Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 14:00:43 (2911)

2001-12-11 14:00:43# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[14:00]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Mér finnst það ekki til marks um vönduð vinnubrögð að hér sé hafin umræða um þetta mál þrátt fyrir þau sterku rök sem sett voru fram áðan fyrir því að fresta þessari umræðu a.m.k. til morguns.

Vegna þess að hæstv. forseti varð ekki við þeim tilmælum sem fram komu hér áðan verður þessi umræða öll í skötulíki þar sem mikilvægt ákvæði frumvarpsins, þ.e. tryggingagjaldið, er í nokkru uppnámi. Við vitum ekki að hve miklu leyti það verður fellt út af borðinu eða hvaða leiðir hæstv. ríkisstjórn fer þá til þess að afla tekna á móti því sem hún missir þegar tryggingagjaldið er út úr myndinni.

Herra forseti. Það er ekki að ég fagna því ekki ef draga á úr eða fella niður hækkun á tryggingagjaldi sem við í 1. minni hlutanum í nál. okkar og í umræðum hér við 2. umr. málsins höfum marglýst yfir að sé óskynsamleg hækkun við þessar aðstæður.

Herra forseti. Formaður efh.- og viðskn. fór nokkrum orðum um þær brtt. sem meiri hlutinn stendur fyrir við 3. umr. Ég hef ósköp lítið um þær brtt. að segja. Önnur þeirra gengur út á að setja inn ákvæði sem snertir reiknaða endurgjaldið og hefur afskaplega lítið að segja um það sem við höfum haft mestar áhyggjur af. Áhyggjur okkar lúta að því að miðað við þann hvata sem nú er í yfirfærslu úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög muni það hafa veruleg og víðtæk áhrif, ekki bara á tekjur sveitarfélaga og ríkissjóðs heldur leiða til verulegrar skattasniðgöngu eins og við höfum fjallað um í nál. og 2. umr. um þetta mál.

Í annarri brtt. meiri hlutans er komið inn á verðbólgureikningsskilin. Þar er lagt til að félögum, bæði hlutafélögum og öðrum félögum með takmarkaða ábyrgð félagsaðila, verði veittur aðlögunartími í tvö ár til að breyta reikningsskilum sínum í það horf sem gert er ráð fyrir í frv. Satt að segja kom þessi brtt. mér nokkuð á óvart. Ég get ekki séð annað en að hún sé viðurkenning á því að mikil óvissa er í kringum verðbólguna. Margir eru eflaust fullir efasemda um að fara út í þessar breytingar miðað við aðstæður. Þetta er viðurkenning á því að verðbólgan er á nokkurri ferð. Við munum sitja hjá við báðar þessar brtt. sem formaður efh.- og viðskn. hefur lýst.

Herra forseti. Ég vorkenndi nokkuð hv. formanni efh.- og viðskn. þegar hann reyndi að klóra sig út úr loforðinu frá því í sumar, sem hann og ríkisstjórnin gáfu, varðandi það að hækkun á fasteignamati ætti ekki að skerða vaxtabætur. Ég skil vel að hv. þm. líði illa yfir að þurfa að koma í ræðustól og segja þjóðinni að hann geti ekki staðið við það sem efh.- og viðskn. var sammála um í sumar, þ.e. að hækkun á fasteignamati ætti ekki að hafa áhrif á skattstofna, þ.e. að hækka skatta eða skerða bætur. En frammi fyrir því stöndum við núna við 3. umr. málsins eftir að efh.- og viðskn. hefur tekið þetta mál til umfjöllunar. Meiri hlutinn verður að beygja sig hér undir vilja ríkisstjórnarinnar sem ekki ætlar að veita meira fjármagn í vaxtabætur til að hægt sé að koma í veg fyrir að fasteignamatið skerði þær. Þar erum við að tala þar um töluverðar fjárhæðir sem skipta verulegu máli fyrir þau heimili í landinu sem fyrir þessu verða, þ.e. um 170 millj. kr.

Ég tók eftir að hv. þm. flúði í það skjól að verið væri að hækka fríeignamörkin í eignarskatti um 20%, það væri ívið meira en meðaltalið á hækkun fasteignamats og því mætti segja að komið væri til móts við skerðingu á vaxtabótum eftir þeirri einu leið að hækka fríeignamarkið í eignarskatti. En, herra forseti, málið er bara ekki svo einfalt sem hv. þm. vill vera láta.

Fyrir liggja upplýsingar, m.a. frá Fasteignamati ríkisins, um að hækkunin sé í mörgum tilvikum miklu meiri en meðaltalið, 14%, miklu meiri en þau 20% sem á að hækka fríeignamarkið í eignarskatti. Ég vísa í upplýsingar frá Fasteignamati ríkisins sem staðfesta að skjólið sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson flúði í skýlir honum lítið. Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins lækkar brunabótamat meira en nemur afskriftum á rúmlega 35 þús. af 102 þús. eignum í landinu, þ.e. um 34,5% eigna, um meira en afskriftahlutfall. Að meðaltali eru það um 20% eða tæplega 2,7 millj.

Athyglisvert er að brunabótamatið lækkar meira en nemur afskriftum hjá rúmlega helmingi fasteignaeigenda í Reykjavík en að meðaltali um 20% eða 2,7 milljónir á hverja íbúð. 31.800 eignir, 31,2% eignanna, hækka í brunabótamati að meðaltali um 24%, þ.e. 1.473 þús. kr. 34.866 eignir, 34,3% eignanna lækka í brunabótamati. Við erum þarna að tala um, herra forseti, þriðjung eignanna sem hækkar í brunabótamati að meðaltali um 24%. Það er meira en þessi 20% sem fríeignamarkið í eignarskatti hækkar um.

Herra forseti. Ég tel að ekki sé komið til móts við þau loforð sem ég held að þjóðin hafi talið að gefin hefðu verið hér í sumar, þ.e. að þetta ætti ekki að skerða vaxtabætur eða aðrar bætur eða að hækka vexti. Rétt er að halda því til haga þegar niðurstaða er fengin í þetta mál að erfðafjárskattur mun hækka um 50 millj. kr. við þessa hækkun á fasteignamati og stimpilgjald um 80 millj., vaxtabætur um 170 millj. kr.

Herra forseti. Mér finnst ömurlegt að efh.- og viðskn. skuli standa frammi fyrir því, af því hún var einhuga í þessu máli í sumar, að klofna og geti ekki haldið málinu til streitu þar sem meiri hlutinn telur sig knúinn til að fylgja ríkisstjórninni sem ekki ætlar að verða við því að fólk þurfi ekki að ganga í gegnum skerðingu á vaxtabótum vegna hækkana á fasteignamati.

Við í 1. minni hluta, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, leggjum því til, herra forseti, að fjárhæð vaxtabóta eða frítekjumarki breytist líkt og eignarskatturinn og hækki um 20%. Með því yrði komið til móts við að vaxtabætur skerðist ekki.

Herra forseti. Í júní í sumar kom fram hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að það væri þverpólitísk samstaða um að skattahækkun sem afleiðing af hækkun á fasteignmati komi ekki til greina. Hv. þm. sagði orðrétt: ,,Já, ég tel að menn hljóti að fara í gegnum það hvaða áhrif þessi möt eða þessar breytingar á mötum hafa á skattatekjur og það yrði gert í haust.``

Þetta er sem sagt niðurstaðan, herra forseti, og ég harma hana. Með því að flytja þessa brtt. freistum við þess að ganga þannig frá málinu að hægt verði að standa við loforð sem efh.- og viðskn. gaf í sumar.

Herra forseti. Þar sem þetta er 3. umr. þessa máls vil ég fara nokkrum orðum um frv. í heild sinni. Ég held að ljóst sé þegar við erum núna komin til 3. umr. og höfum gengið í gegnum 2. umr. og atkvæðagreiðslu við hana, þar sem felldar voru veigamiklar brtt. sem 1. minni hluti, fulltrúar Samfylkingarinnar, flutti að nú liggja fyrir skýrir valkostir í skattapólitíkinni. Annar er kostur stjórnarflokkanna sem fyrst og fremst ganga erinda stórfyrirtækja og hinn er leið Samfylkingarinnar sem byggir á jafnræði og sanngirni í skattlagningu, bæði gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum. Það er allt annað sjónarhorn en hjá stjórnarflokkunum.

Samfylkingin hefur í tillögum sínum sett fram að hún telji mikilvægt að treysta starfsskilyrði og samkeppnishæfni atvinnulífsins, m.a. með því að gera skattalegt umhverfi með því besta sem þekkist í alþjóðlegum samanburði. Við viljum að skattkerfið endurspegli jafnræði í skattlagningu og sanngirni í dreifingu skattbyrði en það er langt frá því að skattbreytingatillögur stjórnarflokkanna nái því markmiði eins og við höfum ítarlega farið í gegnum.

Skattatillögur ríkisstjórnarinnar gagnast einkum stórfyrirtækjum. Það liggur fyrir í umsögnum ýmissa umsagnaraðila og m.a. kemur fram hjá Þjóðhagsstofnun að þær gagnist einkum fjármálafyrirtækjum og tryggingafélögum sem hagnist fyrst og fremst á þessari skattalækkun.

Tillögur Samfylkingarinnar, sem hafa verið felldar, eru heilsteyptar og viðamiklar og skýr valkostur á móti tillögum stjórnarflokkanna. Það sem er mikilvægt við þær tillögur er að þær fela í sér 3 milljarða kr. minni útgjöld fyrir ríki og sveitarfélög en skattatillögur stjórnarflokkanna, jafnvel þó að fallið sé frá óréttlátri hækkun á tryggingagjaldinu sem mismunar atvinnugreinum. Sem betur fer, herra forseti, er verið að reyna að fá þá hækkun að hluta eða öllu leyti út af borðinu.

Tillögur okkar tryggja líka betur hag einstaklinga og fyrirtækja vegna þess að við viljum fara í verulega lækkun á stimpilgjaldi, þ.e. lækka það um þriðjung. Við gerum ráð fyrir fjármagni til að standa undir því en um leið fela tillögur okkar það í sér að viðhalda því markmiði sem við viljum ná fram, þ.e. að íslensk fyrirtæki hafi hér ákveðið forskot í alþjóðlegu samhengi að því er skatta varðar. Jafnframt fela tillögur okkar það í sér að þær minnka þann mun sem er á skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja og milli launa og fjármagns en það mun draga úr skattasniðgöngu. Ég hygg að engin þjóð búi við jafnmikinn mun á skattlagningu á fyrirtækjum og á launum eins og við á Íslandi. Það hefur mjög alvarlegar afleiðingar og stuðlar að ójafnræði og ósanngirni í skattkerfinu.

Tillögur okkar fela í sér miklu minna tekjutap, sennilega um 1--1,5 milljarða kr. fyrir ríkissjóð. Það skýrist m.a. af því að við leggjum til að fjármagnstekjuskattur hækki úr 10 í 16% með ákveðnu frítekjugólfi sem hlífir hóflegum sparnaði en gefur engu að síður um 1,7 milljarða kr. í nettóviðbótartekjur fyrir ríkissjóð. Það þýðir aftur á móti að við þurfum ekki að fara í þá hækkun á tryggingagjaldi sem stjórnarflokkarnir áformuðu.

Ég tel jafnframt að engin rök hafi verið færð fyrir því af hálfu stjórnarflokkanna að ganga svo langt sem raun ber vitni í að lækka tekjuskatta á fyrirtæki, eða úr 30% í 18. Kostnaði við lækkunina er að verulegu leyti mætt með hækkun tryggingagjalds sem bitnar á fyrirtækjum með mikla launaveltu en lítinn hagnað. Ég held að það sé ekki eðlilegt, síst við þær aðstæður sem nú eru, að leggja skatt á rekstrarkostnað fyrirtækja eins og hér er gert. Við teljum nægjanlegt að fara með skatthlutfallið af tekjuskatti fyrirtækja niður í 25%. Eftir þá breytingu yrði Ísland með lægsta skatthlutfall innan OECD-ríkjanna og gildir þar einu þó að Írland sé tekið í þennan samanburð. Því hefur verið haldið fram að Írland skeri sig úr öðrum þjóðum fyrir lága skattheimtu. Þetta er stutt rökum og gögnum frá ríkisskattstjóra og má finna í nál. minni hlutans.

[14:15]

Það er ástæða til að benda á það líka að þegar arðgreiðslur eru skoðaðar eru skattgreiðslur á arð langlægstar á Íslandi eða aðeins um 10% á meðan flest ríki OECD eru með 25--48%. Þegar skattlagningin er skoðuð í heild, jafnvel þó að eignarskatturinn eins og hann er nú sé tekinn með, er skattlagning á íslensk fyrirtæki með því lægsta sem þekkist.

Við vörum mjög við því, herra forseti, að fyrirtæki í nýsköpun og þekkingariðnaði fari sérstaklega illa út úr þessari fyrirhuguðu hækkun á tryggingagjaldi. Sú hækkun kemur líka illa við einyrkja og þá sem þurfa að taka laun samkvæmt verktakagreiðslum. Sumum venjulegum réttum og sléttum launþegum er gert að taka laun sín í samræmi við verktakafyrirkomulagið og þetta kemur illa við það fólk. Við teljum sem sagt ranga skattastefnu að hækka tryggingagjald á meðan framtíðarmöguleikar þjóðarinnar og bætt lífskjör liggja fyrst og fremst í því að hlúa að mannauði og menntun þjóðarinnar.

Herra forseti. Ég tel miður að stjórnmálaflokkar á Alþingi hafi ekki getað sameinast um þá tillögu okkar að setjast yfir það ásamt verkalýðshreyfingunni og samtökum lífeyrisþega að skoða hvernig hægt væri að lækka eða fella niður skatta á tekjur sem eru undir lágmarkslaunum. Mér finnst það hreinlega til skammar fyrir íslenskt þjóðfélag að við skulum þurfa að skattleggja svo mikið þær tekjur sem eru 90 þúsund kr. og undir sem allir vita að duga ekki fyrir nauðþurftum. Ég hefði talið verðugt verkefni að reyna að skapa um það þjóðarsátt að ná niðurstöðu í því að draga úr skattlagningu á þessi laun. Hér er um að ræða 1 milljarð á ári sem þessir hópar, sem eru með laun undir 90 þús. kr., greiða í skatt til ríkis og sveitarfélaga. Það eru gífurlega miklir peningar, herra forseti, fyrir þetta fólk.

Það er líka athyglisvert að lífeyrisþegarnir skuli þurfa að borga sem svarar 70 þús. kr. á ári í skatta --- það samsvarar lífeyrisgreiðslu þeirra í einn mánuð frá Tryggingastofnun ríkisins --- á sama tíma og við erum að breyta sköttum, lækka skatta, heimila óeðlilegan hvata í yfirfærslu úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög með þeim afleiðingum sem við höfum farið hér í gegnum. Þetta lækkar verulega skattgreiðslur á kvótaeigendur, eins og komið hefur fram. Það gæti skipt milljörðum en á sama tíma erum við að skattleggja fátækt fólk í landinu upp á sem nemur um 1 milljarði kr. Þess vegna harma ég það, herra forseti, að svo hafi farið við 2. umr. þessa máls að tillaga okkar um ákvæði til bráðabirgða um nefnd sem skoði þessi mál án nokkurra skuldbindinga hafi verið felld.

Það er ekki nóg með að fólkið sem ber þessa miklu skattbyrði fái lítið út úr þessum skattatillögum ríkisstjórnarinnar heldur þarf það engu að síður að taka á sig verðlagsáhrifin af hækkun tryggingagjalds sem mun rýra kjör þess um 0,3--0,4%.

Herra forseti. Það væri auðvitað ástæða til þess að fara ofan í afleiðingar af þeim mikla mun sem er orðinn á skatthlutfalli á launafólki og fyrirtækjum. Og ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að rifja upp það sem ég sagði við 2. umr. um þetta mál. Þar var ég að vitna til greinargerðar ríkisskattstjóra í blaði sem embætti hans gefur út, Tíund, um hvað væri skaðlaus skattasamkeppni og lýsa því. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Skaðleg skattasamkeppni leiðir til brenglunar á fjármála- og þjónustustarfsemi. Hún leiðir til þess að skattbyrði flyst af fjármagni yfir á vinnuafl. Hún grefur undan jafnræði og trúverðugleika skattkerfisins, eykur skattaundanskot og skattasniðgöngu, veldur auknum kostnaði við skattaframkvæmd og rýrir skattatekjur ríkjanna.``

Það er einmitt þetta sem mér finnst lýsa vel tillögum stjórnarflokkanna. Það er verið að færa skattbyrði í auknum mæli af fjármagni og eignum yfir á vinnutekjur og laun með þeim afleiðingum að það verður munur á skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja sem getur orðið allt að 23% ef einnig er um að ræða hátekjuskatt. Slíkur munur er alls staðar talinn óeðlilegur enda veldur hann ójafnræði og ósanngjarnri skattframkvæmd og leiðir til skattaundanskota og óeðlilegrar tilhneigingar til að færa einstaklingsrekstur yfir í einkahlutafélög. Þannig geta einstaklingar í rekstri fært aukinn hluta launa yfir á hagnað og arð og greitt 10% skatt af stórum hluta launa sinna í stað 38 eða 42% með hátekjuskatti.

Reykjavíkurborg lýsti því hreinlega yfir í umsögn sinni að þetta gæti leitt til þess að einstaklingsrekstur legðist af og allir mundu færa sig, vegna þess mikla hvata og skattahagræðis sem er í þessu fyrirkomulagi, yfir í þetta form. Og þá er ekki að sökum að spyrja, herra forseti, hvað það þýðir fyrir tekjur sveitarfélaga en Reykjavíkurborg áætlar af þessum sökum 1.300 millj. kr. tekjutap.

Stjórnarflokkarnir eru sem sagt með óeðlilegum hætti að mínu viti að ýta undir stofnun einkahlutafélaga, líka með þeim afleiðingum að það mun ýta undir gerviverktakastarfsemi og auka skattasniðgöngu. Það er full ástæða til að halda því til haga hér, herra forseti, líka við 3. umr. málsins, að margir umsagnaraðilar vöruðu við þeirri leið sem ríkisstjórnin er að fara í þessu efni, bæði ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri, skattstjórar, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki og ASÍ.

Herra forseti. ASÍ gagnrýndi í umsögn sinni að dregið væri úr skattlagningu á eignir og fjármagn án þess að endurskoðun sé gerð á skattlagningu fjármagnstekna. Við tökum undir það og teljum að nú eigi að nota tækifærið, þegar verið er að lækka verulega eignarskatta, og skoða í því samhengi hækkun á fjármagnstekjuskatti sem er hvergi lægri innan OECD-ríkjanna en á Íslandi. Það viljum við gera frekar en að hækka tryggingagjald og það nær miklu betur því markmiði sem við viljum stuðla að um jafnræði og sanngirni í skattkerfinu.

Það sem er nauðsynlegt að halda til haga varðandi hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 10 í 16% er að sérstakt frítekjumark er tekið upp og þannig yrðu fjármagnstekjur hjá einstaklingum undir 100 þús. kr., og hjá hjónum undir 200 þús. kr., ekki skattlagðar og samkvæmt útreikningum embættis ríkisskattstjóra mundi það, miðað við álagningu þessa árs, fækka þeim sem greiða fjármagnstekjuskatt um 56 þús. manns, eða úr 78 þús. einstaklingum í 22 þús. einstaklinga. Hóflegur sparnaður yrði þannig undanþeginn skatti við þessa breytingu um leið og tekjur ríkissjóðs mundu aukast um 1.700 millj. kr. 56 þús. manns sem voru með hóflegan sparnað inni á bankabókum eða annars staðar og greiddu af því fjármagnstekjuskatt mundu þá, ef þessar tillögur hefðu náð fram að ganga eða væru í gildi á þessu ári, ekki greiða skatt.

Útreikningar ríkisskattstjóra sýna að af 24--25 milljarða fjármagnstekjuskattsstofni eiga 10% framteljenda 16 milljarða kr. af stofninum en 8 milljarðar skiptast á þau 90% framteljenda sem eftir eru.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Það er alveg ljóst að tillögur ríkisstjórnarinnar munu auka verulega á ójafnræði innan skattkerfisins og leiða til skattasniðgöngu. Einstaklingar munu í verulegum mæli, miklu meira mæli en áður, standa undir skatttekjum ríkissjóðs en 83% allra skatttekna koma nú frá einstaklingum. Ég tel því að tillögur stjórnarflokkanna séu vanhugsaðar og á þeim stórar gallar, eins og ég hef hér rakið.

Tillögur Samfylkingarinnar aftur á móti ná því markmiði að mismuna ekki atvinnugreinum, tryggja meira jafnræði, auka sanngirni í allri skattlagningu en viðhalda jafnframt alþjóðlegu skattaforskoti íslenskra fyrirtækja. Með tillögum okkar er unnt að efla atvinnulífið og styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki og sprotafyrirtæki, auka jafnræði á milli þeirra sem greiða skatta af launum og hinna sem greiða skatta af fjármagni, ásamt því að lækka skatta þeirra sem minnstar hafa tekjurnar. Það er þannig skattumhverfi, herra forseti, sem við í Samfylkingunni viljum stefna að. Því miður tókst það ekki í þessari lotu en, herra forseti, við munum halda áfram þar til þessar tillögur eru í höfn.