkaeign, aflokað og afgirt. Það verður æ algengara þegar jarðir eru seldar til einkaeignar og ekki til búskapar að jarðir séu lokaðar af. Ég hvet hæstv. landbrh. til að leggja fram stefnumótun varðandi sölu á ríkisjörðum, hvaða jarðir eigi að selja, hverjum eigi að halda eftir og skýra markmiðin með sölunni, ekki bara þau að ná inn fé í ríkiskassann.

[17:15]

Eins hef ég alltaf talið rangt að fresta þeim framkvæmdum sem hafnar eru. Ef farið er í byggingu tel ég að byggingar\-áætlun eigi að standa, það eigi að klára bygginguna og frekar að fresta þeim sem ekki er byrjað á. Það er dýrt að vera með frestanir eftir að byrjað er á byggingu og ég tel að við ættum að reyna að komast hjá slíkum vinnubrögðum. Það sama á þá við um viðbyggingu við Alþingishúsið. Þó að við ætlum að sýna gott fordæmi með frestun tel ég að við hefðum átt að halda áfram og klára þessa byggingu. Hún verður engum að gagni hálfköruð eins og hún er. Það er mikilvægt að geta nýtt hana þar sem þar verður eina aðgengið fyrir fatlaða og þegar upp er staðið held ég að enginn sparnaður verði af þessu.

Þegar við erum að fresta framkvæmdum skiptir líka máli hvaða tíma við veljum til þess. Og, herra forseti, ef við erum að horfa fram á tíma núna þar sem byggingarframkvæmdir eru að minnka, ef efnahagslífið er þannig að nýbyggingum fækkar og dregið er úr stórframkvæmdum, tel ég að ríkið eigi að halda uppi ákveðnum verkþáttum til þess að halda uppi vinnu í landinu. Ef einkaaðilar halda að sér höndum er gagnlegt að framkvæmdir eins og vegaframkvæmdir og framkvæmdir á vegum hins opinbera séu látnar ganga til að halda uppi vinnu á viðkomandi stöðum.

Það hlýtur alltaf að vera erfitt að skera niður og segja hvar má þá sleppa en ég held að það sé alveg ljóst að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum að hér sé eitt verkefni sem er þegar orðið dýrt, og verður á endanum mjög dýrt, og það er NATO-fundurinn næsta sumar. Það verkefni hefði átt að slá af. Þó að við séum búin að setja einhvern pening í undirbúning á að slá það af, og þar kemur margt til.

Hugsanlega var hægt að segja á meðan góðærið var að við hefðum efni á þessu en núna er farið að þrengja að í þjóðarbúinu og kostnaðurinn við fundinn á eftir að verða miklu hærri en við sjáum á pappír núna. Þar koma líka til hryðjuverkin 11. september --- nú hlýtur að þurfa miklu meiri gæslu og viðbúnað við þennan fund hér á Íslandi næsta vor en áætlað var. Og það er alveg spurning að mínu mati hvort við séum undir það búin að halda slíkan fund á Íslandi. Þetta er a.m.k. verkefni sem ég tel að við hefðum átt að slá af.

Ég hefði frekar viljað sjá markvissar áherslur til að treysta byggð á landsbyggðinni í frv. Ef við ætlum okkur að snúa þeirri byggðaþróun við sem verið hefur í gangi verðum við að gera það markvisst. Þá verður þess að sjá stað í fjárlagafrv. Þegar við erum að tala um að styrkja byggð eru það ákveðnir þættir sem skipta máli, m.a. góð menntun, en framhaldsskólarnir í landinu eiga í miklum erfiðleikum og það á við um landsbyggðina líka. Þarna hefðum við þurft að auka við en ekki skera niður eða vera með þær aðhaldsaðgerðir sem eru í dag. Vegaframkvæmdir eru líka mikilvægar til að snúa byggðaþróuninni við. Það er líka mikilvægt að styrkja Byggðastofnun og þróunarstofurnar til að koma á nýsköpun og þróunarverkefnum úti um allt og það er líka mikilvægt að styrkja fjórðungssjúkrahúsin til að þau geti aukið starfsemina, skapað sér sérhæfð verkefni og markað sér sess í staðinn fyrir að dala eins og þau hafa gert, í fyrsta lagi vegna fækkunar íbúa og síðan vegna þess að þau hafa ekki haft möguleika á að auka sérfræðiþjónustu eða vera með sérþjónustu sem allir landsmenn gætu sótt.

Heilbrigðisstofnanirnar, framhaldsskólarnir og háskólarnir --- allar þessar stofnanir eru í miklu fjársvelti. Rekstrarvandinn er farinn að ógna starfsemi þessara stofnana og, herra forseti, einhvern veginn læðist það að mér að með því að halda bæði skólum og heilbrigðisstofnunum í spennitreyju þannig að þær geti ekki sinnt verkefnum sínum verði þeim öflum sem vilja koma hér á einkarekstri og einkavæðingu á öllum sviðum gert auðveldara fyrir að benda á að þessar stofnanir sinni ekki hlutverki sínu og því verði að koma á einkarekstri og það sé það eina rétta. Þessar stofnanir fá prósentuhækkanir en það er alveg ljóst að þær hækkanir sem koma fram í frv. duga varla til þess að fylgja eftir launaþróun, hvað þá fara í frekari þróun.

Herra forseti. Þá langar mig til að nefna hérna nokkur atriði sem snúa að menntmrn. og þá fyrst að Ríkisútvarpinu sem hefur átt í miklum rekstrarerfiðleikum í mörg ár. Það fær að vísu hækkun með afnotagjöldum á nýju ári en eftir sem áður verður vandi í rekstri Ríkisútvarpsins og eftir stendur vandi svæðisstöðvanna. Sú hugmynd að gera svæðisútvarpið á Akureyri að miðstöð Stöðvar 2 var hugmynd sem var reifuð hér í þessum ræðustóli. Ég tel alveg fráleitt að fara í þær aðgerðir. Það á aftur á móti að efla svæðisútvarpið, og útvarpsstöðin á Akureyri gæti orðið miðstöð svæðisstöðvanna úti á landi. Svæðisstöðvarnar eru vel mannaðar og jafnvel hægt að gera enn betur. Þær geta sinnt dagskrárgerð sem mundi nýtast bæði á Rás 2 og Rás 1 og ég tel að með því móti, að efla svæðisstöðvarnar og koma þeim betur inn í útvarpssendingar Rásar 1 og 2, mundum við leggja stóran skerf til uppbyggingar menningar úti á landi.

Menntaskólinn á Egilsstöðum er einn af þeim skólum sem eiga og hafa átt í rekstrarerfiðleikum og nú á aftur að minnka framlög sem áttu að koma fram til að styrkja leigu fyrir skólann. Þessi niðurskurður á eftir að koma sér mjög illa því að skólinn hefur sprengt utan af sér húsnæðið. Staðið hefur til að byggja nýjan skóla, það er núna í undirbúningi og ég hafði vonast til að framkvæmdum yrði frekar flýtt en seinkað eins og nú stendur til. Skólinn hefur þurft að leigja húsnæði úti í bæ fyrir nemendur sína og ég sé ekki fyrir hvernig hann muni komast út úr þessum rekstrarerfiðleikum, að fá ekki fullan styrk eins og um hafði verið talað, nema það komi þá fram í hærri húsaleigu hjá nemum.

Reynt hefur verið að byggja upp fjarnám víða um land með fræðslusetrum. Fræðslunetið sem er fyrir háskólanám og hefur miðstöð á Egilsstöðum hefur staðið undir björtustu vonum. Aðsókn að skólanum eða fjarnáminu hefur verið mjög mikil og til að fylgja eftir þessari þróun til að hvetja fólk til að sækja sér meira nám verður auðvitað að fylgja því eftir með styrkingu til skólans, til Fræðslunets Austurlands og þessara fjarskiptamiðstöðva sem sinna fjarnáminu. En þarna vantar upp á og það kemur eingöngu niður á framboði til náms, það verða þá færri sem geta sótt skólann. Allt snýr þetta að því að styrkja og þótt ég taki hér dæmi úr mínu kjördæmi eru svipaðar aðstæður annars staðar.

Eins hefði ég viljað sjá --- og kem ekki auga á hér í fjárlagafrv. --- vilja hins opinbera til að færa störf út á land með fjarvinnsluverkefni en hann er ekki sýnilegur. Eins og miklar væntingar voru byggðar upp í kringum þessi fyrirheit hafa þær hrunið og víða er fólk að reyna að halda stöðvunum gangandi með einstaka verkefnum. Á flestum stöðum voru það konur sem réðu sig í þessa vinnu en þær ganga nú um atvinnulausar. Ég tel mikilvægt verkefni að einhenda sér í að færa fjarvinnslustörf út um land og standa við stóru orðin.

Einstaka sérskólar eins og Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað eru líka mikilvægir, ekki bara sem landshlutabundnir skólar heldur til að halda uppi ákveðnu námi í landinu. Hússtjórnarskólar eru orðnir fáséðir og við eigum að hlúa að þeim sem enn eru starfandi.

Herra forseti. Mig langaði í nokkrum orðum að fara hér yfir verkefni landbrn. en þar er m.a. hlutverk Skógræktar ríkisins. Hún hefði þurft að fá meiri framlög en hér kemur fram. Og þrátt fyrir 8 millj. kr. aukafjárveitingu sem kemur fram í brtt. duga þær ekki sem uppbót fyrir sérverkefni því að Skógrækt ríkisins var líka með sölu á öðrum plöntum en skógræktarplöntum og mun eiga í miklum erfiðleikum með bara að halda rekstri sínum þar sem þessi sérverkefni hafa verið tekin af henni. Eins má benda á það, herra forseti, að verkefnið Átak í landgræðslu og skógrækt, sem var átak um kolefnisbindingu, er fellt niður. Mér þykir það mjög undarlegt því það á að bjarga stóriðjunni í framtíðinni að hér sé skógrækt í miklum blóma. Til þess þurfa að liggja fyrir einhverjar niðurstöður um hvað skógræktin og önnur landgræðsluverkefni duga í kolefnisbindingu og því hefði ég haldið að átak í landgræðslu og skógrækt, þ.e. þetta kolefnisbindingarverkefni, yrði að vera áfram og það virðist sem Landgræðslan hafi fengið öll framlög til kolefnisbindingarinnar, ef ég get lesið rétt út úr frv.

[17:30]

Herra forseti. Víða um land hefur verið hrundið af stað miklum verkefnum í skógrækt. Miklar væntingar eru bundnar við skógræktina, sérstaklega hjá þeim bændum sem eru að hætta búskap og vilja snúa sér að öðru án þess að fara af jörðum sínum. Samningar hafa verið gerðir vegna ákveðinna skógræktarverkefna og það er auðvitað alveg nauðsynlegt, þrátt fyrir niðurskurð, og skylda okkar að standa við alla þá samninga þannig að áætlanir sem samið hefur verið um við bændur standist. Annað væru hrein og bein svik. Menn verða að geta treyst á samninga þegar farið er í svona verkefni enda snúast þau um atvinnu fólks.

Varðandi félmrn. þá hafa málefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins verið þó nokkuð til umræðu hér. Greiningarstöðin fékk fjárveitingu af fjáraukalögum upp í halla. Sú hækkun sem stöðin fær á fjárlögum mun varla duga til að halda í við launahækkanir en dugir alls ekki til að þróa starfið áfram eða mæta nýjum verkefnum. Til þess er ekki króna. Það eina sem starfsmenn Greiningarstöðvarinnar geta gert á næsta ári er að draga enn úr starfseminni. Við svo búið má ekki standa miðað við þau verkefni sem bíða. Eðlilega fjölgar verkefnunum og þau verða flóknari og fleiri einstaklingar fá greiningu, bæði vegna mannfjölgunar og vegna þess að fleiri fæðast og lifa sem áður fyrr hefðu ekki gert það vegna fötlunar.

Þekking sérfræðinga er alltaf að aukast þannig að nú væri hægt að grípa fyrr inn í og hjálpa fleirum ef hægt væri að manna Greiningarstöðina eins og þarf. Engum skal detta í hug að þar sé verið að leika sér eða fimbulfamba um eitthvað sem ekki er. Það er ótækt að það skuli þurfa að bíða í tvö ár eftir meðferð, eftir að grunur kemur upp um að eitthvað sé að, og koma barninu ekki í greiningu eða meðferð fyrr en eftir tvö ár, vera stöðugt að bíða eftir því að komast að hjá sérfræðingum, jafnvel það seint að niðurstaðan verður: Ef þú hefðir komið fyrr þá hefði verið hægt að gera eitthvað.

Varðandi heilbr.- og trmrn. fagna ég því ef gengið verður frá samningi við Heilbrigðisstofnunina á Hornafirði, þ.e. náist samningar um þetta reynsluverkefni og verði því haldið áfram. Það hefur gengið vel en nokkuð hefur skort á að fjármagnið dygði. Ég bind vonir við að samningar náist um verkefnið og ekki síður að samningar náist um að byggja við stofnunina, við hjúkrunardeildina þannig að það sé ekki til bráðabirgða. Síðast var byggt til bráðabirgða en það má ekki verða að aftur verði byggt til bráðabirgða, að þjónustudeildir verði ekki hafðar með og áfram verði sami barningurinn. Það á við um þessa eins og margar aðrar stofnanir. Það er verið að skera niður til að spara en það er ekki alltaf gert á réttum stöðum.

Mig langar, herra forseti, varðandi heilbrigðisþjónustuna almennt að vísa til fyrirspurnar sem ég lagði fram á þinginu nú í vetur ásamt Steingrími J. Sigfússyni, um biðlista í heilbrigðiskerfinu. Þar kemur mjög skýrt fram hvernig þjónustan er. Biðlistar segja töluvert um aðgengi sjúklinga að heilbrigðisstofnunum. Þegar við lítum á biðlista að Landspítalanum þá eru þeir langir á mörgum sviðum. Þar þarf lengi að bíða og því vil ég segja hér nokkrur orð um Landspítalann. Það er orðinn svo stór útgjaldaliður í fjárlögum ríkisins að ég tel rétt að við stöldrum aðeins við og sjáum hvort þar er ekki hægt að leita einhverra lausna.

Í upphafi vil ég taka fram að ég hef aldrei verið hlynnt sameiningu Landspítala og Borgarspítala. Ég taldi þessar einingar hæfilega stórar eins og þær voru. En nú verður ekki aftur snúið og þá er ekki um annað að ræða en að gera þetta að brúklegri stofnun. Ég tel að allan tímann hafi kostnaðurinn við að gera þetta að brúklegri stofnun verið vanmetinn, þ.e. bara að breyta húsnæðinu --- burt séð frá öllum flutningum á deildum fram og til baka.

Borgarspítalinn er orðinn yfir 30 ára gamall og hafði lítið verið fyrir hann gert varðandi endurnýjun og viðhald, a.m.k. á mörgum deildum. Þegar komið er inn með nýja starfsemi á gamlar deildir --- deildir sem væru ekki byggðar eins í dag, en þetta er það húsnæði sem á að nota --- þá er það óhemjudýrt í slíku húsnæði. Ég held að allan tímann hafi þessi kostnaður verið vanmetinn þannig að þrátt fyrir að bætt hafi verið inn 200 milljónum núna þá tel ég að þar vanti enn a.m.k. 200 milljónir upp á, eingöngu til breytinga á húsnæðinu til að geta komið starfseminni í almennilegt horf. Dragist mjög lengi að starfsemi Landspítalans verði heildstæð þá er það bara bensín á eld fyrir þá sem vilja koma öllu út í einkareksturinn. Þá er hægt að benda á að hin opinbera þjónusta sé ónýt, dugi ekki til og öllu þurfi að koma í einkarekstur.

Þó ég hafi áhyggjur af rekstri Landspítalans þá vil ég, eins og ég nefndi hér í upphafi máls míns, að við leggjum áherslu á fjórðungssjúkrahúsin og stofnanir úti á landi, að auka farþjónustu og sérfræðiþjónustu úti á landi. Við þurfum að styrkja sérverkefni úti á landi þannig að stofnanirnar hafi möguleika á að byggja sig upp.

Það er alveg ljóst að Tryggingastofnun ríkisins verður áfram í miklu basli vegna tölvukerfisins. Ég veit ekki hvað gerist ef það hrynur svo, eins og vírus kæmist í það. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að engu megi muna að þetta kerfi gangi. Ég veit ekki hversu lengi má draga það að endurnýja tölvukerfi Tryggingastofnunar.

Ég vil gjarnan fá svör varðandi Heyrnar- og talmeinastöðina. Hæstv. heilbrrh. er ekki hér en getur þá hugsanlega svarað mér síðar eða hæstv. fjmrh. Það hefur komið fram að miðað við þær breytingar sem gera á verði hægt að fjölga verkefnum og rekstur stöðvarinnar verði ódýrari. Þá vil ég bara spyrja viðkomandi ráðherra, þ.e. þann sem kost á að svara: Hvernig getur reksturinn orðið ódýrari ef hann verður einkarekstur? Ef það á að kosta sjúklinga hið sama að fá tæki hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og hjá einkarekinni stöð, hlýtur það ekki að þýða að ríkið eigi bara að taka meiri þátt í greiðslum fyrir tæki en er í dag? Mín reikningskúnst segir að þannig hljóti það að vera, það sé eina leiðin til að gera þetta ódýrara. En það væri gott að fá skýr svör við því hvort meiningin sé að auka kostnaðarþátttöku sjúklinga við kaup á heyrnartækjunum.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. En það á að skera niður til vegagerðar. Það hefur ekkert komið fram um hvaða vegalagningar er að ræða eða hvernig það á að skiptast. Eins hefur ekki komið fram hvort þessi niðurskurður muni hafa áhrif á útboð á fyrirhuguðum jarðgöngum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, og Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Ég vil taka fram að ég teldi það mjög óskynsamlegt, sérstaklega miðað við þær þrengingar sem nú eru, að bjóða pakkann út í heilu lagi. Ef menn eru ákveðnir í að gera það þannig ætti í það minnsta að bjóða upp á tvo valkosti, þ.e. að bjóða í allan pakkann eða í hvor jarðgöngin fyrir sig. Það er ekki ljóst og ekkert víst að það sé ódýrara að bjóða í pakkann í heilu lagi. Það er alls ekkert öruggt. Það verður ekki ljóst nema gefinn sé sá möguleiki að bjóða megi, annaðhvort í allan pakkann eða í hvor göngin fyrir sig.

Miðað við ástandið eins og það er núna, bæði varðandi samdrátt og aðhaldsaðgerðir þá teldi ég fráleitt, ef það kæmi í ljós að það væri ekki ódýrara að bjóða í allan pakkann, að láta það bitna á þessum ódýru jarðgöngum fyrir austan. Ég teldi slæmt ef menn teldu sig fyrir vikið ekki geta fara í þau. Ég legg áherslu á þetta. Það stendur til að kynna þetta stóra og mikla verk á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hvet til þess að það verði kynnt þannig að það séu a.m.k. tveir möguleikar í stöðunni.

Ég hefði getað nefnt fleiri dæmi en, herra forseti, ég held að nóg sé komið í bili af þeim hugleiðingum mínum og því sem ég hef verið að velta fyrir mér. Vissulega eru verkefnin mörg og ekki auðvelt fyrir hv. fjárln. að velja og hafna. En þetta er spurning um áherslur.