Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 12:36:57 (2800)

2001-12-08 12:36:57# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[12:36]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá höfum við fengið það staðfest. Þetta þýðir það að einkareknir háskólar fá hærra framlag á nemanda úr ríkissjóði en ríkisreknu háskólarnir. Ég verð að segja að þessu vil ég sérstaklega mótmæla. Ég hef hingað til ekki lagst gegn einkareknum háskólum. Ég tel að þeir eigi í mörgu tilliti rétt á sér. En ég er algjörlega mótfallin því að einkarekinn háskóli fái hærra framlag á nemanda úr ríkissjóði en ríkisrekinn háskóli. Það er nokkuð sem við getum ekki liðið.

Síðan vil ég benda á að í skýringum við fjárlagafrv. stendur að nemendum beri að greiða innritunargjald --- þarna er verið að tala um framhaldsskóla --- við upphaf námsannar eða skólaárs. Við þetta hefur verið stuðst. Nemendur hafa verið látnir borga tvisvar, bæði á haustönn og á önninni sem byrjar í janúar. Ef það er ekki meining ráðuneytisins þá verða þeir að beita sér fyrir ákveðnum aðgerðum til að þessu fari ekki fram eins og verið hefur.