Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 21:24:23 (2766)

2001-12-07 21:24:23# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[21:24]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alla vega alveg ljóst að fari upphæðin fram úr 80 millj. kr. sem eiga að renna til sveitarfélaganna vegna skipulagsmála þá munum við fara í viðræður við fjmrn. um það. Hins vegar er ekki hægt að segja um það hér og nú hvað út úr því kemur.

Varðandi Landvernd skilst mér að það sé hefð fyrir því --- ég veit nú ekki hve löng sú hefð er --- að Landvernd fái fjármagn af landbúnaðarhluta fjárlaganna og ég hef ekki heyrt neinar vangaveltur um að til standi að færa það yfir til okkar. Ég hef ekki heyrt það. Í samstarfsyfirlýsingunni sem við höfum gert við þessi samtök --- það er opið fyrir fleiri samtök, það er ekki búið að ljúka því --- kemur fram að það eigi að setja gagnsæjar reglur varðandi úthlutun á þessu fé. Ég tel að það sé hinn eðlilegi farvegur, að umhverfisverndarsamtökin hafi eitthvað um það að segja svo að ekki komi upp misskilningur varðandi meðferð þessara fjármuna. Það er bæði gott fyrir frjálsu félagasamtökin og ráðuneytið að hafa þetta í einhverjum skorðum.

Ég velti þessu svolítið fyrir mér þar sem umhvn. gæti alveg hugsað sem svo: Af hverju fáum við ekki bara að deila þessu út og koma með einhverjar beinharðar tillögur í því? Ég tel að það sé mun eðlilegra að hafa málin í þeim farvegi sem þau eru núna, að ákveðin upphæð fari óskipt til ráðuneytisins og að við deilum því svo út eftir ákveðnum reglum sem við höfum komið okkur saman um gagnvart þessum frjálsu félagasamtökum, þannig að það sé í föstum skorðum en hangi ekki við vilja umhvn. á hverjum tíma. Ég tel það meira framkvæmdarmál hvernig þessu fé er deilt út og tel því að við séum með þetta í réttum farvegi í dag.