Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 18:06:33 (2735)

2001-12-07 18:06:33# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tek undir það sjónarmið hans að mér finnst samkvæmt þeim tillögum sem ríkisstjórnin leggur til verið að grípa til ýmissa ráðstafana sem maður hefði frekar talið að væri betur væri látið ógert, t.d. kostnaðargjöld í sambandi við sjúklinga og lyf og heimsóknir til sérfræðinga, kostnaðargjöld í skólum og annað slíkt.

Ég vil segja, eftir að hafa kynnt mér þær tillögur sem Samfylkingin hefur t.d. lagt fram um frv. um tekjuskatt og eignarskatt, að ég tel að þær tillögur séu mun skynsamlegri og eðlilegra hefði verið að taka á málunum eins og þeir hafa lagt til. Ég lýsi því yfir að mjög margt í þeim tillögum tel ég mig geta tekið undir.

Ég tel að fyrir þeim verkum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram núna til þess að taka saman fjárlagagerðina fyrir næsta ár, fari líkt og gerðist á þessu ári, þ.e. að menn keyri fram úr í fjáraukanum þegar á næsta ári um 10--15 milljarða kr.