Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:01:24 (2751)

2001-12-07 20:01:24# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að ræða um þrískiptingu valdsins að gefnu tilefni. Í 1. gr. stjórnarskrár Íslands, Lýðveldisins Íslands, stendur, með leyfi forseta:

,,Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.``

Ég þarf á þessu að halda seinna í ræðu minni.

Í 2. gr. er svo fjallað um þrískiptingu valdsins, í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þessi þrískipting er fundin upp til þess að vernda borgarana fyrir ofurvaldi ríkisins sem oft voru kóngar eða keisarar með alveldi sem bæði settu lögin, framkvæmdu þau og dæmdu. Og til þess að vernda borgarana fyrir ofríki valdsins, ríkisins, hafa menn fundið upp þessa þrískiptingu valds og hún er afskaplega mikilvæg og hún þarf að vera hrein. En hún er ekki hrein á Íslandi.

Herra forseti. Margir hv. þm. hafa tekið óstinnt upp þá gagnrýni sem ég hef haft uppi á verkaskiptingu á milli Alþingis og ríkisvalds, þ.e. hæstv. ríkisstjórnar og hv. Alþingis. Sérstaklega þeir hv. þm. sem sitja í hv. fjárln. Sumir hafa jafnvel tekið þessari gagnrýni persónulega, samt hef ég ætíð undirstrikað að ég er að gagnrýna vinnubrögðin sem hafa varað í áratugi en ekki þá þingmenn sem framkvæma núna með nákvæmlega sama hætti og gert hefur verið í áratugi. Gagnrýni mín snýst um eftirfarandi:

Þegar sett er í fjárlög að gera eigi við gamlan bát fyrir einhverjar milljónir, þá eru þingmenn farnir að vasast í framkvæmdum, því þeir ætla sér að láta gera við þennan bát og það er jú framkvæmd. Það verður ekkert hjá því komist, þetta er sett í lög og þessi framkvæmd skal framkvæmd, það á að gera við þennan bát.

Spurningar sem vakna upp í því sambandi eru í fyrsta lagi: Hver lagði fram erindi um að fara út í slíka framkvæmd með ríkisfé? Hver var það sem kannaði þörfina fyrir framkvæmdina? Hver var það sem fær þetta í gegn, talar við menn og kannar að framkvæmdin sé skynsamleg? Og að síðustu: Hver ber ábyrgð á framkvæmdinni?

Segjum nú að komið hafi í ljós að þessi bátur sé bara grautfúinn og ekki sé hægt að gera við hann og búið væri að henda einhverjum milljónum úr ríkissjóði út í bláinn. Hver ber ábyrgð á því? Ekki getur það verið ráðherra. Hann tók enga ákvörðun um þetta. Það er Alþingi sem ber ábyrgð á því. En hver hefur eftirlit með framkvæmdum og hver hefur eftirlit með ábyrgðum? Það er Alþingi sjálft. Það er enginn annar sem hefur eftirlit með framkvæmdum. Sem sagt Alþingi ber sjálft ábyrgð á þeim framkvæmdum sem það þarna ákvað.

Ég tel miklu skynsamlegra að setja ramma eins og er að komast á sums staðar, eins og t.d. varðandi Forvarnasjóð. Ég hef lagt fram spurningar til hæstv. heilbrrh. um Forvarnasjóð þar sem ég spyr í fyrsta lagi hve mikið af honum fari til landsbyggðarinnar og hve mikið til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er eilíft deiluefni.

Síðan spyr ég: Hvernig er kynjaskiptingu háttað í stjórnum þeirra félaga sem fá verkefni úr Forvarnasjóði? Það er til þess að gæta að því að þetta lendi ekki allt saman hjá karlmönnum eins og oft vill verða.

Og síðan spyr ég: Hver er það sem metur þörf fyrir verkefni og hvaða verklag er haft við val verkefna? Og hvernig er fylgst með framvindu verkefna og hver annast það?

Í fjórða lagi: Hvernig er háttað eftirfylgni og mati á árangri og hver annast það verk?

Flest þessi framkvæmdaratriði sem ég er hér að tala um og spyrjast fyrir um, vantar þegar Alþingi sjálft ákveður framkvæmdina. Og það er mikil hætta á því að fé sé illa varið.

Margir hv. þm. sem hafa talað við mig undanfarið og sumir reiðir mjög, hafa sagt að þeir treysti ekki ráðherrunum til þess að setja fjárveitingar út á land. Þeir treysta ekki ráðherrunum til þess að skynja þörf landsbyggðarinnar fyrir slíkar framkvæmdir, þ.e. að ráðherrarnir gleymi landsbyggðinni.

Og þá er ég nefnilega kominn að 1. gr. stjórnarskrárinnar: ,,Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.`` Það vill svo til, herra forseti, að ráðherrarnir sitja í skjóli Alþingis. Ef alþingismönnum líkar ekki framkvæmd þeirra, t.d. á Forvarnasjóði, þá er bara að setja þá af. Það er mjög einfalt. Velja annað fólk til ráðherradóms. Það er svo einfalt. Þetta er vald sem Alþingi hefur og á að hafa og ætti kannski að nota sér oftar en það gerir. Til þess að ráðherrarnir framkvæmi eins og Alþingi vill og Alþingi þurfi ekki að standa hér í endalausum framkvæmdum eins og umræðurnar í dag og undanfarnar vikur hafa borið merki. Þetta er ekkert annað en framkvæmdir, herra forseti.

Núverandi kerfi þar sem hálf þjóðin mætir fyrir fjárln. eða fagnefndir eða ráðuneyti og jafnvel allt þetta, býður upp á alls konar spillingu, ég er ekki að segja að það sé spilling, en það býður upp á hana. Það býður upp á það að ef einhver nær í gegn ákveðinni framkvæmd, þá fái hann eitthvað annað í staðinn, hvort sem það er atkvæði eða eitthvað annað. Þetta er hættan við núverandi kerfi. Ég er alls ekki að segja að það sé þannig, herra forseti.

Sumir hv. þm. líta jafnvel svo á að slík fyrirgreiðsla sé pólitík og allt annað sé ekki pólitík, t.d. að semja lög og setja ramma utan um starfsemi þjóðfélagsins sé í rauninni ekki hlutverk löggjafans. Ég spyr: Hver á þá að gera það ef ekki löggjafinn? Ég hef litið þannig á að það sé hlutverk löggjafans að setja lög og semja þau líka, en það eru nánast engin lög samþykkt á Alþingi sem alþingismenn hafa samið. Nánast ekki nein.

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður hv. fjárln., sagði að ónefndur þingmaður, hann nefndi hann ekki á nafn, hefði gert grín að fíkniefnavörnum og uppeldi hunds. Ég er þessi ónefndi þingmaður, herra forseti. Meðal margra annarra framkvæmda sem ég gat um í 2. umr., þá fór ég í gegnum bátana og ég fór í gegnum söfnin og torfkofana og allt þetta sem fjárln. er að framkvæma, og þar á meðal nefndi ég hund. Ég var alls ekki að gagnrýna uppeldi hundsins sem slíks. Og ég var alls ekki á móti fíkniefnavörnum, guð forði mér, ég er mjög hlynntur fíkniefnavörnum. Það sem ég er á móti er að löggjafarsamkunda landsins, sem sér um löggjafarvaldið, sé að standa í annarri eins framkvæmd og að sjá um uppeldi á hundi.

Ég hefði viljað fela dómsmrh. að ala upp tíu hunda, ég hef meira að segja bent hæstv. dómsmrh. á að setja fíkniefnahundinn á Litla-Hraun til þess að koma í veg fyrir það furðulega fyrirbæri að hvergi virðist vera auðveldara að komast í fíkniefni en inni á fangelsum landsins.

Ég vil því endilega að aldir séu upp sem flestir fíkniefnahundar og það helst gert á sem hagkvæmastan hátt, kannski fimm eða sex í einu. Og mín vegna má það gerast úti á landi. Ef þingmenn óttast það að þetta sé allt sé framkvæmt í Reykjavík, þá eiga þeir bara að fara fram á það og spyrjast fyrir um það og gagnrýna ráðherrann og setja hann af ef hann ekki framkvæmir það úti á landi eins og þeir vilja.

Ég var því ekki að gagnrýna uppeldi hundsins sem slíks, alls ekki. Ég tel bara að það sé verkefni framkvæmdarvaldsins en ekki löggjafarvaldsins.

Hv. þm. upplýsti jafnframt að um 90% brtt. hv. fjárln. séu í reynd tillögur ráðuneytanna, hæstv. ríkisstjórnar. Ég verð nú bara að segja eins og er að ég hafði ekki áttað mig á þessu og þetta voru ný sannindi fyrir mér og er dálítið undarlegt. Og það er rétt hjá hv. þm. að það er undarlegt að það skuli renna upp fyrir manni ljós svona seint á ferlinum hér á þingi, en það vill svo til að ég hef ekki setið í fjárln. og manni er ekki sagt neitt voðalega mikið af því sem þar gerist. Það er ekkert verið að spyrja mig um hvaða framkvæmdir ég vilji fara út í, enda vil ég helst ekki fara út í neinar framkvæmdir. Ég tel að það sé bara á valdi ríkisstjórnarinnar að framkvæma og síðan vil ég geta spurt hana hvernig gengur með þær framkvæmdir sem hún ætlar sér að fara út í.

Það má líka leggja fram línur. Það mætti t.d. í sambandi við öll söfnin geta þess að hæstv. ríkisstjórn ætti að framkvæma á þennan eða þennan háttinn, leggja áherslu á viðgerðir skipa eða bókasöfn eða eitthvað slíkt, en að fara að setja einstaka framkvæmdir í fjárlög, í lög lýðveldisins, er fráleitt.

Það er þetta sem ég er að benda á. Ég er að benda á hvernig Alþingi grípur inn í verkefni framkvæmdarvaldsins með mjög stórtækum hætti og nánast allt haustið fer í þetta. Og það minnkar alla ábyrgð á þessum framkvæmdum. Það er þetta sem ég er að gagnrýna, herra forseti. Ég er alls ekki að gagnrýna einstaka þingmenn. Ég er alls ekki að gagnrýna hv. fjárln. því hún er að gera nákvæmlega eins og hún hefur gert í áratugi en það þarf ekki að vera rétt fyrir því.

Svo hef ég bent á hinn endann sem er löggjafarvaldið, hver það er sem semur lög, og það er alveg á hreinu í mínum huga að sá sem setur texta fyrst niður á blað ræður mestu um það hvernig endanlegur texti lítur út. Sá sem setur niður texta á blað setur hann niður án þess að þurfa að svara fyrir kóng eða prest. Allir hinir sem koma að því seinna og ætla að breyta þeim texta, hvort sem það er ráðuneyti --- því oft eru það sömu stofnanir sem setja niður textann og eru að framkvæma lögin --- eða nefndir þingsins, þurfa að rökstyðja breytingar sem sá sem samdi textann þarf ekki. Þess vegna er vald þess sem semur lögin í upphafi geysilega mikið. Og miklu meira en þeirra sem koma síðar að og í rauninni bara endurskoða textann. En allt starf hv. þm. felst í því að endurskoða texta. Stundum eru gerðar miklar breytingar af því að það sýnir sig að textinn er ekki nógu góður, en það þarf að gerast með rökum. Það þarf að sýna fram á að það gangi ekki eins og textinn var.

Vald þeirra sem semja lögin er því feikna mikið. Og það eru oft og tíðum þeir aðilar, herra forseti, sem framkvæma lögin gagnvart borgurunum. Þeir sem eru að framkvæma lögin gagnvart borgurunum, í sífellt flóknara kerfi, semja lögin vegna þess að enginn annar hefur vit á því. Þetta leiðir til þess að borgarinn verður alltaf minna og minna varinn fyrir öllum sérfræðingunum sem eru að framkvæma alls konar lagaákvæði, ég nefni samkeppnislög, nánast hvað sem er, vegna þess að þeir sem hafa vit á þessum ákvæðum eru þeir sem framkvæma þau og þeir semja lögin og ráða þar af leiðandi alltaf meiru og meiru. Þetta finnst mér, herra forseti, fela í sér ákveðna hættu.

Ég tel að í þessu, þ.e. hve verkaskipting milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er ógreinileg, felist ákveðin hætta og það er þess vegna sem ég er að benda á þetta. Ég er alls ekki að gagnrýna einstaka hv. þingmenn.