Lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:35:29 (2897)

2001-12-11 13:35:29# 127. lþ. 48.95 fundur 221#B lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar er 3. umr. um frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og menn vita er inni í því frv. ákvæði um að hækka tryggingagjald sem á að gefa ríkissjóði um 2,5 milljarða kr. Það hefur reyndar einnig veruleg verðlagsáhrif eða 0,3--0,4%.

Eins og allir þekkja sitja aðilar vinnumarkaðarins yfir því þessa dagana og klukkustundirnar að ná niðurstöðu í samningamál vegna þess uppnáms sem samningarnir eru komnir í vegna vaxandi verðbólgu.

Herra forseti. Ég tel óeðlilegt að ganga til þessarar umræðu, 3. umr. og lokaumræðu um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem í er tryggingagjaldið, þegar aðilar vinnumarkaðarins eru á sama tíma með tryggingagjaldið uppi á borðinu að reyna að ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu. Ef ég skil málið rétt hafa þeir reynt að fá það mál út af borðinu. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að ríkisstjórnin hafi lýst því yfir að hún sé reiðubúin að draga úr áformaðri hækkun tryggingagjalds um þriðjung. Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að þessari umræðu verði frestað þar til við fáum einhverja niðurstöðu í það mál. Ég sé t.d. í DV í dag að beðið er eftir því að ný framfærsluvísitala taki gildi, sem hugsanlega yrði á morgun. Ég tel því eðlilegt að fresta þessari umræðu og líka að fá upplýsingar, herra forseti, hvort von sé á fleiri frv. í tengslum við þessar viðræður aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega þar sem komið hefur fram að lækka eigi grænmetisverð, sem kallar á lagabreytingu.

Að öllu þessu athuguðu, herra forseti, tel ég rétt að koma þeirri ósk á framfæri við hæstv. forseta að 3. umr. um tekjuskatt og eignarskatt verði frestað, a.m.k. til morguns.