Húsnæðismál

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 15:38:07 (2926)

2001-12-11 15:38:07# 127. lþ. 48.2 fundur 358. mál: #A húsnæðismál# (afskrift af skuldum sveitarfélaga) frv. 155/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[15:38]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum breytingu á lögum um húsnæðismál og þar er lagt til að stjórn Íbúðalánasjóðs verði heimilt að lækka eða fella niður hluta af skuldum.

Íbúðalánakerfið var þannig uppbyggt að fólk fékk lán með lágum vöxtum, oft niður í 1%, stundum eitthvað eilítið hærri. Það var sem sagt vaxtaniðurgreiðsla í gangi en jafnframt tók fólk á sig kvaðir vegna þeirra íbúða sem það fékk, þær kvaðir að þær íbúðir væru áfram í félagslega kerfinu. Það mátti t.d. ekki selja þær nema ákveðnum aðila. Ekki mátti framleigja þær og alls konar kvaðir voru á þessum íbúðum.

Nú er það svo að þegar ríkissjóður tekur lán með 5--6% vöxtum en fær inn 1% eða 2% vexti í gegnum Íbúðalánasjóð þá er hann að tapa á hverju ári. Það liggur fyrir. Sá sem nýtur vaxtanna er að græða. Þannig verður það út lánstímann sem um er að ræða. Þetta tap er hægt að reikna út með svokallaðri núvirðingu og það er það sem mér finnst að þurfi að beita í öllum þessum lánum. Það á hreinlega að núvirða þessi lán sem oft og tíðum veldur því að þau eru ekki nema helmingsvirði miðað við það sem nafnverðið segir til um eða eftirstöðvar, og núvirðið er hið raunverulega verðmæti fyrir ríkissjóð. Hann á ekki von á meiri tekjum af þessu láni en sem nemur kannski um helming. Þess vegna hefur myndast hjá Byggingarsjóði verkamanna hinum gamla 6 milljarða kr. halli ríkissjóðs. Mér finnst að menn eigi að horfast í augu við þetta almennt og bjóða hverjum sem hafa vill niðurfellingu á þessum lágu vöxtum með greiðslu gegn því að fella niður kvaðir af viðkomandi íbúð þannig að þetta verði bara ósköp venjuleg íbúð til sölu með venjulegum kjörum. Þetta finnst mér að eigi að bjóða bæði sveitarfélögum --- og það er verið að gera í þessu frv., samt með alls konar kvöðum. Það er verið að bjóða þeim sjálfsagðan hlut ef þau uppfylla ákveðin skilyrði. Mér finnst að það eigi bara að veita þetta almennt öllum sem hafa vilja gegn því að þeir greiði upp lánið, þ.e. njóti ekki lengur vaxtaniðurgreiðslunnar, og um leið er hægt að fella niður kvaðir á viðkomandi íbúð. Þar með yrði þetta mál leyst og vandi margra sveitarfélaga um allt land, jafnt á Austfjörðum sem Vestfjörðum, yrði leystur og þyrfti ekki ævintýri eins og Orkubú Vestfjarða til að leysa vandann. Ég held að það væri miklu skynsamlegra að fara þessa leið og horfast í augu við það tap sem Byggingarsjóður verkamanna er þegar kominn í, þessar 6.000 millj. sem hallinn á honum er. Þetta finnst mér að eigi að gera almennt og koma þannig til móts við það fólk sem býr í slíkum íbúðum í Reykjavík t.d. og hefur ekki mátt selja þær.