Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:44:39 (2793)

2001-12-08 11:44:39# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held því fram að það séu ekki orðin lög í landinu þó að einn kennari við Háskóla Íslands hafi lýst þeim sjónarmiðum úr ræðustóli á Alþingi að þetta væri skynsamlegt auk þess sem ég áskil mér allan rétt til að skoða í hvaða samhengi það var sett fram.

Gjaldtaka af þessu tagi hefur þá hættu í för með sér --- það hefur sagan sýnt á þessu sviði og mörgum öðrum --- að menn freistist til þess að nota hana þegar hún er einu sinni komin til sögunnar, ýta henni heldur upp á við og ná sér þar með í aðeins meiri peninga. Allir hljóta að skilja t.d. stöðu opinberu háskólanna sem búa við mjög þröngan kost og gjalda meðal annars dekurs hæstv. menntmrh. við einkaskólana að freistast til þess að reyna að gera frekar mikið úr þeim kostnaði sem þarna fellur til, heimfæra undir þetta meira heldur en minna og fara svo fram á heimildir til að hækka gjaldið til að laga stöðu sína. Þetta er svona í þessu tilviki og þetta er svona alls staðar. Þegar menn byrja með komugjöld á heilsugæslustöðvar eða þátttöku manna í tannlæknakostnaði byrja menn lágt og segja: Það munar engan um 500-kall eða þúsund. En hvar endar það svo? Sagan sýnir okkur hvar þetta getur endað og sérstaklega ef á bak við eru menn sem vilja láta þetta hækka af því að þeir vilja einkavæða skólakerfið.