Fjárlög 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 15:41:54 (2855)

2001-12-08 15:41:54# 127. lþ. 47.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, JB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 2002 er að koma til lokaafgreiðslu í þinginu. Ég vil vekja athygli á því sérstaklega hversu tekjugrunnur fyrir þessu frv. er veikur og sömuleiðis þær efnahagsforsendur sem frv. í heild sinni byggir á. Þessar efnahagsforsendur hafa verið að breytast dag frá degi og meira að segja þegar fjárln. fékk efnahagsforsendur samtímis frá fjmrn. og frá Þjóðhagsstofnun, þá greindi þær á í veigamiklum atriðum. Þetta sýnir best hvað þetta er óvisst. Eitt er þó svo sem gott og slæmt í senn, að óvissan er að stórum hluta heimatilbúin. Hún er komin til vegna rangra áherslna í efnahagsmálum af hálfu ríkisstjórnarinnar og því er hægt að breyta.

Ég vek enn fremur athygli á því að bæði efnahagsforsendur og tekjuhlið frv. komu ekki inn í fjárln. fyrr en eiginlega sama daginn og var talið nauðsynlegt að afgreiða þær aftur út úr nefndinni. Sama sagan var með margboðaðar niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar. Þær komu heldur ekki til fjárln. fyrr en um það leyti sem átti að fara að afgreiða þær út. Þetta eru ekki vinnubrögð sem ég tel að eigi að viðhafa á Alþingi, enda lagði ég til að gefnir yrðu nokkrir dagar enn til þess að fara betur yfir bæði forsendur fjárlagafrv. og einstaka liði þess. En, herra forseti, það kemur hér til lokaafgreiðslu. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram örfáar brtt., annars vegar ákveðnar tekjutillögur þar sem gert er ráð fyrir því að lækkun á hátekjuskatti sé frestað og sömuleiðis hluta af eignarskattslækkuninni. Við leggjum til örfáar brtt. sem miða að því að styrkja stöðu þeirra sem veikast eru settir í þjóðfélaginu og enn fremur til þess að styrkja stöðu námsmanna, en ríkisstjórnin hefur séð sér sérstakan leik á borði að innheimta aukin gjöld af námsmönnum til þess að styrkja fjárhag ríkissjóðs.

Herra forseti. Ég vona þó að við stöndum frammi fyrir betra ári og öruggari efnahagsforsendum heldur en forsendur eru hér fyrir og þrátt fyrir að við höfum þessa ríkisstjórn.