Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 13:07:17 (2808)

2001-12-08 13:07:17# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[13:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Við skulum ekki, herra forseti, tala mikið um sendiráðið og útúrsnúninga varðandi það. En ef ég væri framsóknarmaður, þá mundi ég ekki tala mikið um öryrkja. Ég mundi ekki gera það. Ég mundi ekki tala mikið um það vegna þess að Framsfl. og Sjálfstfl. hafa einmitt haft af þeim hópi bætur sem þeim höfðu verið dæmdar af Hæstarétti Íslands. Ég mundi ekki ræða það mjög mikið.

Gerir hv. þm. sér grein fyrir því að eftir að Framsfl. komst til valda voru öryrkjar, sem eru á lægstu bótunum, í fyrsta skipti skattlagðir og meira en lítið, um 70 þús. kr. á ári? En í skattapakka ríkisstjórnarinnar er ekki komið á nokkurn hátt til móts við þennan hóp en í stað þess eru ívilnanir til tekjuhæsta fólksins í landinu, að jafnaði 40 þús. kr. meðgjöf á ári til þeirra sem mestar hafa tekjurnar. Það eru þær áherslur sem við erum að gagnrýna. Við erum að gagnrýna það að nú sé verið að seilast ofan í vasa námsmanna, í vasa sjúklinga og í vasa þeirra sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Framsfl. ætti að skammast sín fyrir þetta.