Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 14:33:18 (2822)

2001-12-08 14:33:18# 127. lþ. 47.2 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Samfylkingin styður að sjálfsögðu afnám skatta á húsaleigubætur. Það var mikil réttarbót fyrir fólk á leigumarkaði þegar lög um húsaleigubætur voru sett að frumkvæði jafnaðarmanna. Okkur fannst eðlilegt að húsaleigubætur væru ekki skattlagðar fremur en vaxtabætur en um það náðist ekki samstaða á sínum tíma. Hins vegar voru bæturnar hækkaðar krónulega sem nam skattlagningunni þá sem gaf ákveðna viðurkenningu á stöðunni.

Nú í árslok 2001, sjö árum síðar, hefur barátta jafnaðarmanna undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur skilað árangri. Afnám skatta á húsaleigubætur skiptir miklu máli fyrir kjör fólks á leigumarkaði og þessi langþráða lagabreyting, herra forseti, er áþreifanleg sönnun þess að dropinn holar steininn líka hér á Alþingi.