Húsnæðismál

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 15:35:49 (2925)

2001-12-11 15:35:49# 127. lþ. 48.2 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða frv. sem felur í sér að verið er að veita Íbúðalánasjóði eða stjórn Íbúðalánasjóðs heimild til að afskrifa hluta af skuldum sveitarfélags við Íbúðalánasjóð, þ.e. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra. Ég verð að segja að ég tel fullkomlega eðlilegt að stjórn Íbúðalánasjóðsins fái slíka heimild.

Það er ekki skýr heimild fyrir í lögunum. Gerð var breyting á þessum lögum í fyrra þar sem sambærileg heimild var veitt gagnvart einstaklingum. En ég er þeirrar skoðunar að þótt ríkissjóður tapi á afskriftum séum við þó að ná þarna inn ákveðnum fjármunum með slíkum heimildum því verið er að tengja niðurfellingu hluta af skuldum sveitarfélags ákveðinni greiðslu frá þeim þannig að þessi leið mun minnka tap Íbúðalánasjóðsins að mínu mati. Því tek ég undir þetta frv.

Herra forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að ræða þetta frekar. Hér erum við í 1. umr. um málið og málið á eftir að fara til hv. félmn. þar sem við skoðum það nánar. En við fyrstu athugun get ég ekki séð annað en að þetta sé verulega til bóta, bæði ríkissjóði og Íbúðalánasjóði, og er hvetjandi fyrir illa stödd sveitarfélög að koma þó með einhverja greiðslu þegar þessi leið er farin.