Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:01:51 (2778)

2001-12-08 11:01:51# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:01]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skora á hæstv. forsrh. í samanburð með mér á álögum á bifreiðaeigendur á árinu 1991 og eins og þær eru í dag. Ég fullyrði, án þess að hafa farið í þann samanburð nákvæmlega, að álögur á bifreiðaeigendur eru núna margfalt meiri en þær voru á árinu 1991. Þar erum við bæði að tala um bensín og tryggingagjöld sem þessi ríkisstjórn lætur alveg óáreitt. Tryggingafélögin fá að valsa um eins og ríki í ríkinu og setja álögur á bifreiðaeigendur upp á 70--80% á 2--3 árum. Bensínhækkanir hafa aldrei verið meiri og ég þori alveg í samanburð með hæstv. ráðherra um bifreiðagjöldin.

Varðandi það að við séum með óraunhæfar tillögur hjá Samfylkingunni vísa ég því á bug, blæs á það sem forsrh. segir og ég spyr hann: Af hverju eigum við --- þegar við erum að setja álögur á sjúklinga --- að hækka útgjöld á aðalskrifstofum ráðuneyta? Þá er ég að tala um raunhækkun upp á 170 millj. Skilaðu því, virðulegi forsrh., til að við getum þá minnkað álögur á sjúklingana. Og að ekki sé hægt að minnka sérfræðiaðstoð hjá ráðuneytum og stofnunum er alveg út í hött. Kostnaðurinn hefur blásið út um 2--3 milljarða á mjög stuttum tíma og auðvitað er hægt að skera fitulagið af því um svona 500 millj. kr. Það er líka hægt að skera niður útgjöld vegna ferðalaga og risnu sem hafa aukist um 500 millj. á tveimur árum. Það er meira að segja staðfest af Ríkisendurskoðun sjálfri þannig að það sem hæstv. ráðherra er að segja er auðvitað allt út í hött. Svo þurfum við að fara inn í þann samanburð sem ráðherrann er líka að tala um, að það séu lítil sem engin verðlagsáhrif af þessum leiðum sem hér er verið að fara. Auðvitað verða til þess bærir menn kallaðir til, m.a. frá Þjóðhagsstofnun sem hæstv. ráðherra vill leggja niður.