Lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:39:09 (2899)

2001-12-11 13:39:09# 127. lþ. 48.95 fundur 221#B lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. málshefjanda að þessari umræðu um störf þingsins að auðvitað er boðið upp á afar sérkennilegar aðstæður nú við lokaafgreiðslu fjárlagafrv. og skattamála fyrir áramót. Ríkisstjórnin hefur loksins komið sér til að fara að ræða við aðila vinnumarkaðarins um það sem fram undan er, m.a. varðandi forsendur kjarasamninga. Þar eru uppi á borðum nákvæmlega þessa dagana, þessa klukkutímana, breytingar á þeim skattaákvæðum sem við erum með í höndunum og eigum að fara að ræða á eftir. Þar á meðal annars að lögfesta, ef að líkum lætur, hækkun á tryggingagjaldi sem síðan er til umræðu í þessum samtölum aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar að lækka aftur.

Það er eins og það sé að verða lenska, herra forseti, að hafa þetta þannig hér að hækka hlutina fyrst til þess að hægt sé að lækka þá aftur. Þannig fór hæstv. ríkisstjórn að með fjárlagafrv. Hún hækkaði útgjöldin um 2,2 milljarða milli 1. og 2. umr. til þess að lækka þau svo aftur um 2 milljarða milli 2. og 3. umr. Þetta er kannski verklag sem ríkisstjórnin hefur sérstaklega valið sér, að hækka hlutina fyrst og lækka þá svo aftur.

Ég tel þetta ekki mjög áferðarfalleg vinnubrögð, herra forseti. Langeðlilegast væri auðvitað að fresta þessum skattapakka, sem hvort sem er hefur sætt mjög harðri gagnrýni, að slá þetta af og láta óbreytt skattalög gilda næsta árið að öðru leyti en því sem allir eru sammála um, að lækka tekjuskattshlutfallið móti lækkun útsvars og afnema skattlagningu húsaleigubóta. Að öðru leyti þyrftu menn ekki að hringla með þessa hluti enda eiga margir þeirra hvort eð er ekki að hafa eiginleg áhrif fyrr en á árinu 2003. Það er auðvitað bara eins og yfirlýsing um hringl að rjúka til og hækka gjöldin núna til þess að lækka þau síðan aftur.

Alla vega, herra forseti, væri til bóta að staða mála skýrðist eitthvað frá því sem nú er. Ég tek því undir óskir um að eðlilegast væri að fresta þessari umræðu um skattamálin í dag.