Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 14:27:18 (2913)

2001-12-11 14:27:18# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. hefur farið í gegnum það ítarlega nál. sem við í 1. minni hluta lögðum fram og var tekið hér til 2. umr. hefði hv. þm. væntanlega fengið svar við þessari fyrirspurn sinni. Við studdumst þar við tölur og gögn víðs vegar að þegar við gengum frá nál. okkar, ekki síst frá ríkisskattstjóra. Í þeim gögnum kemur fram, byggt m.a. á tölum frá OECD, að hér á landi eru tekjuskattar einstaklinga, og skattar einstaklinga almennt, hvort sem það eru tekjuskattar eða skattar á vöru og þjónustu, með því hæsta sem þekkist og skattar á fyrirtæki með því lægsta sem þekkist þó að þeir séu ekki allra lægstir eins og nú stendur á. Svo mun hins vegar verða eftir þessa breytingu ríkisstjórnarinnar.

Ríkisskattstjóri segir orðrétt að þessu sé þveröfugt farið hjá öðrum þjóðum, þar séu fyrirtækjaskattar almennt í heildina hærri en skattar á einstaklinga. Ég hef spurst fyrir um það þegar beinu skattarnir eru skoðaðir í heild sinni hvort hægt sé að benda mér á eitthvert land þar sem er meiri munur í skattlagningu en hér er, 23% --- arðgreiðslur eru hvergi lægri --- sem m.a. skýrir það sem ég hef verið að nefna hér, skattasniðgönguna. Svarið við því er að þetta sé hvergi lægra. Og allt þetta leiðir til þess, sérstaklega þessi lági fjármagnstekjuskattur sem er 10% hér á meðan hann er 25--48% annars staðar, að það er mjög freistandi að fara í þessa yfirfærslu sem leiðir til þeirrar skattasniðgöngu sem ég hef hér nefnt.