Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 14:47:48 (2830)

2001-12-08 14:47:48# 127. lþ. 47.2 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, KLM (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hér eru greidd atkvæði um tillögu jafnaðarmanna í efh.- og viðskn. um hækkun fjármagnstekjuskatts úr 10% í 16% og um leið með nýju ákvæði um 100 þús. kr. frítekjumark á einstaklingi og 200 þús. kr. frítekjumark hjá hjónum. Fjármagnstekjustofn er talinn vera 24,5 milljarðar kr. 10% framteljenda eiga 16 milljarða af stofninum.

Með þessari breytingu mun þeim sem greiða fjármagnstekjuskatt fækka um rúmlega 55 þús. manns. Verði þessi tillaga samþykkt munu t.d. smábörn hætta að greiða fjármagnstekjuskatt af tannfé sínu, börn hætta að greiða fjármagnstekjuskatt af útburðarpeningum og ellilífeyrisþegar hætta að greiða fjármagnstekjuskatt af lágmarkssparnaði.

Herra forseti. Hér er á ferðinni að mínu mati ein merkilegasta brtt. í þessum skattapakka sem við erum að greiða atkvæði um. Þessar tillögur mundu leiða til þess að fjármagnstekjuskattur mundi fyrst og fremst aukast hjá þeim sem hafa miklar fjármagnstekjur og lækka eða hverfa hjá þeim sem lítið eiga. Herra forseti. Ég segi já við þessari tillögu.