Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 13:13:38 (2814)

2001-12-08 13:13:38# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[13:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú háttar þannig til að það mun hafa verið samið um að stefna að því að ljúka þessari umræðu eigi síðar en um eittleytið. Ég hygg að formenn þingflokka og forsetar hafi gengið frá því samkomulagi.

Ég vek athygli á því að svo virðist sem hæstv. ráðherrar og aðrir hv. þm. séu algerlega fallnir frá þeim venjum sem hér hafa lengi gilt, að menn taka tillit til þess ef verið er að semja um lok umræðna ef þeir eru síðustu ræðumenn í umræðu og vekja þá ekki tilefni til andsvara eða deilna umfram það sem hjá verður komist.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem augljóslega var síðasti ræðumaður umræðunnar, innan þess tímaramma sem samið hafði verið um fyrir þennan fundi, notaði nánast allan ræðutíma sinn --- ekki til að ræða stjfrv. sem er á dagskrá því það er hv. þm. feimnismál --- heldur til að ráðast á stjórnarandstöðuflokkana og ræða efni annarra tillagna en þeirrar sem hér er á dagskrá.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti. Mér finnst þetta ekki stórmannlegt. Mér finnst þetta lélegir mannasiðir í samskiptum í þinginu og ég hef af því nokkrar áhyggjur að þetta, ásamt ýmsu fleiru, sé eitt af því sem ekki verði til að auka virðingu þessarar stofnunar og ekki til að gera þingstörfin skemmtilegri og uppbyggilegri. Þetta er heldur leiðinlegur plagsiður sem þarna er að verða.

Hitt tek ég fram að ég er að sjálfsögðu tilbúinn til rökræðna við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson hvar og hvenær sem aðstæður eru til þess heppilegar og kvíði því í engu að ræða við hann annars vegar um framlag Framsfl., sem hýsir hv. þm. um þessar mundir, og hins vegar annarra flokka til íslenskra stjórnmála.