Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:48:23 (2903)

2001-12-11 13:48:23# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og fleiri lögum, þar á meðal lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, og lögum nr. 145/1994, um bókhald.

Nefndin tók málið fyrir milli umræðna og var einkum rætt um vaxtabætur og breytingar þeirra samkvæmt þessum lögum. Enn fremur var rætt um þær brtt. sem hér eru lagðar fram.

Þær eru í tveimur liðum. Í fyrri liðnum er tæknilegt atriði sem varðar skyldur skattgreiðanda þegar hann telur að sér sé reiknað of hátt endurgjald vegna starfa sinna sem sjálfstæður atvinnurekandi.

Í öðru lagi er brtt. sem skiptir töluverðu máli. Hún felst í því að fyrirtækjum verður samkvæmt ársreikningalögum heimilað að nýta eða nota verðbólgureikningsskil áfram í tvö ár. Þetta þýðir að fyrirtæki fá ákveðinn aðlögunarfrest að því samkvæmt ársreikningalögum að skipta yfir í óleiðrétt eða óverðbólguleiðrétt reikningsskil. Þetta hefur ekkert með skattskil eða breytingar á sköttum að gera. Breytingar sem snúa að sköttum taka gildi eins og áformað er samkvæmt frv. Þetta hefur einungis þá þýðingu að uppgjör samkvæmt ársreikningalögum og lögum um bókhald verður þannig að fyrirtæki geta, ef þau kjósa, notað verðbólguleiðrétt reikningsskil í tvö ár.

Að svo miklu leyti sem umræðan í nefndinni milli 2. og 3. umr. snerist um vaxtabætur þá er rétt að taka fram að þegar breyting á fasteignamati varð í fyrrasumar var því lýst yfir að skattar mundu ekki hækka vegna þessara breytinga. Í frv. er fríeignamark hækkað um 20%, fasteignamatið hækkað að meðaltali um 14%. Þessi breyting á fríeignamörkum eignarskattsins lækkar tekjur ríkissjóðs um rúman milljarð. En ef farið hefði verið í 14% töluna hefði breytingin verið á milli 600 og 700 milljónir. Lækkunin á eignarskattinum að þessu leyti er því rúmlega 300 millj. kr. umfram það sem hefði þurft til þess að fara nákvæmlega í þessa tölu sem er meðalhækkunin á fasteignamati þannig að segja má að þessi umframlækkun á eignarskatti komi að nokkru leyti til móts við þá lækkun sem verður á vaxtabótum við það að fasteignamatið hækkar. Sú tala er á bilinu 150--200 milljónir.

Að sjálfsögðu er það þannig þegar svona breytingar verða á fasteignamati að þá hækka sumir og aðrir lækka og aldrei er hægt að sjá fyrir þannig að hvergi muni fólki verða íþyngt með svona breytingum. En ég hygg að þegar upp er staðið sé þessi breyting sem er gerð á fríeignarmörkunum og lækkun á eignarskatti sem því tengist, það rífleg að með góðum rökum megi halda því fram að hún vegi upp á móti því að vaxtabæturnar eru ekki lækkaðar með því að hækka viðmiðunarmörk eignanna sem samsvarar fasteignamatshækkuninni.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem ég vil segja um málið við upphaf 3. umr.