Fjárlög 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 16:52:19 (2894)

2001-12-08 16:52:19# 127. lþ. 47.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér er skapi næst að falla frá orðinu í mótmælaskyni við það ótrúlega virðingarleysi að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta ekki tollað hér í salnum í eins og eina til tvær mínútur á meðan lokaafgreiðsla um þeirra eigin fjárlagafrv. fer fram. Ég lýsi mikilli hneykslun minni á því að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson er genginn á dyr, hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson er genginn á dyr, hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde er genginn á dyr (Gripið fram í.) eða a.m.k. ekki í sæti sínu og fleiri hæstv. ráðherrar eru farnir út. Það er vel við hæfi, herra forseti, að ríkisstjórnin lýsi með þessum hætti virðingu sinni fyrir eigin fjárlagafrv. Liturinn á kápunni var vel valinn þetta árið. Hinn kuldablái, ísblái litur á vel við. Burtu allur sólskinslitur núna. Og það skyldi ekki fara svo, herra forseti, að þetta fjárlagafrv. eigi í samræmi við óvönduð vinnubrögð, lítilsvirðingu og hroka gagnvart Alþingi eftir að reynast sandkastali?