Fjárlög 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 15:59:13 (2865)

2001-12-08 15:59:13# 127. lþ. 47.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði er það mikið í mun að vel sé staðið að málum er snúa að varðveislu menningararfs þjóðarinnar. Þess vegna hafa hv. þingmenn flokksins gagnrýnt það hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að standa að málum varðandi þá aðgerð að sundurgreina fornleifar og fornleifavernd hjá Þjóðminjasafni Íslands.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð minnir á það álit menntmn. frá liðnu vori þess efnis að við aðskilnaðinn verði þess gætt að veikja ekki Þjóðminjasafn Íslands. Nú stöndum við hv. þm. frammi fyrir því að hin nýja ríkisstofnun er sett á laggirnar á þann hátt að fjármunir til hennar eru skrapaðir innan úr Þjóðminjasafninu án þess að nýir fjármunir komi til. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefðu viljað standa með meiri metnaði að málum þó að við styðjum að Fornleifavernd ríkisins sé sett á laggirnar. Við sitjum því hjá við tillöguna.