Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 17:45:36 (2734)

2001-12-07 17:45:36# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[17:45]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð sem innlegg í umræðuna um fjárlög, þá þriðju og síðustu sem að sönnu er einnig eins og hér hefur komið í ljós umræða um efnahgsmál og framtíðarhorfur í þjóðarbúinu og staða mála almennt til sjávar og sveita.

Út af fyrir sig væri kannski ekki nokkur ástæða til að setja á neina ræðu undir þeim formerkjum því að hér á síðustu dögum og vikum hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson haldið alloft ræður og farið mikinn og gefið einkunnir á báða bóga. Ætla mætti fyrir ókunna að þar færi stjórnarandstæðingur sem hefði haldið hér uppi verulegu andófi og hörðu gegn stefnu ríkisstjórnarinnar á síðustu sex árum, allt hennar stjórnartímabil, því að hann hefur ekki skafið utan af því og gagnrýnt mjög hvernig haldið hefur verið utan um efnahagsmálin og dregið upp dökka mynd af stöðu þeirra mála eins og þau eru í dag. Eins og ég segi, herra forseti, væri kannski ástæða til að láta þar við sitja.

En auðvitað er það svo að þessi hv. þm., Einar Oddur Kristjánsson, er enginn meðaljón. Hann er einn helsti sérfræðingur sjálfrar ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans á hinu háa Alþingi í efnahagsmálum og peningamálum og hefur völd sem slíkur. Hann er hvorki meira né minna en varaformaður fjárln. Hann hefur að sönnu af þeim ástæðum verið þráspurður um hvort hann beri enga ábyrgð á þessu ófremdarástandi, hvort það geti látið sig gera að óhóflegar launahækkanir, að hans áliti, séu þeim um að kenna sem notið hafa, þeim opinberu starfsmönnum sem hann hefur talið hafa fengið of mikið í sinn vasa í kjarasamningum og kjaradeilum sem þeir hafa átt í, einstakir hópar og samtökin í heild, á umliðnum árum við fjárhaldsmann ríkissjóðs, hæstv. fjmrh.

Þá hefur hv. þm. svarað því til að það væri nú kannski mestan part stjórnarandstöðunni um að kenna því að hún hefði leikið þann leik að koma hér í hvert einasta skipti sem kjaradeilur hafi átt sér stað og heimtað að gengið yrði að kröfum launafólks hvernig sem mál hafa staðið.

Herra forseti. Ég set á þennan inngang svona til þess að undirstrika í raun það leikhús fáránleikans sem við okkur blasir við þessar aðstæður því að staðreynd mála er sú að núna fyrst reynir á ríkisstjórnina og á þennan þingmeirihluta, núna fyrst er ekki vindur í bakið. Núna fyrst renna ekki peningar í ríkissjóð sjálfkrafa inn um allar dyr og gættir eins og verið hefur. Núna fyrst þurfa stjórnarherrarnir að horfast í augu við að það kreppir að. Það eru erfiðleikar til lands og sjávar, það eru erfiðleikar í ríkisbúskapnum, það eru erfiðleikar hjá fólki og þá fyrst reynir á manninn. Þá fyrst fær maður að sjá framan í það sem að baki býr, sjá þær áherslur sem flokkar ríkisstjórnarinnar standa fyrir þegar til kastanna kemur, en einnig hitt hvernig þjóðarbúið er í stakk búið til að mæta slíku andstreymi, til að mæta þessum mótvindi eftir fimm til sex ára samfellt góðæri í landinu.

Og, herra forseti, ekki þarf að fara mörgum orðum um að aðstæður hér í þjóðarbúinu eftir þetta langvarandi góðæri eru með þeim hætti að viðnámið er sáralítið. Möguleikar stjórnarflokkanna til að bregðast við eru sáralitlir og ætla ég þá ekki að fara yfir það leikhús sem sett hefur verið á fjalirnar hér á haustdögum þegar kemur að þróun vaxtamála og gengismála, þegar stjórnarherrarnir, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., staðgengill hans, og í för fylgir hæstv. fjmrh., láta að því liggja í almennri orðaræðu að nú komi þeim ekkert við og það sé ekki á þeirra valdsviði hvernig vaxtaþróun sé í landinu. Þeir hafi ekkert um það að segja lengur hvernig gengismál þróast því að nú sé það á hendi mannanna uppi í Seðlabanka, að vísu þeirra sömu sem þeir handpikkuðu og völdu til að stjórna þeirri stofnun, völdu þá einstaklinga sem þar ráða ríkjum alla sem einn. Þeir gleyma að geta þess að stjórn þeirrar stofnunar er einnig skipuð að meiri hluta til af hálfu stjórnarherranna sjálfra.

Og dettur nokkrum í hug að einhver lifandi maður trúi því þegar hæstv. forsrh. Davíð Oddsson segist ekki ráða neinu um gang mála heldur Birgir Ísleifur, það sé hann sem stýri þessu? Hverjum dettur í hug að trúa svona staðleysu? En það bara hentar. Og dettur einhverjum mönnum það í hug að þeir taki ekki upp tólið, þessir stjórnarherrar, þegar þeim býður svo við að horfa og reyni að halda þannig utan um stjórnartaumana að mál gangi fram? Menn hafa nú hringt út af minna tilefni í mann og annan og látið í sér heyra. Auðvitað er þetta ekkert annað en það að menn eru að víkjast undan ábyrgð þegar það hentar. Og það hentar núna þegar verðbólgubálið er farið að brenna, það hentar núna þegar vextirnir eru upp úr öllu valdi og það hentar núna þegar krónan er ónýt. Þá er ósköp þægilegt að vísa sök, vísa ábyrgð í Seðlabankann. En auðvitað eru mál ekkert með þeim hætti. En þetta var útúrdúr, herra forseti.

Ég talaði um viðnám og nú reynir á. Það er próf hjá ríkisstjórninni. Núna í fyrsta skipti reynir á að ríkisstjórnin þurfi að láta hendur standa fram úr ermum. Það voru digrar yfirlýsingar sem fóru á öldum ljósvakans í frægum þætti, Silfri Egils, um verulegan niðurskurð ríkisútgjalda. Það hafa verið digrar yfirlýsingar á síðustu dögum og vikum að nú þurfi að taka á. Afraksturinn er hér á borðum okkar. Hann er upp á nákvæmlega sömu upphæð, 2,2 milljarða kr. í niðurskurði, og hækkunin var milli 1. og 2. umr. Það er það sem gerst hefur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hér hefur verið áður sagt með réttu í hverju þessar sparnaðartillögur liggja en það sér auðvitað hver einasti maður að þær liggja í þremur meginþáttum. Í fyrsta lagi með bókhaldsfiffi þar sem afstemmt er með hækkun eða lækkun lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Ég man ekki betur en að á hverju einasta ári á umliðnum árum hafi það verið með þeim hætti að menn hafi þurft að bæta í vegna þeirra skuldbindinga og hæstv. fjmrh. hafi þurft að moka út peningum vegna þess að menn hafi vanmetið þær skuldbindingar. Nú bregður hins vegar allt í einu svo við að hann telur sig í fjárlagafrv. sjálfu hafa ofmetið þær umtalsvert, upp á 800 millj. kr. Þetta er auðvitað svo gagnsætt að það er grátbroslegt.

Í annan stað lýtur þetta að frestun framkvæmda og það þekkja allir af gamalli reynslu að það er auðvitað ekkert annað en að pissa í skóinn sinn. Það er enginn sparnaður í raun, það ýtir bara upp stíflu sem einhvern tíma springur og einhvern tíma kemur að því að ljúka þar verki.

Í þriðja lagi, sem segir vissulega margt um þær áherslur sem er að finna hjá ríkisstjórnarflokkunum því auðvitað eru fjárlög, bæði gjaldamegin og teknamegin, meira en tölur á blaði. Þær segja líka til um þá pólitík sem rekin er í landinu. Í hvaða vasa er farið núna í þeim sparðatíningi, sem ég vil segja, til að ná saman fjárlögunum að þessu sinni? Jú, það er farið í kostnaðargjöldin í velferðarkerfinu.

Herra forseti. Ég get ekki annað en rifjað það upp af því að mér er það minnisstætt hér á árunum 1991--1995 þegar kreppa var í landinu og flokksbræður mínir og ég þar meðtalinn vorum nauðbeygðir til þess að treysta fjárhag ríkisins við mjög erfiðar aðstæður. Þá var nú heldur betur lamið á ráðherrum jafnaðarmanna á þeim dögum. Hins vegar gættum við þess ævinlega á þeim tíma að fara með mikilli gát. Og við gættum þess ævinlega, herra forseti, að fara ekki yfir hin heilögu strik sem ég nefni svo, þ.e. að tryggja það að sjúkrahúsvist til að mynda væri sjúkratryggðu fólki á Íslandi ókeypis. Menn þyrftu sem sé ekki að skoða veskið sitt, skoða heimilisbókhaldið áður en fólk tæki um það ákvörðun, nauðbeygt, þótt þörfin lægi fyrir, hvort það ætti fyrir því að leggjast á spítala.

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að segja það en ég held að menn séu að fikra sig yfir þessa heilögu línu þó ekki sé í miklu. Því að ég tek eftir því að í fylgifrv. fjárlaga, sem er bandormur og kemur til hinnar formlegu umræðu á morgun, er farið í nýja skilgreiningu á hinum svokölluðu sjúkrahótelum. Að vísu sáralítil upphæð, 10 millj. kr. ef ég man rétt, sem ríkissjóður ætlar að taka inn á þeim vettvangi. Mér hefur verið sagt og dreg það ekki í efa að sá háttur hafi verið á hafður núna um eitthvert skeið en hins vegar sé verið að skjóta undir þetta nauðsynlegri lagastoð og ekki ætla ég að draga það í efa. En hitt er ég búinn að kynna mér að sá háttur sem samkvæmt þessu stóðst ekki að öllu leyti gildandi lög var tekinn upp í tíð núverandi ríkisstjórnar á núverandi kjörtímabili. Þannig að eðli máls samkvæmt var þetta gjörð ríkisstjórnarinnar.

En nú á að ganga skrefinu lengra og festa það í lög að fólk eigi að greiða fyrir sjúkrahúsvist. Og það á að ganga lengra til þess að fela þennan gjörning. Það á að endurskilgreina sjúkrahótelin og gera þau að einhvers konar annars flokks stofnun. Sjúkrahótel, og ég vil taka það mjög skýrt fram, eru úrræði sem ég hef ævinlega verið mjög spenntur fyrir og tel að ætti að virkja í stórauknum mæli í heilbrigðiskerfi okkar. Þau eru hagkvæmur og ódýr kostur og henta í ákveðnum tilvikum afskaplega vel. Ekki síst hefur þetta reynst góður kostur fyrir fólk sem býr úti á landi, fólk sem hefur þurft að sækja læknisþjónustu í Reykjavík, þurft að leggjast inn á spítala og þurft að vera í nálægð sjúkrahúsanna, í nálægð læknisþjónustu, og hefur því verið skipað í rúm á sjúkrahótelum einkum og sér í lagi sjúkrahótel Rauða krossins við Rauðarárstíginn.

Nú er hins vegar verið að segja að þetta úrræði eigi ekki að skilgreina lengur sem úrræði innan heilbrigðisþjónustunnar, þ.e. þetta eigi ekki að vera sjúkrastofnun ef marka má þann texta sem fylgir í röksemdum með bandorminum.

Ég gagnrýni þetta mjög harðlega. Ég trúi því ekki að hæstv. heilbrrh., eins og hann hefur talað hér á liðnum árum og jafnvel eftir að hann kom í þetta erfiða embætti sem embætti heilbrrh. er, hafi gert þetta ótilneyddur. Annaðhvort hefur hann ekki áttað sig á alvöru málsins ellegar þá að hann hefur verið ginntur til þess að stíga yfir þá línu. Því að ég undirstrika að hér er um algjöra smáaura að ræða. En það vel þekki ég íhaldið að þetta er auðvitað aðeins fyrsta hænufetið. Og þegar íhaldið er komið yfir þetta strik sem það reyndi mörgum sinnum í samstarfi með okkur jafnaðarmönnum, að gera heilbrigðiskerfið og sjúkrahúsin í landinu að markaðstorgi, en ævinlega var sagt nei, þá hætta þeir ekki með eitt hænufet. Ég vara því hæstv. heilbrrh. ákaflega mikið við að feta þetta hænufet og tel að honum hafi orðið á þarna mistök því að haldi þetta stjórnarsamstarf áfram einhvern tíma í viðbót sem ég vona nú að verði ekki og trúi að svo verði ekki, þá er þetta aðeins fyrsti þrýstingurinn og fyrsta pressan af mörgum sem í kjölfarið fylgja. Ég held því að menn hafi ekki almennilega áttað sig á hvað hér er á ferðinni sökum þess hve litlar upphæðir er um að tefla. En þetta er bara toppurinn af ísjakanum, það skal ég segja hér, herra forseti, svo vel þekki ég Sjálfstfl. þegar kemur að þessu. Hæstv. heilbrrh. væri auðvitað maður að meiri að finna þessar 10 milljónir, þessa smáaura annars staðar í þeim ramma sem honum er gert að spara heldur en að láta toga sig út í þessa mýri sem endar auðvitað bara með hreinum ósköpum.

[18:00]

Herra forseti. Mér hefur orðið tíðrætt um þetta því að ég undirstrika að fjárlög eru meira en orð á blaði. Þau skipta líka sköpum um það hvaða áherslur, hvers konar samfélag við ætlum að skapa. Það veldur mér þess vegna enn frekari áhyggjum og vonbrigðum að heilbrrh. skuli hafa látið knýja sig og pína sig út í að hækka enn frekar kostnaðargjöld á notendur heilbrigðisþjónustu.

Ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar og er enn, að þjónustugjöld í heilbrigðisþjónustu eigi rétt á sér að vissu marki, fyrst og síðast til þess að tryggja kostnaðarvitund þess sem þjónustunnar nýtur og ekki síst heldur út af hinu, til að tryggja að eftirlit með veitendum þjónustunnar, þ.e. læknum oft og tíðum, sé ekki eingöngu af opinberri hálfu, ekki eingöngu af hálfu Tryggingastofnunar, heldur líka frá notendum þjónustunnar, sjúklingunum sjálfum, þegar um hlutfallsgjald er að ræða. En þarna verður að vara sig mjög vel og þarna verða menn að gæta mjög vel að sér og því miður held ég að menn séu að fara yfir strikið að þessu sinni.

Herra forseti. Ég undirstrika og minni á að það er ekki verið að taka hér útgjöld ríkissjóðs niður um einhverja tugi milljarða. Nei, það er öðru nær. Við erum að tala um sparnað upp á 2,2 milljarða í heild, og það er undir þeim kringumstæðum sem það vekur alveg sérstaka athygli að menn þurfi við þær aðstæður að detta niður í þessar holur að sækja peninga einmitt þangað.

Herra forseti. Ég vek á því athygli að í brtt. þingmanna Samfylkingarinnar eru sparnaðartillögur til staðar upp á umtalsvert hærri upphæðir en þingmeirihlutinn hefur lagt hér fram. Við erum hins vegar með útgjöld einnig til hækkunar, til velferðarþjónustu, til heilbrigðiskerfisins og til málefna fatlaðra og fleiri þátta. Eftir sem áður er nettósparnaður umtalsvert meiri í tillögum þingmanna Samfylkingarinnar en hjá þingmeirihlutanum sjálfum. Með þessu erum við því fyrst og síðast að undirstrika að hægt er að spara, skera, án þess að koma við þessa grundvallarþjónustu sem við jafnaðarmenn lítum á sem heilaga.

Vandi málsins er sá í bráð og lengd, herra forseti, að sú aukning útgjalda sem átt hefur sér stað stig af stigi, ár frá ári, á umliðnum sex árum og hefur þýtt tvöföldun ríkisútgjalda, gerir það að verkum að kerfið hefur bólgnað út. Það ber ekki á því í einni einustu tillögu sem hér er að finna að menn reyni, hvað þá meira, að takast á við hina kerfislægu útgjaldabólgu sem átt hefur sér stað. Það eru með öðrum orðum hvergi settar skorður við því að kerfið haldi áfram að bólgna. Auðvitað er það eins í ríkiskerfinu og öllum öðrum að það er ákveðin sjálfvirkni í því sem gerir það að verkum að það stækkar og stækkar ef ekkert er að gert. Vissulega eru til þættir í þjónustu ríkisins sem má taka niður.

Herra forseti. Á þessu fyrsta prófi hefur ríkisstjórnin fallið. Um það er ekkert meira að segja. Henni hefur ekki tekist það markmið sitt að ná niður rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Henni hefur ekki tekist að hækka afganginn svo mikið að hægt sé að ganga að því nokkurn veginn sem vísu að það verði ekki rekstrarhalli á ríkissjóði að afloknu næsta ári. Þvert á móti liggur það nokkurn veginn ljóst fyrir. Ég skal leggja hér undir við hvern þann sem þorir að mæta mér í þeim efnum að það verður umtalsverður rekstrarhalli á ríkissjóði ársins 2003 gangi þær tillögur eftir sem meiri hlutinn hefur hér lagt fram.

Að byggja afkomu ríkissjóðs að jafnmiklu leyti og raun ber vitni á sölu ríkisfyrirtækja --- og þekkjum við auðvitað þá þrautagöngu sem átt hefur sér stað í þeim efnum --- gerir það að verkum að óvissan er enn þá meiri en fyrr. Menn hafa líka reynsluna af því að þessum ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur ekki tekist þegar til kastanna kemur að halda það fast utan um pyngjuna að þeir standist þau fjárlög sem þeim hafa verið sett. Fjáraukalög, nýsamþykkt raunar fyrir yfirstandandi ár, þessa árs og fyrri ára hafa auðvitað sýnt það og sannað.

Herra forseti. Það er því með þetta eins og annað. Ég veit ósköp vel að auðvelt er um að tala og erfiðara í að komast. Því miður þekki ég það eilítið frá fyrri tíð. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Á þessu fyrsta alvöruprófi ríkisstjórnarinnar til að halda hér hlutum í þokkalegasta standi, til að halda málefnum ríkisins á floti nokkuð örugglega þannig að menn geti horft með nokkurri bjartsýni til framtíðar, hefur það ekki tekist. Ríkisstjórin fær falleinkunn.