Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 14:31:38 (2915)

2001-12-11 14:31:38# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg sama hvort við berum saman beinu skattana eða óbeinu skattana. Það liggur algerlega fyrir varðandi óbeinu skattana, skatta á vöru og þjónustu, að þeir eru langhæstir hér á landi, og líka þegar við tökum óbeinu skattana í samanburð við það hvaða þýðingu það hefur ef einhver hefur aðstöðu til þess, eins og margir munu hafa við þessa yfirfærslu úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag, að færa verulegan hluta tekna sinna yfir í söluhagnað sem ber einungis 10% skatt.

Af hverju skyldi svo vera að það erum ekki bara við í Samfylkingunni sem höfum áhyggjur af þessu heldur Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki, allir skattstjórar, skattrannsóknarstjóri og ríkisskattstjóri? Það er af því að orðinn er óeðlilega mikill munur á skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja. Því væri athyglisvert að spyrja hv. þm.: Þegar verið er að lækka eignarskattana eins mikið eins og raun ber vitni, um nær 4 milljarða kr., telur hv. þm. þá ekki eðlilegt á sama tíma að fara í að hækka lítillega fjármagnstekjuskattinn sem gefur í nettótekjur í ríkissjóð 1.700 millj. kr. jafnvel þó að sett sé ákveðið fríeignamark í fjármagnstekjuskatti? Hv. þm. hefur ekkert tjáð sig um það núna þegar verið er að lækka verulega eignarskattana, kannski neðar en hjá mörgum öðrum þjóðum sem eru með hærri fjármagnstekjuskatt en við. Af hverju var þá ekki eðlilegt og rétt að nota tækifærið í staðinn fyrir að hækka tryggingagjaldið og hækka frekar fjármagnstekjuskattinn?