Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 21:22:32 (2765)

2001-12-07 21:22:32# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[21:22]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi fullum stuðningi við samstarfsyfirlýsingu hæstv. ráðherra og frjálsu félagasamtakanna. Það nægir mér alveg sem hún sagði áðan, að byggt yrði á henni varðandi stuðning til þessara frjálsu félagasamtaka.

Varðandi Landvernd þá var ég einungis að fiska eftir því hvort það væri verið að hugsa um að flytja Landvernd til umhvrn. frá landbrn. Í raun bjó ekkert annað að baki vangaveltum mínum varðandi Landvernd. Ég tek bara fram að Landvernd vinnur mjög merk verk. Þar er vel haldið á málum í störfum varðandi rammaáætlunina og eins hafa samtökin haldið úti öflugri heimasíðu. Það er sannarlega ekki neitt við það að athuga.

Mig langar einungis að ítreka hér eða koma inn á það sem ég sagði í ræðu minni, að umhvn. Alþingis hefur lýst vilja til að koma að þessu máli með hæstv. ráðherra og félagasamtökunum. Ég lít svo á að umhvn. öll sé stuðningsaðili þess að frjáls félagasamtök komi í auknum mæli inn í þessa stefnumörkun. Ég minni á að Árósasamningurinn er skammt undan og við hljótum að horfa fram á bjartari tíma og meiri kraft í samskiptum þeirra sem starfa í grasrótinni og hinna sem starfa í stjórnsýslunni.

Að lokum vil ég svo taka það fram að ég tek orð hæstv. ráðherra varðandi 30 millj. kr. í frostinu sem viljayfirlýsingu þess efnis að fari umsóknir sveitarfélaganna fram úr þessum 80 millj. kr. þá komi hæstv. ráðherra til með að standa með sveitarfélögunum og losa 30 millj. kr. úr álögum fjmrh.