Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:54:13 (2904)

2001-12-11 13:54:13# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í 2. umr. um þetta mál óskaði ég eftir því að hv. efh.- og viðskn. færi yfir þá útreikninga sem liggja til grundvallar tillögu minni um að lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í 11% í ljósi þeirrar sérstöku stöðu sem við erum í núna, að selja ríkisfyrirtæki fyrir 68 milljarða og þau áhrif sem sú lækkun á tekjuskatti hefði á gengi hlutabréfa. Ég óskaði eftir því að efh.- og viðskn. kannaði hjá sérfræðingum í gengismálum og verðmati á fyrirtækjum hvaða áhrif það hefði á gengi hlutabréfa og verðmat, og þar á meðal á þessi ríkisfyrirtæki, að lækka tekjuskattinn niður í 11%.

Ég vænti þess að hv. efh.- og viðskn. hafi farið að þessum óskum mínum og fengið sérfræðinga til þess að upplýsa sig um þetta mál, þ.e. hvað þessi breyting ein og sér hefði að segja. Ég óska eftir því að hv. framsögumaður skýri mér frá niðurstöðum þeirrar skoðunar.